Innherji

EpiEndo stækkar stjórnendateymið með ráðningu Stefáns sem fjármálastjóra

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Stefán hefur meira en 20 ára reynslu sem fjármálastjóri, bæði hjá Arion banka og áður Landsvirkjun.
Stefán hefur meira en 20 ára reynslu sem fjármálastjóri, bæði hjá Arion banka og áður Landsvirkjun. Samsett mynd

Lyfjaþróunarfyrirtækið EpiEndo Pharmaceuticals hefur ráðið Stefán Pétursson, sem stýrði fjármálasviði Arion banka í ellefu ár þangað til hann lét af störfum í fyrra, sem fjármálastjóra. Eftir ráðningu Stefáns eru starfsmenn fyrirtækisins orðnir 19 talsins og hefur fjöldi þeirra tvöfaldast frá því í september í fyrra.

EpiEndo er fyrsta íslenska fyrirtækið til þess að hefja klínískar rannsóknir á fólki vegna þróunar á frumlyfi. Ef vel tekst til getur lyfið EP395 orðið fyrsta íslenska frumlyfið og jafnframt fyrsta bólgueyðandi lyfið í töfluformi sem hægt er að nota til langtímameðferðar við langvinnri lungnateppu.

Stefán, sem er með Cand.Ökon gráðu frá Háskóla Íslands og MBA frá Babson College í Boston, hefur yfir 20 ára reynslu sem fjármálastjóri, bæði hjá Arion banka og áður Landsvirkjun. Hann mun taka við stöðu fjármálastjóra af Finni Friðriki Einarssyni sem mun áfram sinna stöðu rekstrarstjóra.

„Félagið er í farabroddi í þróun lyfja sem geta bætt lífsgæði milljóna einstaklinga á heimsvísu. EpiEndo hefur þegar náð umtalsverðum árangri í þróunarstarfinu og ég stefni að því að leggja mitt af mörkum til að félagið nái þeim mikilvægu áföngum sem framundan eru,“ segir Stefán.

Stór ástæða fyrir aukningu í starfsmannafjölda er opnun efnafræðirannsóknarstofu í Stokkhólmi þar sem félagið stefnir að því að hanna og þróa fleiri lyf með þekjustyrkjandi eiginleikum til meðferðar á bólgusjúkdómum í öðrum yfirborðsþekjum en öndunarveginum. Efnin sem smíðuð eru í Stokkhólmi verða eins og forverar þeirra rannsökuð og prófuð af líffræðingum EpiEndo á Íslandi.

Síðasta sumar tryggði EpiEndo sér fjármögnun að fjárhæð 20 milljónir evra, jafnvirði 2,8 milljarða króna miðað við núverandi gengi, til þess að halda áfram klínískum rannsóknum.

EpiEndo hefur þegar náð umtalsverðum árangri í þróunarstarfinu og ég stefni að því að leggja mitt af mörkum til að félagið nái þeim mikilvægu áföngum sem framundan eru

Fjórir fjárfestar leiddu hlutafjáraukninguna en það voru ABC Venture, sem er stýrt af Ívari Guðjónssyni, framtakssjóðurinn Iðunn, sem leggur áherslu á fjárfestingar í lífvísindum og heilsutækni, og sænska fjárfestingafélagið Flerie Invest, sem er í eigu Thomas Eldered, stofnanda lyfjarisans Recipharm, og fjárfestingasjóðurinn EIC Fund, sem er í eigu Evrópusambandsins.

Eftir fjármögnunina eru ABC fund, Iðunn, EIC fund og Flerie Invest stærstu hluthafar EpiEndo ásamt stofnandanum, Friðriki Rúnari Garðarssyni. Aðrir stórir hluthafar samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2020 eru Magnús Kristinsson útgerðarmaður, Torfi G. Yngvason, eigandi Airport Direct Iceland og Ólafur Björnsson, eigandi heildsölunnar Innes.

Það gætið tekið á bilinu sjö til níu ár að fá markaðsleyfi fyrir EP395 ef klínísku rannsóknirnar ganga vel. Verði það niðurstaðan er ljóst að íslenska fyrirtækið mun sitja á gríðarlega verðmætu leyfi. Langvinn lungnateppa er þriðja algengasta dánarorsök í heimi og samkvæmt stjórnendum fyrirtækisins er áætlað að markaður fyrir lyf gegn sjúkdóminum verði um 20 milljarðar Bandaríkjadala að stærð árið 2026.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×