Umfjöllun og viðtöl: KA - ÍBV 32-32 | Stál í stál á Akureyri

Árni Gísli Magnússon skrifar
Sóttu eitt stig norður.
Sóttu eitt stig norður. Vísir/Hulda Margrét

KA og ÍBV gerðu 32-32 jafntefli í Olís-deild karla í handbolta fyrir norðan nú í kvöld. Leikurinn var hin mesta skemmtun en KA menn sennilega svekktari með úrslitin þar sem þeir leiddu með fimm mörkum í hálfleik

Liðin skiptust á að skora í byrjun og var því lítið um varnir og sóknarleikurinn ekkert vandamál fyrir hvorugt liðið. Allan Norðberg og Patrekur Stefánsson áttu ekki í neinum erfiðleikum með að finna netmöskvana og skoruðu báðir 5 mörk í hálfleiknum. Sigtryggur Daði og Rúnar Kárason báru sóknarleik Eyjamanna uppi.

Staðan var jöfn framan af en þegar 7 mínútur voru eftir af hálfleiknum settu KA menn í fimmta gír og skoruðu 7 mörk á nokkrum mínutum og breyttu stöðunni úr 14-13 í 20-14. Á þessum tíma voru heimamenn að fá auðveld hraðaupphlaupsmörk og Nicholas Satchwell, sem hefur verið frá vegna meiðsla, var kominn í markið og tók nokkra mikilvæga bolta.

Á síðustu sekúndu hálfleiksins var Gabriel Martinez í hraðaupphlaupi og var að stökkva inn á teig KA mann þegar Jón Heiðar Sigurðsson hleypur utan í hann með þeim afleiðingum að Gabriel skellur í gólfið og mikil læti brjótast út í kjölfarið þar sem Eyjamenn heimta rautt spjald á Jón Heiðar sem varð svo raunin. Engar fleiri brottvísanir urðu úr þessu fyrir utan Björn Viðar Björnsson, markmann Eyjamanna, sem fékk tveggja mínútuna brottvísun fyrir einhver vel valin orð að öllum líkindum. ÍBV fékk vítakast sem Sigtryggur Daði skoraði úr og staðan í hálfleik því 20-15 KA í vil.

Eitthvað hefur Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, farið yfir leikskipulagið í hálfleiknum því að Eyjamenn mættu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og voru búnir að minnka muninn niður í tvö mörk innan fimm mínútna. KA náði þó fljótt aftur fjögurra marka forskoti en eftir það var munurinn nær allan tímann eitt til tvö mörk.

Björn Viðar Björnsson var að verja vel í seinni hálfleiknum og endaði með 13 varða bolta auk þess sem Petar Jokanovic klukkaði tvo en markvarðateymi KA einungis með 7 í heildina.

Eyjamenn jöfnuðu í 30-30 þegar fjórar mínútur lifðu leiks en KA skoraði þá næstu tvö mörk áður en ÍBV jafnaði aftur í 32-32 á síðustu mínútu leiksins eftir að Patrekur Stefánsson, sem átti annars frábæran leik, fékk dæmdan á sig ruðning. KA tók þá leikhlé þegar 21 sekúnda var eftir en sóknin var illa útfærð sem endaði með því að KA fékk aukakast þegar 3 sekúndur voru eftir og tók Patrekur þá neyðarskot af gólfinu sem fór yfir markið.

32-32 jafntefli því niðurstaðan og Eyjamenn klárlega sáttari aðilinn en KA menn geta sjálfum sér um kennt.

Af hverju varð jafntefli?

KA var fimm mörkum yfir í seinni hálfleik eftir frábæran endi á þeim fyrri en mæta ekki tilbúnir til leiks í þeim síðari og Eyjamenn komast strax á bragðið og fá trú á verkefninu. KA menn fara svo illa að ráði sínu á lokamínútunum og Eyjamenn nýta sín tækifæri og hirða þar með annað stigið.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Eyjamönnum var Björn Viðar Björnsson flottur í markinu í seinni hálfleik og endaði með 13 varða bolta, þar af nokkra mikilvæga í lokin. Arnór Viðarsson var framar öðrum í vörn ÍBV með 8 lögleg stopp.

Sigtryggur Daði Rúnarsson var með 8 mörk úr 9 skotum, þar af 5 úr vítum, og var virkilega ógnandi og áræðinn allan leikinn. Rúnar Kárason var þá með 5 mörk úr 9 skotum.

