Körfubolti

Elvar Már og félagar með stórsigur í belgíska bikarnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elvar Már og félagar unnu stórsigur í kvöld.
Elvar Már og félagar unnu stórsigur í kvöld. HLN.BE

Elvar Már Friðriksson og félagar hans í Antwer Giants unnu 40 stiga stórsigur er liðið heimsótti Mechelen í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum belgísku bikarkeppninnar í kvöld. Elvar skoraði 14 stig, en lokatölur urðu 117-77.

Elvar og félagar byrjuðu af miklum krafti og skoruðu 17 af fyrstu 19 stigum leiksins. Liðið náði mest 24 stiga forskoti í fyrsta leikhluta, en að honum loknum var staðan 35-15.

Þeir bættu svo í fyrir hálfleik og juku forskot sitt í 33 stig þegar mest var. Liðið skoraði 67 stig í fyrri hálfleik og þegar gengið var til búningsherbergja var munurinn 30 stig, staðan 67-37.

Eftir þessa frammistöðu í fyrri hálfleik var sá síðari í raun bara formsatriði. Elvar og félagar juku forskot sitt í 43 stig þegar mest lét í þriðja leikhluta, og náðu 46 stiga forskoti í stöðunni 99-53 í lokaleikhlutanum. Að lokum vann liðið með 40 stiga mun, 117-77.

Eins og áður segir skoraði Elvar 14 stig fyrir Antwerp Giants og var þriðji stigahæsti maður liðsins. Auk þess tók hann fjögur fráköst og gaf fimm stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×