Innherji

Fjarskiptafrumvarp gæti fælt erlenda fjárfesta

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ljósleiðarinn mynd

Frumvarp sem veitir ráðherra heimild til að binda erlenda fjárfestingu skilyrðum með vísan til þjóðaröryggis gæti fælt fjárfestingu frá landinu. Þetta er mat Samtaka iðnaðarins, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands en auk þess telja fjarskiptafyrirtækin að ákvæði laganna kunni að brjóta gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.

Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að ráðherra geti bundið erlenda fjárfestingu skilyrðum í því skyni að koma í veg fyrir að hún geti „ógnað öryggi landsins, gengið gegn allsherjarreglu, almannaöryggi o.s.frv.“

Séu þau skilyrði brotin getur ráðherra farið fram á að hlutaðeigandi erlend fjárfesting skuli ganga til baka að viðlögðum dagsektum og þá getur hann lýst atkvæðisrétt fjárfestis í viðkomandi atvinnufyrirtæki óvirkan. Ráðherra er sömuleiðis heimilt að krefjast innlausnar á eignum og réttindum erlends fjárfestis í fyrirtæki í atvinnurekstri hér á landi.

Samtökin benda í umsögn sinni á að Ísland hafi að mörgu leyti verið eftirbátur annarra ríkja með tilliti til erlendrar fjárfesting. Það gildi meðal annars um upplýsingatækni, fjarskipti og gagnaversiðnað.

Of opnar heimildir til takmörkunar á erlendri fjárfestingu geta fælt fjárfestingu frá landinu.

„Erlend fjárfesting sætir víðtækari hindrunum en almennt þekkist. Slíkt skal ávallt haft í huga þegar boðaðar eru breytingar á löggjöf er varða erlendar fjárfestingar en of opnar heimildir til takmörkunar á erlendri fjárfestingu geta, jafnvel einar og sér, fælt fjárfestingu frá landinu.“

Ákvæðið eins og það birtist í frumvarpinu er opið og almennt að mati samtakanna. Það er enn fremur ekki samhljóma lagaákvæðum í sambærilegum lagabálkum nágrannaríkja Íslands.

„Að mati samtakanna verður ákvæðið að hafa skýran ramma um hvenær ráðherra sé heimilt að binda erlenda fjárfestingu frekari skilyrðum og kveða nánar á um hvers eðlis slík skilyrði geti verið og hvernig þau skuli útfærð,“ segir í umsögninni.

Innherji hefur áður greint frá umsögn Símans sem benti á að engin takmörk væru fyrir því hvaða skilyrði ráðherra gæti lagt á fjárfestingar erlendra aðila og þannig fengi hann í raun óheft vald. Þá fái ráðherra heimild til þess að svipta viðkomandi erlenda fjárfesta eignaréttindi út í hið óendanlega og raunverulega án tillits til þess hvort meint brot gegn óskilgreindum skilyrðum hafi einhverja þýðingu.

„Þannig koma engar bætur fyrir það ef atkvæðaréttur hluthafa er lýstur óvirkur, sem er verulegt inngrip í eignarétt viðkomandi aðila. Ráðherra gæti þannig lýst atkvæðisrétt óvirkan en ekki tekið fyrirtækið yfir,“ sagði í umsögn Símans. Telur fjarskiptafyrirtækið því að verið sé að ganga gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Keppinauturinn Sýn tekur undir sjónarmið Símans um að fyrirliggjandi áform um breytingar á lögum um erlendar fjárfestingar kunni að brjóta gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrár.

Fæst ekki séð að unnt verði að leggja svo mjög íþyngjandi skyldur á fjarskiptafyrirtækin á grundvelli matskenndra hugtaka sem hafa óljósa merkingu.

„Frumvarpið áformar ýmsar íþyngjandi kvaðir á fjarskiptafyrirtæki í tengslum við atvik sem varða almannahagsmuni eða þjóðaröryggi. Engu að síður eru þessi hugtök hvergi skilgreind í lögum um fjarskipti eða Fjarskiptastofu. Fæst ekki séð að unnt verði að leggja svo mjög íþyngjandi skyldur á fjarskiptafyrirtækin á grundvelli matskenndra hugtaka sem hafa óljósa merkingu,“ segir í umsögn Sýnar.

Þá bendir Sýn á mikilvægi þess að Alþingi forgangsraði og afgreiði fyrirliggjandi frumvarp til nýrra heildarlaga um fjarskipti. „Afgreiðslu þess frumvarps hefur ítrekað verið frestað af hálfu Alþingis. Sú óvissa sem hefur um langt árabil ríkt um mögulegar takmarkanir gagnvart einstökum birgjum Sýnar hefur nú þegar tafið uppbyggingu Sýnar á 5G netum og þjónustu, neytendum þjóðfélaginu til tjóns.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×