Innherji

Seðlabankinn hlýtur „aðeins að naga sig í handabökin að hafa lækkað vexti svona mikið“

Ritstjórn Innherja skrifar
Konráð Guðjónsson, aðalhagfræðingur Stefnis, og Þórður Gunnarsson, hagfræðingur og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Konráð Guðjónsson, aðalhagfræðingur Stefnis, og Þórður Gunnarsson, hagfræðingur og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Seðlabankinn hlýtur að naga sig í handabökin yfir því að hafa lækkað vexti mjög skart í upphafi faraldursins vorið 2020. Þó má segja að lækkunin hafi verið eðlileg þar sem flestir gerðu ráð fyrir því að efnahagslegar afleiðingar faraldursins yrðu mun verri og vara lengur heldur raunin var.

Þetta segir Konráð Guðjónsson, aðalhagfræðingur sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis og fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, í nýjasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála. 

Þar ræða þeir Konráð og Þórður Gunnarsson hagfræðingur um stöðu mála í hagkerfinu, nýlega vaxtahækkun Seðlabankans og áhrif hennar sem og stuðningsaðgerðir hins opinbera í faraldrinum og hvaða áhrif það mun hafa þegar af þeim verður látið.

Konráð vekur máls á því að söluframboð á fasteignamarkaði sé takmarkað og fátt bendi til þess að markaðurinn muni hægja á sér í bili. Þá hafi fyrirtækin í verslun og þjónustu boðað verðhækkanir, sem að hluta til eru komnar erlendis frá, en allt muni þetta hafa áhrif á verðbólguþrýsting hér á landi.

Þetta er að vissu leyti afleiðing af því lúxusvandamáli að við komum betur út úr þessu en við óttuðumst.

Aðspurður um það hvort og hvenær stýrivextir Seðlabankans fari að bíta af alvöru og hafa áhrif segir Konráð að samkvæmt mati Seðlabankans – og samkvæmt almennum hagfræðireglum – byrji þeir ekki að bíta fyrr en nokkrum mánuðum eftir vaxtahækkanir.

„Þeir eru jafnvel að koma fram á tveimur árum, og það er kannski þess vegna sem ég held að Seðlabankinn hljóti aðeins að naga sig í handabökin að hafa lækkað vexti svona mikið,“ segir Konráð.

Gísli Freyr Valdórsson, umsjónarmaður hlaðvarpsins, rifjar þá upp að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafi ekki brugðist vel við þeirri gagnrýni á fundi bankans þegar stýrivextir voru hækkaðir í liðinni viku.

„Þá komum við að hinum þættinum, að ástæðan fyrir því að þau lækkuðu vexti svona mikið var sú að við bjuggumst öll við því að þessi kreppa yrði verri,“ segir Konráð.

„Þetta er að vissu leyti afleiðing af því lúxusvandamáli að við komum betur út úr þessu en við óttuðumst. Að því leytinu til er þetta skiljanlegt hjá Seðlabankanum en ég held að hann sé í nokkuð þröngri stöðu. Skilaboðin í yfirlýsingu og á fundi bankans voru þess eðlis að þau voru tvístígandi með það hvort þau myndu fara í mikið meiri vaxtahækkanir, allavega í bili.“

Þórður, sem gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavik, tekur undir þessa gagnrýni og bendir á að þeir aðilar sem hvað helst hafa kvartað undan vaxtahækkunum Seðlabankans séu aðilar vinnumarkaðarins, en þeir hafi þó öll spil á hendi sér við frekari þróun í hagkerfinu þar sem framundan eru viðræður um gerð nýrra kjarasamninga. 

Hann segir segir hins vegar einnig að Seðlabankinn sé í þröngri stöðu. Raunvextir séu enn neikvæðir og það eigi eftir að koma í ljós hvort og þá hversu mikið bankinn mun hækka stýrivexti sína á árinu eða hvort hann muni beita öðrum aðferðum til að tempra verðbólguvæntingar.

Í þættinum er einnig fjallað um rekstur Reykjavíkurborgar og það hvaða efnahagslegu áhrif það hefur ef skipulagsmál eru í ólestri, hvaða þróun mun eiga sér stað í atvinnumálum höfuðborgarsvæðisins og margt fleira.


Tengdar fréttir

Tillaga Samfylkingarinnar féll í grýttan farveg í Seðlabankanum

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á fundi Seðlabankans í dag að bankinn væri ekki hrifinn af þensluhvetjandi aðgerðum, á borð við þær sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt til, á meðan bankinn reynir að hemja eftirspurn.

Samkaup vara birgja við því að stökkva á vagn verðhækkana

Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, segir að matvörukeðjur fyrirtækisins hafi á síðustu vikum fengið vel á annað hundrað boð um verðhækkanir sem nema að jafnaði um fimm prósentum. Þessar hækkanir eru ekki enn komnar fram í smásöluverði og fyrirtækið hefur hvatt birgja til að stökkva ekki á „verðhækkanavagninn“ nema af góðri ástæðu.

Markaðurinn býr sig undir 75 punkta vaxtahækkun

Afgerandi meirihluti markaðsaðila gerir ráð fyrir því, samkvæmt könnun Innherja, að Seðlabanki Íslands hækki vexti um 75 punkta á næsta vaxtaákvörðunarfundi bankans á miðvikudaginn. Verðbólgan er komin vel yfir spár, langt er í næstu ákvörðun og trúverðugleiki Seðlabankans er sagður í húfi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×