Körfubolti

„Gæinn er búinn að spila allt of fáa leiki til að byrja með þessa stæla“

Sindri Sverrisson skrifar
Zion Williamson hefur verið lengi að jafna sig af meiðslum.
Zion Williamson hefur verið lengi að jafna sig af meiðslum. Getty/Sean Gardner

Lögmál leiksins verða á sínum stað á Stöð 2 Sport 2 í kvöld og þar ræða sérfræðingarnir meðal annars um stöðu Zion Williamson hjá New Orleans Pelicans.

Í Lögmálum leiksins er fjallað um NBA-deildina í körfubolta frá öllum hliðum. Kjartan Atli Kjartansson er með Tómas Steindórsson og Leif Stein Árnason, nýjan liðsmann, sem gesti í kvöld og hefst þátturinn klukkan 21:55. Brot úr þættinum má sjá hér að neðan.

Klippa: Lögmál leiksins kitla

Williamson, sem var valinn fyrstur í nýliðavalinu 2019, hefur ekkert spilað á leiktíðinni vegna meiðsla.

Hann fær núna sína sjúkrameðferð fjarri liðsfélögum sínum í New Orleans, eða í Oregon. Þangað ferðaðist hann í einkaþotu Gayle Benson, eiganda Pelicans, en engu að síður fór enginn af starfsmönnum félagsins með leikmanninum.

Kjartan Atli velti upp þeirri spurningu hvort að Williamson væri að reyna að komast í burtu frá Pelicans en sagði að eigendur félagsins vildu greinilega reyna að láta líta út fyrir að dvölin í Oregon væri öll með vilja þeirra. Leifur Steinn greip þá orðið:

„Samt kom auglýsing frá Pelicans núna um ársmiða fyrir næsta tímabil og þar minntust þeir ekki á Zion. Við höfum séð nokkrar myndir af Zion í vetur þar sem hann virkar eins og hann sé 20 kílóum of þungur. Gæinn er búinn að spila allt of fáa leiki til að byrja með þessa stæla.

Ég hefði gjarnan viljað að það væri eitthvað þannig að lið gætu refsað leikmönnum þegar þeir reyna að þvinga sig út. Gæinn er búinn að spila rétt rúmlega eina leiktíð, á þremur árum,“ sagði Leifur Steinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×