Innherji

Icelandair í hættu á að missa lykilstarfsmenn sem fái ekki nægjanlega góð laun

Hörður Ægisson skrifar
Þrír framkvæmdastjórar sögðu upp störfum hjá Icelandair Group á tímabilinu maí til október á síðasta ári.
Þrír framkvæmdastjórar sögðu upp störfum hjá Icelandair Group á tímabilinu maí til október á síðasta ári. Foto: Vilhelm Gunnarsson

Það er mat tilnefningarnefndar Icelandair Group, byggt á viðtölum sem nefndin hefur að undanförnu átt við meðal annars stjórnarmenn flugfélagsins, að þörf sé á öflugri áætlun til að minnka starfsmannaveltu í stjórnunarstöðum hjá fyrirtækinu ásamt því að endurskoða útfærslu starfskjara.

Þetta kemur fram í skýrslu tilnefningarnefndarinnar sem var birt í Kauphöllinni fyrr í dag en hún mælir með óbreyttri fimm manna stjórn félagsins.

Nefndin tekur fram að það sé „viðvarandi áhættuþáttur“ fyrir Icelandair Group að eiga á hættu að missa frá sér lykilstarfsmenn sem fái mögulega ekki nægjanlega vel greitt fyrir störf sín með tilliti til mikils vinnuálags og umfangsmikillar ábyrgðar.

Í skýrslunni er rifjað upp að þrír af sjö framkvæmdastjórum félagsins hafi sagt upp störfum eftir síðasta aðalfund Icelandair Group í mars í fyrra. Þar er nefndin að vísa til þeirra Evu Sóleyjar Guðbjörnsdóttur, sem var fjármálastjóri, Birnu Ósk Einarsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs, og Jens Þórðarsonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs. 

Þau hættu öll hjá Icelandair á tímabilinu frá maí til október á árinu 2021 og réðu sig til nýrra starfa.

Laun og hlunnindi Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair Group, hækkuðu um jafnvirði 20 milljóna króna í fyrra og námu samtals 65 milljónum á árinu 2021.Vísir/Vilhelm

Samkvæmt nýbirtum ársreikningi Icelandair Group kemur fram að laun og hlunnindi sjö manna framkvæmdastjórnar flugfélagsins hafi numið samtals 1.940 þúsund Bandaríkjadölum á árinu 2021, jafnvirði 243 milljóna króna á gengi dagsins í dag, og hækkuðu þær greiðslur um 10 milljónir frá fyrra ári. Það jafngildir því að launagreiðslur til framkvæmdastjóra hjá félaginu hafi numið að meðaltali um 35 milljónum á síðasta ári, eða um 2,9 milljónir króna á mánuði.

Laun og hlunnindi Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, hækkuðu um 163 þúsund dali á liðnu ári og voru samtals 518 þúsund dalir, jafnvirði 65 milljóna króna, eða sem nemur mánaðarlaunum upp á 5,3 milljónir.

Þegar faraldurinn skall á í marsmánuði 2020 stöðvaðist nánast öll starfsemi Icelandair og félagið þurfti að segja upp meirihluta starfsmanna sinna. Við þær aðgerðir tilkynnti Bogi að laun hans myndu lækka um 30 prósent og laun framkvæmdastjóra hjá félaginu um 25 prósent.

Tilnefningarnefndin leggur sem fyrr segir það til í skýrslu sinni að núverandi stjórn félagsins fái endurnýjað umboð á aðalfundi Icelandair Group þann 3. mars næstkomandi. Stjórnin er í dag skipuð þeim Guðmundi Hafsteinssyni, sem er jafnframt formaður stjórnarinnar, Ninu Jonsson, John F. Thomas, Matthew Evans og Svöfu Grönfeldt.

Að sögn nefndarinnar búa stjórnarmennirnir í sameiningu yfir öllum þeim styrkleikum sem nauðsynlegir eru til að mynda öfluga stjórn. Þá sé ekki að finna neina sérstaka veikleika í stjórninni sem réttlæti það að gerð sé breyting á samsetningu hennar á þessum tíma.

Segja upp lánalínu með ríkisábyrgð

Á fjórða ársfjórðungi nam tap Icelandair 5 milljörðum króna, og minnkaði það um 5,6 milljarða á milli ára, en samtals flutti félagið þá um 545 þúsund farþega. Heildartap fyrir árið 2021 var hins vegar 13 milljarðar króna og tekjur Icelandair voru samtals 75 milljarðar. Áætlanir gera ráð fyrir að framlegðarhlutfall (EBIT) verði jákvætt um 3 til 5 prósent á þessu ári.

Hlutabréfaverð Icelandair hefur hækkað mikið að undanförnu en frá því í lok nóvember nemur hækkunin rúmlega 30 prósentum. Markaðsvirði félagsins stendur í dag í 75 milljörðum króna.

Þá sendi Icelandair frá sér tilkynningu eftir lokun markaða í dag að félagið væri búið að tilkynna lánveitendum og íslenska ríkinu um uppsögn á lánalínu með ríkisábyrgð sem verið hefur í gildi síðan í september 2020 þegar hlutafjárútboð fyrirtækisins fór fram. Icelandair undirritaði þá samninga við Íslandsbanka, Landsbankann og íslenska ríkið um allt að 120 milljóna Bandaríkjadala lánalínu með 90 prósent ábyrgð ríkisins.

„Það er ánægjulegt að tilkynna um uppsögn okkar á lánalínu með ríkisábyrgð tæpum átta mánuðum á undan áætlun og þar að auki án þess að á hana hafi reynt,“ segir Bogi Nils í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Jens úr fluginu og í land­eldið

Jens Þórðarson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Geo Salmo, sem áformar uppbyggingu landeldis á laxi á Íslandi.

Erfið ákvörðun að hætta hjá Icelandair

Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra fjármála hjá Icelandair Group, hefur óskað eftir að láta af störfum hjá félaginu. Eva Sóley hóf störf í byrjun árs 2019 og hefur að sögn félagsins verið í lykilhlutverki við að koma því í gegnum fordæmalausar rekstraraðstæður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×