Hjá KA var Patrekur Stefánsson illviðráðanlegur og var óhræddur við að láta vaða á markið og endaði með 8 mörk eins og félagi hans í hægri skyttunni, Allan Norðberg. Óðinn Þór Ríkharðsson næstur með 7 mörk.

Arnar Freyr Ársælsson náði 9 stoppum í varnarleiknum en gekk lítið hjá honum í sókninni.

Hvað gekk illa?

Það hefur oft verið spilaður betri varnarleikur í handbolta en leikurinn í dag bauð upp á. Leikmenn skoruðu af vild í fyrri hálfleik en liðin náðu þó aðeins fleiri stoppum í þeim seinni.

Hvað gerist næst?

KA menn leika þétt en næsti leikur þeirra er strax á sunnudaginn þegar þeir mæta Val í Origo-Höllinni kl. 16:00.

ÍBV fær vikufrí, næsti leikur þeirra er gegn Fram í Eyjum fimmtudaginn 3. mars kl. 18:00.

Jónatan: Grátlegt að hafa ekki tekið svona naglbít

Jónatan Magnússon, þjálfari KA, var hundfúll að fá einungis eitt stig eftir hafa gert jafntefli við ÍBV í leik þar sem KA var með pálmann í höndunum.

„Mér fannst við pínulítið hafa tapað þessu seinna stigi sem var í boði, við vorum komnir í góða stöðu og fannst við vera með leikinn í höndunum en fórum illa að ráði okkar satt best að segja undir lok leiksins”

KA var fimm mörkum yfir í hálfleik eftir flott áhlaup undir lok hálfleiksins. Jónatan var því eðlilega svekktur hvernig lið hans mætti til leiks í upphafi síðari hálfleiks.

„Sérstaklega vont af því að á þessum kafla vorum við einum og tveimur fleiri þannig að við fórum illa með yfirtöluna í dag, það er að segja sóknaryfirtalan var því miður ekki nógu góð en að því sögðu þá er orðið grunnt á þessu, menn eru að leggja sig fram og búnir að vera margir leikir núna og við missum Jón og Óli ekki með í dag þannig að karakterinn og hjartað í liðinu var til fyrirmyndar og ég er ánægður með það og þess vegna er grátlegt að hafa ekki tekið svona naglbít og sett síðasta markið.”

Jón Heiðar Sigurðsson, fyrirliði KA, fékk beint rautt spjald undir blálok fyrri hálfleiks þegar hann braut á Gabriel Martinez þegar hann var að stökkva inn í teig í hraðaupphlaupi. Í kjölfarið urðu mikil læti og smá stympingar við varamannabekkina. Jónatan vildi lítið tjá sig um það.

„Nei ég get ekki sagt það, ég sá það ekki, og dómararnir voru vissir í sinni stöðu. Það voru margir dómar sem voru okkur svona tvímælis í dag en ég ætla ekkert að vera eitthvað að pæla í því af því við fengum svo sannarlega möguleikann á því að vinna þetta og sitjum eftir svona frekar súrir.”

KA hafði fyrir leikinn í dag unnið 6 leiki í röð í deild og bikar og var þetta því sjöundi leikur liðsins án taps. Jónatan kveðst nokkuð sáttur með holninguna á liðinu eftir erfiða byrjun á tímabilinu í haust.

„Við erum í góðum gír núna og við ætluðum sigur í dag, það er þannig, og við erum sárir og höfum fáa daga til að sleikja þessi sár hérna núna. Við þurfum topp frammistöðu á sunnudaginn á móti Val.”

Markvarslan hjá KA var ekki góð í dag þar sem að Nicholas Satchwell endaði með 5 varða bolta og Bruno Bernat tvo en hann var í ham í bikarnum gegn Haukum á sunnudaginn þar sem hann tók 18 bolta. Getur markavarslan ekki skilið á milli?

„Jú hún gerir það að sjálfsögðu en á móti kemur að þá erum við sérstaklega svona framan af varnarlega ekki eins þéttir og við höfum verið, okkur gekk illa að ná í þá og náðum ekki nógu mörgum stoppum til að hjálpa markmönnunum og það helst í hendur. Á móti kemur skilur það á milli að við stingum þá ekki almennilega að þeir fá góða markvörslu frá Bjössa í seinni hálfleik en við höfum verið með flotta markvörslu en það er bara eins og það er og menn þurfa að gera betur í næsta leik til að ná í sigur á móti Val en það er markmiðið”, sagði Jóntatan að lokum og greinilegt að hann er strax kominn með hugann við Valsleikinn næstkomandi sunnudag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira