Innherji

Fjármögnun innviðasjóðs sem hyggst koma að kaupunum á Mílu að klárast

Hörður Ægisson skrifar
Helstu tækifærin sem sjóðurinn sér í innviðafjárfestingum á næstu árum er í fjarskiptum, orku, veitum og samgöngum.
Helstu tækifærin sem sjóðurinn sér í innviðafjárfestingum á næstu árum er í fjarskiptum, orku, veitum og samgöngum. vísir/vilhelm

Nýr framtakssjóður sem mun horfa til fjárfestingatækifæra í innviðum á Íslandi á komandi árum verður að öllum líkindum um tíu milljarðar króna að stærð til að byrja með.

Formleg stofnun og fjármögnun innviðasjóðsins, sem verður í rekstri sjóðastýringarfyrirtækisins Summu og fjármagnaður að langstærstum hluta af lífeyrissjóðum, er á lokametrunum og eru væntingar um að sú vinna muni klárast fyrir áramót, samkvæmt heimildum Innherja.

Gert er ráð fyrir því að fyrsta fjárfesting sjóðsins á nýju ári verði í Mílu, dótturfélagi Símans, en franski fjárfestingasjóðurinn Ardian, sem skrifaði undir samkomulag um kaup á fyrirtækinu fyrir 78 milljarða í október, hefur boðið íslenskum lífeyrissjóðum að koma að þeim viðskiptum með því að kaupa samanlagt 20 prósenta hlut á sömu kjörum og Ardian. Aðkoma lífeyrissjóðanna getur verið með beinni þátttöku þeirra eða í gegnum innlenda fjárfestingasjóði, líkt og þeim sem Summa er nú að koma á fót.

Tveir af þremur stærstu lífeyrissjóðum landsins – Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) og Gildi – leggja hinum nýja innviðasjóð ekki til fjármagn á þessu stigi, samkvæmt heimildum Innherja. Ekki er hins vegar útilokað að þeir muni gera það síðar en stjórnendur Summu horfa til þess að innviðasjóðurinn verði stækkaður enn frekar þegar fram í sækir, þá líklegast upp í allt að 15 milljarða króna.

Samanlögð fjárhæð staðfestra hlutafjárloforða frá fjölda lífeyrissjóða, sem sum hver koma með ýmsum hliðarskilyrðum, námu í heild sinni á annan tug milljarða króna. Endanleg áætluð stærð sjóðsins er aftur á móti talin verða um tíu milljarðar en í hópi hluthafa verða flestir af helstu lífeyrissjóðum landsins, eins og meðal annars Lífeyrissjóður verslunarmanna, Birta og Frjálsi.

Fyrir rekur Summa annan sambærilegan innviðasjóð, sem heitir Innviðir fjárfestingar og er talsvert minni að stærð, en hann hefur meðal annars komið að fjárfestingum í HS Veitum og Verðbréfamiðstöð Íslands.

Helstu tækifærin sem Summa sér í innviðafjárfestingum á næstu árum er í fjarskiptum, orku, veitum og samgöngum. Í skýrslu sem Samtök iðnaðarins gáfu út í byrjun þessa árs var fjárfestingakostnaður vegna uppsafnaðrar viðhaldsþarfar á innviðakerfum hér á landi metinn um 420 milljarðar króna, eða sem nemur um 14,5 prósent af landsframleiðslu.

Lífeyrissjóðir þurfa að koma með yfir 15 milljarða

Summa var á meðal þeirra fjárfesta sem settu fram kauptilboð í Mílu fyrr á árinu en lífeyrissjóðirnir hafa átt í samstarfi við sjóðastýringarfyrirtækið vegna mögulegrar aðkomu þeirra að kaupum í Mílu. Samkvæmt fjárfestingastefnu innviðasjóðs Summu þá má hann fjárfesta í einstökum verkefnum sem nemur þriðjungi af stærð sjóðsins.

Miðað við kaupverð Ardian á Mílu – samtals 78 milljarðar króna – þá þurfa lífeyrissjóðirnir að greiða um 15,6 milljarða króna til að eignast 20 prósenta hlut í fyrirtækinu. Í gegnum innviðasjóð Summu munu íslensku lífeyrissjóðirnir geta eins og sakir standa lagt til að hámarki um 3,3 milljarða króna en restin – meira en 12 milljarðar – þyrfti þá að koma beint frá lífeyrissjóðunum.

Ætla að hraða fjárfestingaverkefnum Mílu

Áætlaður söluhagnaður Símans vegna viðskiptanna er rúmlega 46 milljarðar króna að teknu tilliti til kostnaðar viðskiptanna. Stærsti einstaki hluthafi Símans er fjárfestingafélagið Stoðir með rúmlega 15 prósenta hlut en aðrir helstu eigendur fjarskiptarisans eru LSR, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi.

Míla er heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði og felst kjarnastarfsemi Mílu í að byggja upp og reka innviði fjarskipta á landsvísu.

Í tilkynningu vegna kaupanna fyrr í haust kom fram að Ardian áformaði að hraða fjárfestingarverkefnum Mílu. Sérstök áhersla yrði lögð á að leggja ljósleiðara í sveitarfélögum á landsbyggðinni, sem mun auka samkeppnishæfni minni sveitarfélaga, og byggja framúrskarandi 5G farsímakerfi á Íslandi.

Í liðinni viku var greint frá því að búið væri að skrifa undir samning milli íslenska ríkisins og Mílu um þær kvaðir sem munu snúa að rekstri fyrirtækisins eftir að það kemst í eigu Ardian en þær eiga að tryggja að starfsemi þess samrýmist þjóðaröryggishagsmunum Íslands. Að mati stjórnvalda ógnar eignarhald franska sjóðsins ekki þjóðaröryggi landsins en á gildistíma samningsins mun þeim gefast tími til að semja lög um þær kvaðir sem Míla undirgengst.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.