Umræðan

Öfugsnúin ríkisfjármál koma illa niður á þjóðarbúinu

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar

Fyrir liðlega einu ári hækkaði Seðlabankinn vexti upp í 2,75 prósent en þá var orðið ljóst að verðbólgan, sem mældist 5,7 prósent og kom markaðinum sífellt á óvart, yrði bankanum erfið viðureignar. Efnahagslífið hafði tekið kröftuglega við sér, það voru komnar fram vísbendingar um verulegan vöxt í einkaneyslu og atvinnuleysi nálgaðist það stig sem það var á fyrir heimsfaraldurinn.

Á þessum tímapunkti var rík ástæða til grípa í taumana og stöðva þann gríðarmikla hallarekstur sem hélt hagkerfinu á floti á árunum 2020 og 2021. Það þarf enga sérfræðikunnáttu til að komast að þeirri niðurstöðu að ríkið skuli halda að sér höndum fram þegar atvinnulífið er á fullum snúningi – einungis almenna skynsemi. Þetta veit fólk en taumlaus útgjaldagleði ráðamanna varð skynseminni yfirsterkari.

Bráðabirgðatölur Hagstofu Íslands sýna að ríkissjóður var rekinn með 132 milljarða króna halla, sem samsvarar 3,5 prósentum af landsframleiðslu, á árinu 2022 samhliða minnkandi atvinnuleysi og hækkandi verðlagi. Heildarútgjöld námu 1.274 milljörðum og voru 150 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir í upphaflegu fjárlagafrumvarpi fyrir árið.

En þrátt fyrir að verðbólga sé komin í tveggja stafa tölu er ráðamönnum fyrirmunað að líta í eigin barm. Eftir að hafa fengið pillu frá seðlabankastjóra í febrúar sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra að stjórnvöld hefðu „reynt að sýna eins mikið aðhald og frekast var unnt.“ Þá telur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ekki þörf á „róttækum niðurskurði“ og jafnframt er hennar mat að fjárlögin fyrir þetta ár hafi verið „tiltölulega aðhaldssöm“.

Til að bæta gráu ofan á svart virðist afstaða Vinstri grænna vera sú að hallareksturinn snúist ekki um útgjöld heldur tekjuöflun. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar, hefur sagt eðlilegt að horft sé til þess að hækka bankaskatt, veiðigjöld á uppsjávarfisk og innleiða þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt til að brúa bilið. Landsmenn, einkum lántakendur sem munu á endanum greiða hærri bankaskatt í gegnum hærri vaxtamun, eiga því ekki von á góðu þegar ríkisstjórnin kynnir nýja fjármálaáætlun í lok þessa mánaðar.

Tölurnar tala samt sínu máli. Heildarútgjöld ríkissjóðs á árinu 2022 voru ríflega 9 prósentum hærri að raunvirði en þau voru á árinu 2019 og um 32 prósentum hærri að nafnvirði. Samkvæmt varfærnum áætlunum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2023 munu útgjöldin vaxa um 5 prósent í ár. Faraldurinn er að baki en eftir situr allur sá heljarinnar óþarfi sem hefur safnast fyrir í kerfinu á undanförnum þremur árum.

Það þarf enga sérfræðikunnáttu til að komast að þeirri niðurstöðu að ríkið skuli halda að sér höndum fram þegar atvinnulífið er á fullum snúningi – einungis almenna skynsemi.

Vandinn við ríkisútgjöld er sá að þau vinda upp á sig. Þannig er útlit er fyrir að endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, sem hefur verið sérstakt baráttumál Framsóknar þrátt fyrir að þau skili ekki merkjanlegum ávinningi til þjóðarbúsins, fari langt fram úr áætlunum á þessu ári. Lausatök í útlendingamálum valda síðan enn meiri framúrkeyrslu og fjármagnskostnaður ríkissjóðs gæti orðið 27 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir.

Niðurskurðarhnífur, sérstaklega í höndum stjórnvalda sem neita að horfast í augu við sinn þátt í að kynda undir verðbólgunni, mun hrökkva af þessum gríðarstóra útgjaldastafla. Nú dugar ekkert minna en að hefja á loft keðjusög af bestu sort. Hún er því miður pólitískur ómöguleiki. 

Höfundur er viðskiptablaðamaður á Innherja



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×