Innherji

Seðlabankinn í þröngri stöðu, gæti þurft að hækka vexti ofan í kreppuverðbólgu

Hörður Ægisson skrifar
Afleiðingar stríðsátakanna birtast okkur í miklum verðhækkunum á olíu sem er upp um liðlega 40 prósent á tveimur vikum. Hagvöxtur mun fara minnkandi og verðbólga aukast sem veldur fjárfestum áhyggjum um næstu skref í vaxtahækkunarferli seðlabanka.
Afleiðingar stríðsátakanna birtast okkur í miklum verðhækkunum á olíu sem er upp um liðlega 40 prósent á tveimur vikum. Hagvöxtur mun fara minnkandi og verðbólga aukast sem veldur fjárfestum áhyggjum um næstu skref í vaxtahækkunarferli seðlabanka.

„Allir tapa á þessu ömurlega stríði Pútíns,“ segir Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar Arctica Finance, en efnahagshorfur beggja vegna Atlantshafsins eru orðnar mun dekkri en áður eftir að stríðsátökin í Úkraínu hófust fyrir tólf dögum síðan.

„Hagvöxtur er að fara minnkandi í heiminum vegna innrásar Rússa og minni alþjóðlegra viðskipta og samhliða þeirri þróun sjáum við ört vaxandi verðbólgu sem þýðir að staða Seðlabanka Íslands, eins og annarra seðlabanka, verður mjög erfið varðandi næstu skref í vaxtahækkunarferlinu. Hann gæti þurft að hækka vexti ofan í versnandi efnahagshorfur og sviðsmynd um kreppuverðbólgu, tímabil sem einkennist af litlum hagvexti og mikilli verðbólgu, gæti mögulega verið að raungerast, að minnsta kosti í einhverjum löndum,“ útskýrir Valdimar.

Hann bendir á að viðbrögð markaðarins á skuldabréfamarkaði að undanförnu séu að skila sér í umtalsvert hærri verðbólguvæntingum með ásókn í verðtryggðra vexti.

Fjárfestar hafa þannig meðal annars verið að kaupa verðtryggð íslensk ríkisskuldabréf, til að tryggja sig gegn verðbólgu sem þeir reikna með að verði meiri en áður var búist við, og á sama tíma selt óverðtryggð ríkisbréf.

Ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa á lengri endanum (RIKS 30) hefur samtímis þessari þróun meðal annars lækkað úr 0,7 prósentum í 0,02 prósent á aðeins rúmlega einum mánuði og hefur ekki mælst lægri frá því í september 2020. Yfir sama tímabil hefur hins vegar ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa með sambærilegan líftíma (RIKB 30) hækkað úr um 4,6 prósentum í 4,82 prósent og ekki verið hærri í þrjú ár.

Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar Arctica Finance.

Afleiðingarnar af stríðsátökunum birtast okkur meðal annars í miklum verðhækkunum á olíu. Tunnan af Brent-Norðursjávarolía hefur hækkað um liðlega 40 prósent á tveimur vikum – hún hefur ekki verið dýrari frá 2008 – og öðrum hrávörum sem veldur fjárfestum áhyggjum um að sú mikla og vaxandi verðbólga sem hefur mælst í Evrópu og Bandaríkjunum að undanförnu muni ekki ganga niður á næstunni eins og vonir stóðu áður til.

Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Arion banka, segir að það eigi eftir að koma í ljós hvernig helstu seðlabankar heimsins muni bregðast við þessari stöðu sem upp sé komin. „Mér finnst hins vegar líklegt að vaxtahækkanir þeirra verði minni en áður var talið enda óhætt að segja að síðustu verðhækkanir séu utan áhrifasvæðis peningamálayfirvalda.“

Seðlabankinn gæti þurft að hækka vexti ofan í versnandi efnahagshorfur og sviðsmynd um kreppuverðbólgu, tímabil sem einkennist af litlum hagvexti og mikilli verðbólgu, gæti mögulega verið að raungerast.

Á fundi með efnahags- og viðskiptanefnd í síðustu viku sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að Ísland yrði ekki fyrir jafn beinum efnahagsáhrifum af Úkraínustríðinu og aðrar Evrópuþjóðir. Hann benti á að verulega hefði dregið úr viðskiptum við Rússland frá árinu 2014 og að íslensk heimili horfðu ekki fram á aukinn kostnað við húshitun eins og þau fjölmörgu heimili í Evrópu sem kynt eru með jarðgasi frá Rússlandi.

Samkvæmt bráðbirgðamati Hafstofunnar mældist 4,3 prósenta hagvöxtur í fyrra. Í síðustu Peningamálum Seðlabankans var hagvaxtarspá bankans fyrir þetta ár lækkuð úr 5,1 prósenti í 4,8 prósent en spáin fyrir árið 2023 lækkar einnig og gert er ráð fyrir 2,1 prósenta vexti.

Á síðasta vaxtaákvörðunarfundi í byrjun febrúar tók peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands þá ákvörðun að hækka vexti um 75 punkta – úr 2 prósentum í 2,75 prósent – og vísaði í versnandi verðbólguhorfur. Verðlag hélt áfram að hækka í febrúar og mældist tólf mánaða verðbólga um 6,2prósent borið saman við 5,7 prósent í janúar. Samkvæmt síðustu verðbólguspá Seðlabankans eru horfur á að verðbólga verði 5,8 prósent á fyrsta fjórðungi ársins og yfir 5 prósent út þriðja ársfjórðung. Verðbólgan mun ekki nálgast 2,5 prósenta markmið bankans fyrr en í upphafi árs 2025.

Í fundargerð peningastefnunefndarinnar, sem var gerð opinber 23. febrúar síðastliðinn, kom meðal annars fram að hún hefði á fundi sínum viðrað áhyggjur af „mögulegum annarrar umferðar áhrifum af verðhækkun innfluttrar vöru og launahækkunum“. Afleiðingarnar gætu birst í meiri og almennari verðhækkunum á vöru og þjónustu til þess að bregðast við auknum innfluttum verðbólguþrýstingi og hærri launakostnaði sem gæti „framkallað hringrás verðlags- og launahækkana.“

Nefndarmenn voru allir á þeirri skoðun að hækka þyrfti vexti og var á fundinum rætt um hækkun á bilinu 50 til 100 punkta.

Helstu rök nefndarinnar fyrir því að taka stærra skref í vaxtahækkun voru þau að verðbólguhorfur væru dekkri og útlit fyrir að verðbólga myndi hjaðna hægar í 2,5 prósenta markmið bankans en áður var búist við. Í kjölfar vaxtahækkunar bankans nú í 2,75 prósent yrðu meginvextir bankans komnir á svipað stig og þeir voru þegar faraldurinn hófst í ársbyrjun 2020 en umsvif í þjóðarbúskapnum væru jafnvel kröftugri nú en þá.


Tengdar fréttir

Seðlabankastjóri: Ekki ólíklegt að stríðið hafi dómínóáhrif eins og farsóttin

Ísland verður ekki fyrir jafn beinum efnahagsáhrifum af Úkraínustríðinu og aðrar Evrópuþjóðir að sögn Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra. Hann óttast þó áhrif olíuverðshækkana á íslenska ferðaþjónustu og ófyrirséð dómínóáhrif sem stríðið gæti hrundið af stað. Þetta kom fram í máli seðlabankastjóri á fundi með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.