Innherji

Hagnaður Stefnis tvöfaldast og var yfir 1.600 milljónir

Hörður Ægisson skrifar
Sjóðastýringarfyrirtækið er í eigu Arion banka en samþykkt var arðgreiðsla upp á 1.456 milljónir til hluthafa vegna síðasta rekstrarárs. Stjórn Stefnis skoðar að greiða frekari arð síðar á árinu.
Sjóðastýringarfyrirtækið er í eigu Arion banka en samþykkt var arðgreiðsla upp á 1.456 milljónir til hluthafa vegna síðasta rekstrarárs. Stjórn Stefnis skoðar að greiða frekari arð síðar á árinu. VÍSIR/VILHELM

Sjóðastýringarfyrirtækið Stefnir skilaði hagnaði upp á 1.618 milljónir króna á árinu 2021, sem einkenndist af verðhækkunum í Kauphöllinni og aukinni ásókn almennings í hlutabréfafjárfestingar, og jókst hann um 93 prósent frá fyrra ári. Eignir í virkri stýringu Stefnis, sem er í eigu Arion banka, jukust um 58 milljarða og námu 288 milljörðum í árslok.

Á aðalfundi félagsins fyrr í þessum mánuði var samþykkt tillaga stjórnar um arðgreiðslu til hluthafa að fjárhæð 1.456 milljónir vegna síðasta rekstrarárs. Stjórn Stefnis segist jafnframt vera með það til skoðunar að leggja til frekari arðgreiðslur síðar á árinu en eigið fé sjóðastýringarfélagsins var yfir 3,2 milljarðar í ársbyrjun og eiginfjárhlutfallið um 67 prósent.

Hreinar rekstrartekjur Stefnis, sem samanstanda nánast einvörðungu af umsýslu- og árangurstengdum þóknunum, hækkuðu um liðlega 1.030 milljónir á milli ára og voru samtals 3.313 milljónir króna í fyrra.

Aukning í virkum eignum í stýringu Stefnis skýrist að þriðjungi til vegna innflæðis í nýja sjóði í rekstri félagsins en auk þess var góð ávöxtun í flestum eignaflokkum, sérstaklega í hlutabréfum. Á árinu hafi sjóðfélögum hjá Stefni fjölgað verulega, að því er segir í skýrslu stjórnar með nýjum ársreikningi, en það má rekja til „vel heppnaðrar markaðssóknar, aukinni verðbréfavitund almennings auk þess sem sjóðir Stefnis urðu aðgengilegir í appi Arion banka.“

Sjóðurinn Stefnir – innlend hlutabréf, stærsti innlendi hlutabréfasjóðurinn með eignir í stýringu að fjárhæð um 34 milljarða, skilaði þannig 49 prósenta ávöxtun í fyrra sem var næst besti árangurinn af þeim hlutabréfasjóðum sem eru opnir almenningi. Hreint innflæði vegna fjárfestinga í sjóðnum á árinu 2021 var um 1.425 milljónir króna.

Jóhann Möller tók við sem framkvæmdastjóri Stefnis um mitt árið 2020.

Lágir vextir hafa ýtt sparifjáreigendum í áhættumeiri fjárfestingar á síðustu misserum og hefur áhugi almennings á verðbréfasjóðum samtímis þeirri þróun stóraukist. Nær stöðugt innflæði hefur verið í bæði hlutabréfasjóði og blandaða sjóði í að verða um tvö ár og á árinu 2021 liðlega fjórfaldaðist það frá fyrra ári. Samanlagðar fjárfestingar í slíka sjóði voru um 58 milljarðar á liðnu ári.

Í skýrslu stjórnar Stefnis kemur fram að félagið hafi stofnað fimm nýja sjóði á síðasta ári. Þar hafi borið hæst fjórði SÍA framtakssjóðurinn, sem var komið á fót um vorið í fyrra og var 16 milljarðar króna að stærð, en nokkur umframeftirspurn var hálfu fjárfesta í hann svo að skerða þurfti fjárfesta. Sjóðurinn er núna að klára fyrstu fjárfestingu sína, eins og Innherji greindi frá í síðustu viku, en SÍA IV og framtakssjóðurinn Freyja, sem er í rekstri Kviku eignastýringar, leiða kaup á starfsemi Promens á Íslandi af bandarísku fyrirtækjasamsteypunni Berry Global sem er eigandi plastframleiðslufyrirtækjanna Sæplasts og Tempra. Kaupverðið er sagt vera á annan tug milljarða króna.

Þá ýtti Stefnir úr vör nýjum átta milljarða lánasjóði, SÍL, sem gefur út skráð skuldabréf í Kauphöllinni auk þess að stofna meðal annars Stefni – Arðgreiðslusjóð, sem er fyrsti sjóðurinn sinnar tegundar hér á landi. Hann fjárfestir eingöngu í þeim innlendu félögum sem greiða eða er fyrirsjáanlegt að muni greiða arð til hluthafa sinna.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×