Innherji

Aukið svigrúm lífeyrissjóða til að fjárfesta erlendis „mjög jákvætt skref“

Hörður Ægisson skrifar
Seðlabankastjóri segist „skilja að stjórnvöld vilji taka varfærin skref“ við að rýmka fjárfestingarheimildirnar en til framtíðar litið telji hann samt að skipting milli erlendra og innlendra eigna sjóðanna eigi ekki að skipta miklu máli.
Seðlabankastjóri segist „skilja að stjórnvöld vilji taka varfærin skref“ við að rýmka fjárfestingarheimildirnar en til framtíðar litið telji hann samt að skipting milli erlendra og innlendra eigna sjóðanna eigi ekki að skipta miklu máli. Foto: Vilhelm Gunnarsson

Seðlabanki Íslands telur að áform fjármála- og efnahagsráðherra um að rýmka heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í erlendum eignum í áföngum allt fram til ársins 2038 séu „mjög jákvætt skref“. Það sé ljóst að þegar ferðaþjónustan tekur við sér af fullum krafti þá „munum við þurfa á lífeyrissjóðunum að halda við að kaupa þann gjaldeyri“ sem mun streyma til landsins.

Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í viðtali við Innherja síðastliðinn miðvikudag eftir yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar. „Seðlabankinn getur ekki verið nettó kaupandi að gjaldeyri á markaði til lengri tíma litið,“ að sögn Ásgeirs. Lífeyrissjóðirnir gegni þess vegna mikilvægu „sveiflujafnandi hlutverki“ við að tryggja jafnvægi á gjaldeyrismarkaði enda þótt Seðlabankinn þurfi stundum að beita inngripum þegar kaup- eða söluhliðin „hverfur“ eins og gerðist í byrjun mánaðarins þegar hann seldi gjaldeyri til að stemma stigu við miklum þrýstingi á gengi krónunnar til lækkunar.

Í frumvarpsdrögum Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, sem voru birt fyrr í þessum mánuði, er lagt til að lögbundið hámark erlendra eigna sjóðanna verði fært úr því að vera að hámarki 50 prósent af heildareignum upp í 65 prósent. Á sú breyting að taka gildi í fimmtán jafn stórum skrefum á árunum 2024 til 2038. Forsvarsmenn sumra af stærstu sjóðunum, eins og Innherji hefur sagt frá, hafa gagnrýnt að ekki sé gengið lengra í þeim efnum og framkvæmdastjóri LSR hefur kallað eftir því að fjárfestingarþakið verði hækkað „hraðar og meira.“

Spurður um þau sjónarmið lífeyrissjóðanna segir seðlabankastjóri að hann „skilji að stjórnvöld vilji taka varfærin skref“ við að rýmka fjárfestingarheimildirnar en til framtíðar litið telji hann samt að þessi skipting milli erlendra og innlendra eigna sjóðanna eigi ekki að skipta miklu máli.

Þá bendir hann á að lífeyrissjóðirnir hafi hagnast mikið á innlendum hlutabréfamarkaði að undanförnu sem hefur aukið svigrúm þeirra að sama skapi til að ráðstafa nýjum iðgjöldum til fjárfestinga á erlendum mörkuðum.

Lífeyrissjóðirnir eru langsamlega stærstu fjárfestarnir á hlutabréfamarkaði hérlendis og hefur innlend hlutabréfaeign þeirra aukist mikið á undanförnum árum, samhliða miklum verðhækkunum í Kauphöllinni, og ekki verið hlutfallslega meiri frá 2007. Á árunum 2020 og 2021 hækkuðu eignir sjóðanna í innlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum úr tæplega 700 milljörðum í 1.160 milljarða og eru nú um 17 prósent af heildareignum þeirra.

Í frumvarpi Bjarna er jafnframt tillaga um að hámark fjárfestinga í erlendri mynt verði eingöngu bindandi á viðskiptadegi fjárfestingar. Það hefur í för með sér að ef gengisþróun eða verðþróun á mörkuðum leiðir til þess að erlendar eignir lífeyrissjóða fara upp fyrir þakið hverju sinni verður sjóðum ekki gert að selja eignir til þess komast niður fyrir það líkt og nú er. Frekari fjárfestingar sem auka gjaldmiðlaáhættuna verði þó óheimilar meðan fjárfestingar eru umfram hámark.

Með þessu móti, að sögn fjármálaráðuneytisins, er stefnt að því að lífeyrissjóðir geti betur nýtt þær heimildir sem þeir hafa til fjárfestinga í eignum í erlendum gjaldmiðlum.

Seðlabankastjóri segir þetta vera „mikilvæga breytingu“ á lögunum. Sjóðirnir geti þá hugsað fjárfestingar sínar í erlendum gjaldmiðlum til lengri tíma „án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að vera teknir á teppið hjá fjármálaeftirliti Seðlabankans“ ef þeir fara óvart yfir lögbundna hámarkið vegna utanaðkomandi þátta og þurfa að leiðrétta það innan þriggja mánaða með því að selja eignir.

Vægi eigna í erlendum gjaldmiðlum í eignasöfnum lífeyrissjóðanna hefur farið stöðugt vaxandi á undanförnum árum og áratugum og þá um leið haft sífellt meiri áhrif á raunávöxtun heildareigna þeirra. Í lok ársins 1998 var hlutfall erlendra eigna rúmlega 12 prósent, tveimur árum síðar stóð það í 22 prósentum og í árslok 2021 var það komið í 36 prósent. Í tilfelli tveggja stærstu sjóðanna – LSR og LIVE – er hlutfallið hins vegar komið í um 45 prósent sem gerir þeim að óbreyttu ókleift að auka það frekar án þess að eiga hættu á að fara upp fyrir þakið vegna meðal annars sveiflna í gengi krónunnar.

Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hafa í nokkurn tíma sagt nauðsynlegt að hækka þakið sem sé orðið íþyngjandi fyrir sjóðina sem hafa síaukna fjárfestingarþörf – hún er talin vera nettó yfir 400 milljarðar í ár – en takmarkað svigrúm til að ráðstafa fénu á íslenskum fjármagnsmarkaði.

Á síðasta ári námu hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna um 54 milljörðum króna sem var svipuð fjárhæð og á árinu 2020.


Tengdar fréttir

Seðlabankastjóri segir að samfellt kaupmáttarskeið sé mögulega komið á enda

Það er „engin ástæða til að örvænta yfir þessari þróun,“ að sögn Ásgeir Jónssonar seðlabankastjóra, þegar hann er spurður út í hækkandi verðbólguvæntingar fjárfesta á skuldabréfamarkaði en þær hafa rokið upp á síðustu vikum, til fimm ára mælast þær núna um 5,5 prósent, og hafa ekki verið hærri frá því eftir fjármálahrunið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×