Innherji

Innrás Rússa setur strik í reikning Síldarvinnslunnar

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar. Aðsend mynd

Síldarvinnslan er með útistandandi viðskiptakröfur í Úkraínu upp á 1,1 milljarð króna og hafði áformað að selja töluvert magn af loðnu inn á markaðinn áður en fréttir bárust af innrás Rússlands. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Síldarvinnslan sendi til Kauphallarinnar.

Úkraína hefur verið eitt mikilvægasta viðskiptaland Síldarvinnslunnar en þangað hefur útgerðin selt síldar-, makríl- og loðnuafurðir í miklu magni. Hefur sala til Úkraínu numið um þriðjungi af útflutningi frosinna uppsjávarafurða hjá Síldarvinnslunni og var hlutfallið hærra á árunum 2019 og 2020 þegar loðnubrestur var.

„Vegna stöðunnar sem komin er upp í Úkraínu ríkir nú umtalsverð óvissa um þróun þessa mikilvæga markaðar félagsins,“ segir í tilkynningu Síldarvinnslunnar.

„Síldarvinnslan á útistandandi viðskiptakröfur upp á um 9 milljónir Bandaríkjadala í Úkraínu. Auk þess hefur verið framleitt töluvert af loðnu sem selja á inn á þennan markað og fyrirtækið er með í birgðum vörur ætlaðar inn á Úkraínu.“

Þá segir Síldarvinnslan of snemmt að draga skýrar ályktanir um möguleg áhrif átakanna á viðskipti fyrirtækisins í Úkraínu og afkomu þess.

Hlutabréf Síldarvinnslunnar lækkuðu um nærri 6 prósent í fyrstu viðskiptum í Kauphöllinni í morgun. 

Á uppgjörsfundi Brims í síðustu viku kom fram að útgerðin væri með „tiltölulegar litlar stöður“ ef horft væri til Úkraínu og Hvíta-Rússlands. Sagði Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, að útistandandi viðskiptakröfur fyrirtækisins í þeim löndum væru samtals um 5 til 8 milljónir evra, eða jafnvirði um 700 til 1.150 milljónir íslenskra króna.

Brim seldi fiskafurðir til Úkraínu og Hvíta-Rússlands fyrir samanlagt um 20 milljónir evra, jafnvirði tæplega 3 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári.


Tengdar fréttir

Markaðir rétta úr kútnum, Brim hækkar um meira en 11 prósent

Eftir einn svartasta dag í Kauphöllinni frá fjármálahruninu 2008 varð mikill viðsnúningur á hlutabréfamörkuðum í dag og hækkaði Úrvalsvísitalan um rúmlega 3,6 prósent eftir að hafa fallið um nærri 6 prósent daginn áður. Öll félögin á aðalmarkaði hækkuðu í verði, mest Brim, en gengi bréfa sjávarútvegsfélagsins hækkaði um 11,5 prósent og hefur virði þess á markaði aldrei verið meira.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.