Umræðan

Aðgerðir og aðhald

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar

Í gær birtist frétt með fyrirsögninni „​​Tillaga Samfylkingarinnar féll í grýttan farveg í Seðlabankanum“ þar sem fram kom að seðlabankastjóri væri „ekki hrifinn af þensluhvetjandi aðgerðum, á borð við þær sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt til, á meðan bankinn reynir að hemja eftirspurn“.

Það er lögbundið hlutverk Seðlabanka Íslands að stuðla að stöðugu verðlagi með þeim stjórntækjum sem peningastefnunefnd hefur yfir að ráða.

Hins vegar er það verkefni stjórnmálanna að tryggja að sveiflur í efnahagslífinu komi ekki harkalega niður á viðkvæmum hópum, til dæmis með stuðningi gegnum tilfærslukerfin, úrræðum í samvinnu við fjármálastofnanir og hömlum á hækkun leiguverðs.

Það er auðvitað aðhaldsstig ríkisfjármálanna í heild sem mestu skiptir í hagstjórnarlegu tilliti.

Slíkt má sannarlega gera án þess að létt sé á aðhaldsstigi opinberra fjármála og án þess að ríkisfjármálin rói í aðra átt en Seðlabankinn. Samhliða stuðningsúrræðum er til dæmis hægt að skrúfa niður þensluhvetjandi skattastyrki til efri millitekjuhópa og auka álögur á hópana sem eiga og þéna mest.

Ég man ekki til þess að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi verið gagnrýnd fyrir að vinna gegn aðgerðum Seðlabankans þegar vaxtabætur voru snarhækkaðar eftir hrun og þeim beint í auknum mæli til tekjulægstu heimila og einstæðra foreldra. Það er auðvitað aðhaldsstig ríkisfjármálanna í heild sem mestu skiptir í hagstjórnarlegu tilliti.

Nýlega lögðum við þingmenn Samfylkingarinnar og fleiri flokka fram þingsályktunartillögu um að ríkisstjórninni yrði falið að móta viðbragðsáætlun og undirbúa aðgerðir til að skýla viðkvæmustu hópunum fyrir snaraukinni verðbólgu og örum breytingum á vaxtastigi.

Það er nefnilega ekkert náttúrulögmál að hagstjórnaraðgerðir til að hemja verðbólgu séu látnar bitna óhindrað á tekjulægri hópum samfélagsins.

Það er fagnaðarefni að nú hafi líka Lilja Alfreðsdóttir viðskipta- og menningarráðherra stigið fram og viðurkennt að þörf sé á aðgerðum, annaðhvort af hálfu bankanna eða með inngripi stjórnvalda gegnum skatta- og bótakerfi, til að verja ungt fólk og tekjulægstu hópa fyrir áhrifum verðbólgu og vaxtahækkana.

Málefni fjármálafyrirtækja og úrræði vegna fjármála heimilanna heyra ekki undir ráðuneyti Lilju samkvæmt forsetaúrskurði en vonandi taka ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna áskoruninni.

Það er nefnilega ekkert náttúrulögmál að hagstjórnaraðgerðir til að hemja verðbólgu séu látnar bitna óhindrað á tekjulægri hópum samfélagsins.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.


Tengdar fréttir

Tillaga Samfylkingarinnar féll í grýttan farveg í Seðlabankanum

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á fundi Seðlabankans í dag að bankinn væri ekki hrifinn af þensluhvetjandi aðgerðum, á borð við þær sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt til, á meðan bankinn reynir að hemja eftirspurn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×