Handbolti

Gætum endurheimt smitaða leikmenn í dag

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Björgvin Páll er alveg að losna úr prísundinni.
Björgvin Páll er alveg að losna úr prísundinni. vísir/getty

Það hefur ekki alveg verið á hreinu hvernig reglurnar eru varðandi leikmenn sem smitast af Covid á EM. Það er að segja hvenær þeir mega koma til baka.

Reglurnar eru frekar flóknar. Upphaflega var talað um fimm daga einangrun og svo tvö neikvæð PCR-próf. En var nóg að fá neikvætt á fjórða og fimmta degi eða þurfti neikvætt á sjötta og sjöunda degi? Þetta var ekki alveg á hreinu.

Nú er komið á hreint að leikmaður getur losnað og byrjað að spila á fimmta degi. Hann þarf þá að fá neikvætt úr tveimur PCR-prófum þann dag. En það er ekki nóg. Svokallað CT-gildi þarf að komast vel yfir 30. Það þýðir að viðkomandi er hættur að smita.

Neikvætt PCR-próf og CT-gildi vel yfir 30 á fimmta degi fer þá til sérfræðings sem tekur ákvörðun um hvort það sé óhætt að sleppa viðkomandi.

Svo gæti sérfræðingur líka sleppt leikmanni sem fær jákvætt próf en er með vel yfir 30 í CT. Það fer því aðeins eftir duttlungum þessa sérfræðings hvort og hvenær leikmenn sleppa úr prísundinni.

Þetta þýðir að glugginn er að opnast hjá þeim sem smituðust fyrst. Það eru þeir Björgvin Páll Gústavsson, Elvar Örn Jónsson, Ólafur Andrés Guðmundsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson.

Svo styttist í Aron Pálmarsson og Bjarka Má Elísson.

Það er ólíklegt að einhver smitaður geti spilað gegn Króatíu í dag en það eru ágætar líkur á að liðið endurheimti leikmenn fyrir lokaleik milliriðilsins gegn Svartfellingum þar sem allt verður undir.

Uppfært klukkan 09:00

Björgvin Páll Gústavsson er laus úr einangrun. Nánar hér.


Tengdar fréttir

Viggó skoraði fallegasta mark gærdagsins

Í gær fóru fram þrír leiki á Evrópumótinu í handbolta og í þeim voru skoruð samtals 166 mörk. Viggó Kristjánsson, hægri skytta íslenska landsliðsins, skoraði þó það fallegasta af þeim öllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×