Handbolti

Pólverjar kvörtuðu til EHF vegna ólöglegs jöfnunarmarks Rússa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sergei Kosorotov skoraði jöfnunarmark Rússlands gegn Póllandi á EM í gær. Það hefði þó aldrei átt að fá að standa.
Sergei Kosorotov skoraði jöfnunarmark Rússlands gegn Póllandi á EM í gær. Það hefði þó aldrei átt að fá að standa. getty/Nebojsa Tejic

Pólverjar hafa sent inn formlega kvörtun til Handknattleikssambands Evrópu (EHF) vegna jöfnunarmarks Rússa í leik liðanna í milliriðli II á EM í gær.

Michal Daszek kom Póllandi yfir, 29-28, undir blálokin í leiknum í gær. Rússland tók í kjölfarið leikhlé þegar þrjár sekúndur voru eftir. Sergei Kosorotov fékk boltann, lét vaða af löngu færi og inn fór boltinn. Eftir að hafa skoðað atvikið á myndbandi dæmdu frönsku tvíburasysturnar Julie og Charlotte Bonaventura markið gilt og leiknum lauk því með jafntefli, 29-29. 

Markið hefði þó aldrei átt að standa. Kosorotov kom vissulega boltanum í netið áður en leiktíminn rann út en hann tók fjögur skref með boltann áður en hann skaut að marki. Þetta fór framhjá Bonaventura-systrunum.

Handknattleikssamband Póllands sendi inn formlega kvörtun til EHF vegna jöfnunarmarksins. EHF tók málið fyrir og vísaði kvörtunum Pólverja frá. Úrslit leiksins, 29-29, standa því.

Úrslitin breyttu litlu fyrir bæði lið. Pólverjar áttu ekki lengur möguleika á að komast í undanúrslit og möguleikar Rússa eru einnig úr sögunni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.