Innherji

„Ég fékk þá tilfinningu að spítalinn væri einstaklega illa rekinn“

Ritstjórn Innherja skrifar
Þorsteinn Víglundsson og Sigríður Andersen voru gestir Þjóðmála. Þorsteinn segir að öllum megi vera ljóst að rekstur spítalans sé í raun vandamálið frekar en skortur á fjármögnun heilbrigðiskerfisins.
Þorsteinn Víglundsson og Sigríður Andersen voru gestir Þjóðmála. Þorsteinn segir að öllum megi vera ljóst að rekstur spítalans sé í raun vandamálið frekar en skortur á fjármögnun heilbrigðiskerfisins.

„Það vakti ekki hrifningu hjá mér hvernig Landsspítalinn nálgaðist fjárlagaumræðuna, mér fannst það ekki sérstaklega trúverðugt, þekkjandi til rekstrar. Ég fékk ekki tilfinningu fyrir því að þarna væri vel farið með opinbert fé. Þvert á móti fékk ég þá tilfinningu að spítalinn væri einstaklega illa rekinn.“

Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra og nú forstjóri Hornsteins, móðurfélags BM Vallár, í nýjasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála. Í þættinum ræðir Gísli Freyr Valdórsson við Þorstein og Sigríði Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, um nýjustu aðgerðir stjórnvalda í sóttvarnarmálum og annað tengt kórónuveirufaraldrinum.

Þarna vísar Þorsteinn, sem var varaformaður og þingmaður Viðreisnar, til þess tíma sem hann sat í fjárlaganefnd Alþingis en í þættinum er meðal annars rætt um efnahagslegar afleiðingar af ákvörðunum stjórnvalda sem og rekstur Landspítalans. Þorsteinn segir að búið sé að ræða statt og stöðugt um meintan skort á fjármögnun heilbrigðiskerfisins um árabil en þó megi öllum vera ljóst að rekstur spítalans sé í raun vandamálið. 

Hann tekur hins vegar fram að mikilvægt sé að gera greinarmun á starfsfólki spítalans og stjórnendum í þeirri umræðu.

„Við vitum að þar starfar duglegt og gott fólk. Ég hef meiri áhyggjur af því hvernig spítalanum er stjórnað, hvernig er farið með fjármunina, hvernig framleiðnin innan spítalans er og svo mætti áfram telja,“ segir Þorsteinn.

„Þá getum við bara horft í þennan veruleika sem hefur verið bent á hér aftur og aftur, meðal annars í erlendum skýrslum og úttektum eftir erlenda sérfræðinga.“

Ég hef meiri áhyggjur af því hvernig spítalanum er stjórnað, hvernig er farið með fjármunina, hvernig framleiðnin er innan spítalans.

Sigríður segir augljóst að eitthvað sé að þegar spítalinn líti á það sem sinn helsta vanda að þangað komi veikt fólk. Þá segir hún einnig mikilvægt að greiða því starfsfólki sem vinna þarf í kringum viðkvæma hópa vel fyrir vinnu sína.

„Við þurfum að tryggja að fólk sem starfar í umönnun þurfi ekki að vinna aukavinnu, meðal annars á börum og veitingahúsum. Þetta átt að gera strax í upphafi og það er ekki of seint,“ segir Sigríður.

Unga kynslóðin á eftir að borga

Hún bendir meðal annars á að unga kynslóðin, sem nú fer í gegnum framhaldsskóla með því að sitja heima hjá sér við tölvu, þurfi að bera kostnaðinn af þeim aðgerðum sem gripið hafi verið til og þeim efnahagslegu afleiðingum sem þær aðgerðir hafa skapað. Bein útgjöld hins opinbera sé nú í kringum 215 milljarðar króna og enn eigi eftir að meta óbeinan kostnað af áhrifum aðgerðanna.

„Það er ekki búið að fjármagna þennan kostnað, en það verður gert með peningaprentun og lántöku ríkisins til lengri tíma,“ segir Sigríður.

Við þurfum að tryggja að fólk sem starfar í umönnun þurfi ekki að vinna aukavinnu, meðal annars á börum og veitingahúsum. Þetta átt að gera strax í upphafi.

„Ef við ætlum á annað borð að prenta peninga ættum við að nota þá í eitthvað annað en að borga veitingahúsum fyrir að vera lokuð,“ segir hún og bætir við að rétt sé að hætta sóttvarnaraðgerðum og leyfa veitingahúsum, sviðlistafólki og fleirum að stunda sína starfsemi.

Í þættinum ræða þau Sigríður og Þorsteinn einnig um meðvirkni fjölmiðla og spurningarnar sem fáir þora að spyrja, hlutverk stjórnmálamanna þegar tekist er á við faraldur, hvort og þá hvaða hlutverki Alþingi á að gegna, þau áhrif sem aðgerðirnar kunna hafa á þróun lýðræðisríkja og margt fleira.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×