Vallea sýndi Fylki enga virðingu í 16-9 sigri.

Snorri Rafn Hallsson skrifar
vallea fylkir

Þegar liðin mættust í 5. umferð deildarinnar gaf Fylkir Vallea góðan leik en Vallea hafði betur að lokum 16-12.  Það verða að teljast dæmigerð úrslit fyrir Fylki sem á sjaldnast í vandræðum með að vinna lotur en á aftur á móti frekar erfitt með að vinna leiki. 

Fyrir leik gærkvöldsins stillti Fylkir upp sínu hefðbundna liði með K-Dot, Andra 2K, Jolla, Pat og Zerq innanborðs. Vallea nældi sér nýlega í Minidegreez og lék hann í stað Denosar við hlið Narfa, Stalz, Goater og Spike. Leikur liðanna fór fram á heimavelli Ljósleiðaradeildarinnar, Nuke.

Mikill sprengikraftur einkenndi upphaf leiksins. Vallea vann hnífalotuna og valdi að byrja í vörn (Counter-Terrorists) en Fylkismenn mættu grimmir til leiks og settu tóninn með ás frá K-Dot strax í fyrstu lotu þegar Narfi endaði einn gegn fjórum Fylkismönnum. Í lotunni á eftir var Narfi aftur einn eftir og féll en í þeirri þriðju tókst honum að bjarga lotunni fyrir horn og fylgdi Vallea því eftir með því að taka einnig næstu tvær og snúa leiknum við. 

Vallea dreifði fellunum bróðurlega á milli sín og með innkomu Minidegreez á vappann hefur Spike fengið tækifæri til að vera árásargjarnari og meira skapandi, hvort sem það er í vörn eða sókn. Voru Vallea því komnir með ágætis forskot undir lok fyrri hálfleiks. ekki var þó allt blóð úr æðum Fylkismanna runnið og undir lokin settu þeir mikla pressu á Vallea og náðu svo gott sem að jafna metin. 

Staða í hálfleik: Vallea 8 - 7 Fylkir

Þegar komið var inn í síðari hálfleik og liðin skiptu um hlið var staðan því jafnari en margir hefðu spáð fyrir um. Það varði þó ekki lengi því Vallea hafði algjört tangarhald á leiknum það sem eftir var. Vallea fann snjallar lausnir gegn varnaraðgerðum Fylkis og tókst að halda efnahagnum í góðu jafnvægi. 

Undir miðbik hálfleiks hægði Fylkir örlítið á leiknum eins og liðið vill gjarnan gera og gekk vel í nokkrum endurtökum en þá setti Vallea í enn hærri gír. Eftir að Vallea hafði betur í sparlotu þar sem liðið hirti öll vopnin af Fylkismönnum var ekki aftur snúið. Vörn Fylkis réð engan veginn við kraftinn og skipulagið sem Vallea býr yfir og vann Valea því leikinn örugglega. 

Lokastaða: Vallea 16 - 9 Fylkir

Staða Vallea í þriðja sæti deildarinnar styrktist til muna með þessum sigri en Fylkir náði ekki að nýta tækifærið í þessum leik til að jafna Ármann að stigum og hífa sig upp úr fallsætinu sem liðið hefur verið í allt frá upphafi tímabilsins. 

Í næstu umferð leikur Vallea gegn XY sem eru fjórum stigum á eftir þeim í fjórða sætinu en Fylkir mætir þá Ármanni. Báðir leikirnir fara fram þriðjudaginn 25. janúar og verður sýnt frá þeim á á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.