Skoðun

Úrbætur á LSH fyrir krabbameinssjúka og tilboð Krabbameinsfélagsins

Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins í maí 2021 var samþykkt að veita 450 milljón króna fjárstuðning til Landspítalans með því skilyrði að sú upphæð færi til byggingar nýrrar dagdeildar fyrir blóð- og krabbameinslækningar í svokallaðri K-byggingu spítalans við Hringbraut. Í nýju tölublaði Læknablaðsins lýsir Halla Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins vonbrigðum sínum með viðbrögð stjórnvalda við tilboðinu.

Krabbameinsfélagið hefur átt í viðræðum við LSH um úrbætur á þjónustu við krabbameinssjúka og mun Landspítalinn hafa þróað hugmyndina um að nýta K-bygginguna sem hefur staðið ókláruð í þrjá áratugi. Með breytingum á fyrirliggjandi húsnæði væri hægt að koma dagdeild, þar sem lyfjameðferð fer fram, á einni hæð og göngudeild, þar sem viðtöl fara fram, á annarri hæð.

Yfirlæknar blóðlækninga og lyflækninga krabbameina á LSH taka undir með framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins og segja aðstöðuna algerlega óviðundandi fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. Meðal þess vanda sem aðstöðuleysið skapar er að nota þarf dýrari lyf og ekki sé rými til að ráða fleira starfsfólk.

Upphæðin sem Krabbameinsfélagið er reiðubúið að leggja fram er um þriðjungur þeirrar upphæðar sem áætlað er að nauðsynlegar breytingar á K-byggingunni kosti.

Ég tók málið upp í fyrirspurn til heilbrigðisráðherra, Willums Þórs Þórssonar, á Alþingi í dag og spurði hvers vegna ekki hefði borist skýrt svar við tilboði Krabbameinsfélagsins. Ráðherra viðurkenndi að vandinn væri brýnn og sagði að fundað hafi verið um málið. Á honum mátti einnig skilja að þunglamalegt stjórnkerfi réði ekki við að taka skjóta ákvörðun um málið.

Fyrir liggur að krabbameinstilfellum mun fjölga um 30% á næstu 15 árum og ekki síður að núverandi aðstaða á dagdeildinni þar sem lyfjagjöfin fer fram er algerlega óviðunandi. Hugmyndin um að klára K-bygginguna nýtur víðtæks stuðnings enda löngu kominn tími á framtíðaraðstöðu fyrir dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga við LSH.

Hvar er fyrirstaðan? Þeirri spurningu þarf að svara.

Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×