Innherji

Nýtt verðmatsgengi Icelandair tæplega 40 prósentum hærra en markaðsgengið

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Icelandair flutti 1,5 milljónir farþega í millilanda- og innanlandsflugi í fyrra.
Icelandair flutti 1,5 milljónir farþega í millilanda- og innanlandsflugi í fyrra. Vísir/Vilhelm

Verðmatsgengi Icelandair samkvæmt nýju verðmati Jakobsson Capital, sem Innherji hefur undir höndum, er 2,93 krónur á hlut og er því um 36 prósentum yfir markaðsgengi. Það hækkar um 18 prósent frá fyrra verðmati.

„Síðustu tvö uppgjör Icelandair bera með sér að flugið er komið af stað,“ segir í verðmatinu. „Áhyggjur sem að margir höfðu fyrir ári síðan um lausafjárstöðu og þörf félagsins að ganga á lánalínur eru ekki lengur til staðar.“

Heildartekjur Icelandair á fjórða ársfjórðungi námu samtals 24,5 milljörðum króna og voru þær þrefalt hærri en á fjórða ársfjórðungi 2020. Það eru svipaðar tekjur og voru á sömu fjórðungum árin 2013 og 2014. 

Tekjurnar voru heldur lægri á fjórða ársfjórðungi en greinandi Jakobsson Capital reiknaði með en aftur á móti voru tekjur ársins 2021 í heild sinni, alls 72,8 milljarðar króna, nokkuð hærri en greinandinn hafði spáð.

„Þær vísbendingar sem draga má af bókunum og þróun í flugi síðustu ársfjórðunga er að tekjur ársins 2022 verði ekki ósvipaðar því og var árið 2015,“ segir í verðmatinu.

Rekstraráætlun Icelandair gerir ráð fyrir að tekjur af flugfargjöldum nemi 880 milljónum dollara, jafnvirði 110 milljarða króna, á þessu ári sem er heldur hærra en árið 2015. Verulega hefur þó dregið úr öðrum tekjum eftir að Icelandair seldi hótelrekstur og nú nýlega ferðaskrifstofuna Iceland Travel.

„Nokkur óvissa er um kostnaðarliðina og hversu „hagstæð“ kostnaðarhlutföllin verða þegar að góður rekstrargrundvöllur er kominn fyrir Icelandair. Ljóst er að rekstrargrundvöllurinn er allt annar en var fyrir 2 til 3 árum síðan með nýjum vélum og betri kjarasamningum,“ skrifar greinandinn. Hann bendir á að árin 2018 og 2019 hafi flugfélagið verið rekið með rekstrartapi þrátt fyrir að hafa verið með yfir 1.500 milljónir dala í tekjur.

Gengi hlutabréfa flugfélagsins hefur hækkað um 35 prósent frá því í lok nóvember þegar það stóð í 1,6 krónu á hlut.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.