Menning

Eitt elsta bíó landsins brátt fyrir bí

Eiður Þór Árnason skrifar
Borgarbíó hefur átt fastan sess í lífi Norðlendinga á sjöunda áratug. 
Borgarbíó hefur átt fastan sess í lífi Norðlendinga á sjöunda áratug.  Sena

Sögu eins elsta kvikmyndahúss landsins lýkur þann 1. maí þegar Borgarbíó á Akureyri hættir starfsemi. Verktakafyrirtækið BB Byggingar hefur keypt húsnæðið og fyrirhuguð er uppbygging á íbúðar- og verslunarrými á reitnum og nærliggjandi svæði. Meðal hugmynda er að rífa húsið og byggja nýtt.

„Þetta er töluvert mikil synd en auðvitað hefur bíóbransinn aðeins liðið fyrir Covid og allt þetta,“ segir Konstantín Mikaelsson, framkvæmdastjóri afþreyingar hjá Senu, sem hefur rekið bíóið frá árinu 2008.

„Svo núna eftir Covid þá hefur bíóbransinn dregist að einhverju leyti saman og kannski meira á Akureyri en annars staðar. Hann er kominn sterkari til baka á höfuðborgarsvæðinu en fyrir norðan.“

Alls starfa fjórtán starfsmenn hjá Borgarbíói en þar af eru tveir í fullu starfi. Um er að ræða rúm þrjú heilsársstörf en þau voru fimm áður en heimsfaraldurinn skall á. Bíósætin og sýningarvélarnar eru nú til sölu og hefur verið leitað tilboða hjá öllum aðilum sem reka kvikmyndahús á Íslandi.

Leigusamningur Senu rennur út í vor en Konstantín telur að eftirstandandi kvikmyndahús Sambíóanna við Ráðhústorg muni líklega geta sinnt bænum ágætlega eitt og sér. Þegar markaðurinn hafi verið upp á sitt besta hafi aðsóknin á Akureyri verið á mörkum þess að standa undir tveimur bíóum.

Frá opnun Borgarbíós þann 22. janúar 1956.Tímarit.is/Eining

Kvikmyndahús bindindismanna

Borgarbíó var stofnað af góðtemplurum á Akureyri árið 1956 þegar samkomusal í æskulýðsheimilinu Varðborg var breytt í sýningasal. Kvikmyndasalurinn rúmaði 300 manns í sæti og var í norðurenda hússins sem hýsir í dag Hótel Norðurland.

Fram kom í Einingu, mánaðarblaði um bindindis- og menningarmál, að sýningarsalurinn hafi verið vígður með sérstakri sýningu fyrir góðtemplara og svo verðlaunamyndinni Sveitastúlkunni. Í kjölfarið var sýnd upptaka af Nóbelsverðlaunaafhendingunni þar sem Halldór Kiljan Laxness tók á móti heiðurslaunum sínum úr hendi Svíakonungs. 

Ágóðinn af kvikmyndasýningum í Borgarbíói rann til æskulýðsstarfs góðtemplara en það var um tíma eina kvikmyndahúsið í bænum eftir að Nýja bíó, nú Sambíó, hætti starfsemi.

Nýi inngangurinn sem reis árið 1986 er enn notaður í dag. Timarit.is/Morgunblaðið

„Borgarbíó á að vera afl þeirra hluta og undirstaða fjárhagslega, sem hafi bætandi áhrif á þær kynslóðir, sem taka við af okkur, því við höfum þá trú og viljum að því vinna, að æskufólk þessa bæjar fái aðstöðu til í æskulýðsheimili okkar hér í þessu sama húsi, að leggja auðugri af kunnáttu og andlegum þroska út á brautir lífsins, sem hafa reynzt allt of mörgu æskufólki viðsjálar,“ sagði Stefán Ág. Kristjánsson, fyrsti framkvæmdarstjóri Borgarbíós, í ræðu sinni við opnunina þann 22. janúar 1956.

Árið 1986 var byggt við Borgarbíó og reist tengibygging með nýjum inngangi vestur úr bíóinu og öðrum kvikmyndasal bætt við. Bíóið er enn á sama stað í dag en líkur eru á því að byggingin muni brátt víkja fyrir nýrri uppbyggingu.

Stúkurnar Brynja og Ísafold sáu lengi um rekstur Borgarbíós en þær tilheyrðu bindindishreyfingunni IOGT á Íslandi.Tímarit.is/Dagur

Slógu met í miðju samkomubanni

Sambíóunum á Akureyri mun sem fyrr standa til boða að sýna þær kvikmyndir sem Sena dreifir og hefur sýnt í Borgarbíói. Þeirra á meðal eru myndir frá Sony Pictures kvikmyndaverinu.

„Það sem við sjáum nú eftir að þessar hömlur eru farnar er að bíóbransinn sem slíkur er mjög sterkur enn þá. Við opnuðum til dæmis Spiderman: No Way Home í miklum höftum 17. desember og það var tekjuhæsta helgaropnun allra tíma á Íslandi. Það er enn töluvert mikill áhugi á að fara á þessar stærri bíómyndir í bíó,“ segir Konstantín. Sömuleiðis hafi nýjasta James Bond myndin slegið í gegn hér á landi.

Ef horft er til aðsóknar þá var opnunarhelgi Spiderman á landsvísu sú þriðja aðsóknarmesta frá því að mælingar hófust. Einungis stórmyndin The Hobbit frá árinu 2012 og framhaldsmyndin The Hobbit: The Desolation of Smaug frá árinu 2013 drógu fleiri að á opnunarhelgi.

„Þess vegna erum við bjartsýn á bransann sem slíkan, ef þetta er hægt í Covid með hundrað manna samkomutakmarkanir þá er ýmislegt hægt,“ segir Konstantín.

Færri myndir í bíó

Rekstrarumhverfi kvikmyndahúsa hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum, ekki síst með tilkomu streymisveitna og VOD-leiga. Á stuttu tímabili hafa flestöll stóru kvikmyndaverin í Hollywood opnað eigin streymisveitur og eru dæmi um að þau bjóði fólki upp á að horfa á nýjar kvikmyndir í sófanum heima um leið og þær koma í kvikmyndahús.

Konstantín á von á því að færri kvikmyndir verði jafnvel sýndar í bíó og minni myndirnar fari frekar beint inn á streymisveitur. Kvikmyndahúsin muni áfram leggja áherslu á stórmyndir sem dragi marga að.

Hann segir að íslenskar bíómyndir njóti sömuleiðis oft mikilla vinsælda og þær eigi án efa eftir að styðja við rekstur íslenskra kvikmyndahúsa í breyttu umhverfi.

„Bransinn mun að mörgu leyti ná sér til baka [eftir heimsfaraldurinn] en hann mun breytast, ég held að það sé alveg ljóst,“ segir Konstantín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×