Körfubolti

Borðaði kjúkling og sagði liðið sitt sökka

Sindri Sverrisson skrifar
Giannis Antetokounmpo reynir að ná boltanum af Evan Mobley í tapinu gegn Cleveland í nótt.
Giannis Antetokounmpo reynir að ná boltanum af Evan Mobley í tapinu gegn Cleveland í nótt. AP/Tony Dejak

Giannis Antetokounmpo, sem tvívegis hefur verið valinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar í körfubolta, mætti með nesti á blaðamannafund eftir tap Milwaukee Bucks gegn Cleveland Cavaliers.

Antetokounmpo skoraði 26 stig og tók 9 fráköst í leiknum en það dugði skammt því Cleveland vann öruggan sigur, 115-99, og kom sér þar með upp fyrir Milwaukee í 3. sæti austurdeildarinnar, þar sem staða sex sefstu liðanna er afar jöfn.

Á síðustu leiktíð vann Cleveland bara 22 leiki en nú þegar hefur liðið unnið 30 leiki en tapað 19.

„Þetta er ekki það Cleveland-lið sem við höfum þekkt síðustu ár. Þeir eru með gott lið og við þurfum að sýna þeim meiri virðingu. Þetta er lið sem fer í úrslitakeppni og þeir eru sjálfir að berjast um titilinn,“ sagði Antetokounmpo á blaðamannafundi eftir leik.

Grikkinn gæddi sér á kjúklingavængjum á milli þess sem hann svaraði spurningum af hreinskilni:

„Við sökkum. Spiluðum illa. Þeir hittu skotum, spiluðu vel. Þeir spiluðu betur en við,“ sagði Antetokounmpo.

Þetta var áttundi sigur Cleveland í níu leikjum og liðið setti niður 19 þriggja stiga skot í leikjum, þar af sjö í öðrum leikhluta.

Setti niður tíu þrista í 158 stiga leik

Í Indianapolis skoruðu Charlotte Hornets heil 158 stig, í 158-126 sigri gegn Indiana Pacers. LaMelo Ball var með þrennu fyrir Charlotte en hann skoraði 29 stig, tók 10 fráköst og gaf 13 stoðsendingar.

Fleiri stig hafa ekki verið skoruð í leik í NBA-deildinni á þessari leiktíð og Charlotte hefur aldrei í sögunni skorað fleiri stig í einum leik. Kelly Oubre Jr. skoraði 39 þeirra og setti niður 10 af þeim 24 þristum sem liðið skoraði.

Á meðal annarra úrslita má nefna að Phoenix Suns unnu sinn áttunda leik í röð, 105-97 gegn Utah Jazz. Devin Booker skoraði 43 stig og Chris Paul setti niður 15 af 21 stigi sínu í fjórða leikhlutanum.

  • Úrslitin í nótt:
  • Cleveland 115-99 Milwaukee
  • Indiana 126-158 Charlotte
  • Orlando 102-111 LA Clippers
  • Atlanta 121-104 Sacramento
  • Miami 110-96 New York
  • Brooklyn 118-124 Denver
  • Chicago 111-105 Toronto
  • San Antonio 110-118 Memphis
  • Utah 97-105 Phoenix
  • Portland 112-132 Dallas

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×