Innherji

Ekki skýrt á hvaða vegferð Skeljungur er að mati Gildis

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Skeljungur rekur meðal annars 60 bensínstöðvar undir merkjum Orkunnar á Íslandi.
Skeljungur rekur meðal annars 60 bensínstöðvar undir merkjum Orkunnar á Íslandi. VÍSIR/VILHELM

Miklar breytingar hjá Skeljungi og óljós vegferð félagsins voru á meðal þeirra þátta sem höfðu áhrif á ákvörðun Gildis lífeyrissjóðs um að selja megnið af eignarhlutum sínum Skeljungi. Þetta segir Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis.

Gildi seldi hlutabréf í Skeljungi fyrir tæplega 2,3 milljarða króna í síðustu viku en við það minnkaði eignarhlutur lífeyrissjóðsins, sem var fyrir söluna næst stærstu hluthafi Skeljungs, úr 10,7 prósentum niður í 2,7 prósent.

„Við vorum sátt við að innleysa stóran hluta af okkar fjárfestingu í félaginu á þessum tímapunkti, töluverð hækkun sem orðið hefur á genginu á undanförnum mánuðum og söluverð okkar umtalsvert hærra en yfirtökutilboðið sem okkur stóð til boða fyrir liðlega ári síðan,“ segir Davíð í skriflegu svari við fyrirspurn Innherja.

Davíð vísar þar til yfirtökutilboðs Strengs, stærsta hluthafa Skeljungs, í ársbyrjun 2021, en það hljóðaði upp á 8,315 krónur á hlut. Gildi var á meðal þeirra lífeyrissjóða sem höfnuðu tilboðinu sökum þess að tilboðsverðið væri lægra en mat sjóðanna á virði félagsins. Síðan þá hefur gengi hlutabréfa Skeljungs hækkað verulega og þegar Gildi seldi megnið af hlut sínum í síðustu viku stóð það 14,6 krónum á hlut.

Strengur stefndi að því að afskrá Skeljung og eftir að yfirtökutilboðið var lagt fram fór Gildi þess á leit við fjármála- og efnahagsráðuneytið að núgildandi reglur um yfirtöku og yfirtökutilboð, sem kveða á um yfirtökuskyldu þegar fjárfestir eða hópur tengdra aðila er kominn með samanlagt 30 prósenta atkvæðisrétt í skráðu félagi, yrðu teknar til endurskoðunar.

Bentu stjórnendur Gildis á að hluthafar gætu átt hættu á að læsast inni sem áhrifalitlir eigendur ef þeir samþykktu ekki það tilboð sem er sett fram þegar 30 prósenta þröskuldinum er náð.

„Inn í það spilar jafnframt,“ bætir Davíð við um sölu Gildis í Skeljungi, „að félagið er mikið breytt og að okkar mati ekki skýrt á hvaða vegferð það er.“

Verulegar breytingar hafa orðið á starfsemi Skeljungs að undanförnu. Reksturinn var stokkaður upp með stofnun nýrra dótturfélaga og tilgangi félagsins breytt þannig að megintilgangur þess yrði fjárfestingastarfsemi. Gildi lagðist ýmist gegn eða sat hjá þegar greidd voru atkvæði um breytingar á samþykktum Skeljungs í október á síðasta ári.

Í lok síðasta árs gekk Skeljungur frá sölu á Magni til Sp/f Orkufélagsins. Endanlegt kaupverð nam 12,2 milljörðum króna en Skeljungur er skuldbundinn til að endurfjárfesta 2,8 milljörðum króna í Orkufélaginu gegn því að eignast ríflega 48 prósenta hlut.

Þá skrifaði Skeljungur undir viljayfirlýsingu um sölu fasteigna fyrir 8,8 milljarða króna til fasteignaþróunarfélagsins Kaldalóns. Þeir fjárfestar sem standa að baki Strengi eru sömuleiðis ráðandi hluthafar í Kaldalóni.

Auk Gildis losuðu einnig aðrir lífeyrissjóðir í hluthafahópi Skeljungs, einkum Birta, um hlut sinn. Á meðal kaupenda var bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital, sem var stærsti hluthafi Arion banka um nokkurt skeið, en sjóðurinn keupti rúmlega fimm prósenta hlut í Skeljungi.

Taconic Capital var á meðal þeirra fjárfesta og fjármálastofnana sem komu að fjármögnun á skuldsettri yfirtöku félagsins Strengs, sem hjónin Ingibjörg Pálmadóttur og Jón Ásgeir Jóhannesson og Sigurður Bollason fara meðal annars fyrir, á Skeljungi í ársbyrjun 2021, samkvæmt heimildum Innherja.

Þá bættist félagið GE Capital í eigu Guðna Rafns Eiríkssonar, fjárfestis og eiganda Apple umboðsins á Íslandi, við hluthafahóp Skeljungs með kaupum á rétt yfir fimm prósenta hlut.


Tengdar fréttir

Skeljungur stefnir að sölu fast­eigna fyrir 8,8 milljarða

Fasteignafélagið Kaldalón mun kaupa þrettán fasteignir af Skeljungi fyrir tæpa sex milljarða króna. Þá hefur Skeljungur samþykkt viljayfirlýsingar um sölu á fimm fasteignum til annarra aðila og á sömuleiðis í viðræðum um sölu á einni fasteign til viðbótar. Gangi öll viðskiptin eftir nemur áætlað söluvirði umræddra fasteigna 8.788 milljónum króna.

Skipta rekstrinum upp og flytja í ný dótturfélög

Stjórn Skeljungs hyggst skipta rekstrareiningum félagsins upp og flytja stærstan hluta þeirra í tvö ný dótturfélög. Breytingin er sögð liður í því að skerpa frekar á áherslum í rekstri Skeljungs. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.