Innherji

Mesta dagsveltan á gjaldeyrismarkaði í sex ár

Hörður Ægisson skrifar
Frá áramótum nemur heildarveltan á gjaldeyrismarkaði um 94 milljörðum króna og hlutdeild Seðlabankans í þeirri veltu er því um 22 prósent.
Frá áramótum nemur heildarveltan á gjaldeyrismarkaði um 94 milljörðum króna og hlutdeild Seðlabankans í þeirri veltu er því um 22 prósent. VÍSIR/VILHELM

Heildarveltan á millibankamarkaði gjaldeyri nam 107 milljónum evra, jafnvirði 15,6 milljarða íslenskra króna, síðastliðinn mánudag þegar Seðlabanki Íslands stóð að baki stærstu gjaldeyrissölu sinni á einum degi í að lágmarki þrettán ár til að vega á móti miklum þrýstingi til lækkunar á gengi krónunnar.

Þetta er mesta dagsvelta á gjaldeyrismarkaði frá því 27. janúar árið 2016 þegar hún var 192 milljónir evra en þá keypti Seðlabankinn allan þann gjaldeyri sem kom til í tengslum við áætlun stjórnvalda um afnám fjármagnshafta og stöðugleikaskilyrði slitabúa gömlu bankanna.

Hlutdeild Seðlabankans í veltunni á gjaldeyrismarkaði á fyrsta degi vikunnar var 48 milljónir evra, eins og Innherji hefur áður fjallað um, en þetta var í þriðja sinn sem bankinn beitt inngripum á markaði með sölu á gjaldeyri frá því að stríðsástökin í Úkraínu hófust aðafaranótt fimmtudagsins 24. febrúar síðastliðinn. Samtals nemur gjaldeyrissala Seðlabankans á þessu tímabili jafnvirði um 10 milljarða króna en á fyrstu vikum ársins hafði bankinn hins vegar staðið að kaupum á gjaldeyri fyrir samtals um 11 milljarða til að vega móti stöðugri gengishækkun krónunnar á þeim tíma.

Frá áramótum nemur heildarveltan á gjaldeyrismarkaði um 94 milljörðum króna og hlutdeild Seðlabankans í þeirri veltu er því um 22 prósent.

Mikil gengisstyrking krónunnar frá áramótum – hún hafði meðal annars hækkað um nærri 5 prósent gegn evrunni – er núna að stórum hluta gengin til baka samhliða aukinni óvissu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum vegna stríðsátakanna í Úkraínu og meðal annars flótta fjárfesta í öruggari eignir.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, benti á það í viðtali við Morgunblaðið í vikunni að hluti af gengisstyrkingunni á undanförnum mánuðum hefði líkast til ekki verið vegna undirliggjandi þátta heldur hefði fremur með „spákaupmennsku að gera“ en sum fyrirtæki með tekjur í erlendri mynt höfðu í vaxandi mæli verið að verjast væntingum um gengishækkun krónunnar með sölu á gjaldeyri.

„Því megi leiða líkur að því að markaðurinn sé að endurmeta horfurnar. Það hafi átt þátt í styrkingu krónunnar að einhverjir fjárfestar hafi tekið sér stöðu með styrkingu en það sé að ganga til baka,“ sagði Jón Bjarki.

Þrátt fyrir stórfellda gjaldeyrissölu Seðlabankans síðasta mánudag þá féll gengi krónunnar engu að síður í verði um liðlega 1,5 til 1,9 prósent gagnvart evrunni og Bandaríkjadal. Krónan hefur síðan þá aðeins rétt úr kútnum og styrkst lítillega gagnvart helstu myntum.

Markmiðið með gjaldeyrisinngripastefnu Seðlabankans er að leitast við að mýkja sveiflurnar á gengi krónunnar, hvort sem er vegna hækkunar eða lækkunar, bæði til skemmri og meðallangs tíma.

Þegar faraldurinn stóð hvað hæst beitti Seðlabankinn umfangsmiklum gjaldeyrisinngripum, einkum í því skyni að draga úr tímabundnum þrýstingi á gengi krónunnar, en á síðasta ári námu þau samtals að jafnvirði um 72 milljörðum króna. Þar munaði mest um sölu á gjaldeyri fyrir tæplega 50 milljarða en sem hlutfall af heildarveltu á gjaldeyrismarkaði voru samanlögð inngrip bankans rúmlega 21 prósent borið saman við 37 prósent á árinu 2020.

Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam um 890 milljörðum króna í lok febrúar, eða sem jafngildir um 30 prósentum af landsframleiðslu.

Í viðtali við Innherja eftir síðasta vaxtaákvörðunarfund Seðlabankans fyrir um mánuði síðan var Ásgeir Jónsson spurður að því hvort gengi krónunnar væri farið að nálgast það að vera hærra en bankanum þætti æskilegt á þessum tíma í hagsveiflunni. Ásgeir sagði svo ekki endilega vera.

Að sögn hans miðuðu gjaldeyrisinngripin að því að gæta þess að gjaldeyrismarkaðurinn fari ekki fram úr sér, eins og hafi oft gerst í gegnum árin, og að viðhalda stöðugleika. „Að ætla að fara að veðja á gengishækkun til að reyna að vinna gegn verðbólgunni væri eins og að pissa í skóinn sinn,“ sagði seðlabankastjóri.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.