Körfubolti

Martin stórkostlegur með hundrað prósent skotnýtingu í 22 stiga leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson var mjög flottur með Valencia í kvöld.
Martin Hermannsson var mjög flottur með Valencia í kvöld. Getty/JM Casares/

Íslenski landsliðsbakvörðurinn Martin Hermannsson átti magnaðan leik í spænska körfuboltanum í kvöld þegar lið hans Valencia vann fjögurra stiga sigur á Lenovo Tenerife, 92-88, á heimavelli sínum.

Martin var stigahæstur í sínu liði og klikkaði ekki á einu skoti í leiknum.

Þetta var mikilvægur sigur enda Lenovo Tenerife liðið í næsta sæti fyrir neðan Valencia í töflunni. Valencia styrkti þar með stöðu sína í fimmta sætinu.

Valencia menn voru þarna að vinna sinn fjórða deildarleik í röð.

Martin var með 22 stig og 5 stoðsendingar en hann hitti úr öllum átta skotum sínum í leiknum þar af öllum fjórum þriggja stiga skotunum. Martin var bæði stigahæstur og stoðsendingahæstu í sínu liði.

Valencia var átján stigum yfir í hálfleik, 47-29, þar sem Martin var kominn með 11 stig og 2 stoðsendingar.

Tenerife menn minnkuðu muninn niður í fimm stig, 67-62, fyrir lokaleikhlutann. Þeir náðu síðan að jafna metin í 73-73.

Martin var allt í öllu í sóknarleik Valencia og kom liðinu í 85-78 með frábætum þrist á lokakaflanum.

Tenerife gafst ekki upp en Martin og félagar náðu að klára leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×