Innherji

Bera meðvirkni fjölmiðla nú saman við meðvirkni þeirra fyrir bankahrun

Ritstjórn Innherja skrifar
Þorsteinn Víglundsson Sigríður Andersen segja að búíð sé að skapa stemningu skilyrðislausrar hlýðni og fylgispektar við aðgerðir hverju sinni sem sé óheilbrigt í lýðræðissamfélagi til lengdar
Þorsteinn Víglundsson Sigríður Andersen segja að búíð sé að skapa stemningu skilyrðislausrar hlýðni og fylgispektar við aðgerðir hverju sinni sem sé óheilbrigt í lýðræðissamfélagi til lengdar

Það er töluverður skortur á því að fjölmiðlar spyrji gagnrýnna spurninga þegar kemur að sóttvarnaraðgerðum stjórnvalda, ákvörðunum um það hvaða takmarkanir eru settar á, hvenær og hvernig og hvaða árangri þeim er ætlað að bera.

Um þetta er fjallað í nýjasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála. Þar ræða þau Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra og nú forstjóri Hornsteins, móðurfélags BM Vallár, um nýjustu aðgerðir stjórnvalda í sóttvarnarmálum.

Þar er meðal annars rætt um meðvirkni fjölmiðla og rifjar Sigríður upp að leiðarahöfundur danska dagblaðsins Extra bladet hafi í vikunni beðið lesendur sína afsökunar á því að skortur hafi verið á gagnrýnum spurningum þegar kemur að sóttvarnaraðgerðum danskra yfirvalda. Þorsteinn bendir á að íslenskir fjölmiðlar séu ekki síður meðvirkir og segist sakna gagnrýnnar umræðu um þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hverju sinni.

„Fjölmiðlar fóru í mjög mikla naflaskoðun hér eftir hrun og sögðu; við brugðumst í gagnrýnni umfjöllun og við ætlum að bæta okkur í því að vera gagnrýnni á samfélagið og aðgerðir stjórnvalda. Aftur á móti hefur algjört gagnrýnisleysi einkennt umfjöllun um þennan faraldur,“ segir Þorsteinn.

„Það hefur verið sköpuð hér einhver svona stemning skilyrðislausrar hlýðni og fylgispektar við aðgerðir hverju sinni, sem er ofboðslega óheilbrigt í lýðræðissamfélagi til lengdar. Það má líka velta því fyrir sér, hvaða áhrif hefur þessi krafa stjórnvalda um einhvers konar fylgispekt og gagnrýnisleysi á fjölmiðla og samfélagið í heild sinni, til lengdar á lýðræðislega umræðu,“ segir Þorsteinn, og bætir við:

„Það er ekki verið að tala um einhverja álhattaumræðu, en við hljótum að vilja veita stjórnvöldum aðhald þegar verið er að taka ákvörðun sem skerðir réttindi fólks.“

Það hefur verið sköpuð hér einhver svona stemning skilyrðislausrar hlýðni og fylgispektar við aðgerðir hverju sinni, sem er ofboðslega óheilbrigt í lýðræðissamfélagi til lengdar.

Í þættinum bendir Sigríður þó á að sýna þurfi íslenskum fjölmiðlum ákveðinn skilning. Rekstur þeirra sé erfiður og þeir flestir undirmannaðir – en nú séu liðin tæp tvö ár frá því að faraldurinn hófst og að á þeim tíma hafi verið tækifæri til að kafa dýpra ofan í þau gögn sem liggja fyrir og ákvarðanir stjórnvalda eru byggð á. 

Sigríður segir jafnframt að stjórnmálamenn hafi einnig haft takmarkaðan aðgang að réttum upplýsingum, og vísar þar til þess tíma sem hún sat í velferðarnefnd Alþingis á síðasta kjörtímabili. Hún hafi ítrekað kallað eftir gögnum frá þeim sérfræðingum sem komu fyrir nefndina og vísuðu í rannsóknir og viðtöl máli sínu til stuðnings.

Fjölmiðlar fóru í mjög mikla naflaskoðun hér eftir hrun og sögðu; við brugðumst í gagnrýnni umfjöllun og við ætlum að bæta okkur í því að vera gagnrýnni á samfélagið og aðgerðir stjórnvalda.

„Svo kom upp úr hattinum að þau voru að vísa í eigin viðtöl,“ segir Sigríður.

Í þættinum er einnig rætt um hlutverk stjórnmálamanna þegar tekist er á við faraldur, hvort og þá hvaða hlutverki Alþingi á að gegna í þeirri stöðu sem nú hefur ríkt í nærri tvö ár, efnahagslegar afleiðingar aðgerðanna, þróun lýðræðisríkja og margt fleira.


Tengdar fréttir

Þjóðmál í samstarf við Innherja

Hlaðvarpsþátturinn Þjóðmál, í umsjá Gísla Freys Valdórssonar, og Innherji hefja samstarf á allra næstu dögum.

Tíu mega koma saman

Sóttvarnaraðgerðir verða hertar og taka þær gildi á miðnætti. Heilbrigðisráðherra segir að sóttvarnalæknir hafi lagt fram þrjár leiðir: Óbreyttar aðgerðir, færa samkomutakmarkanir úr tuttugu manns í tíu, eða lokun á samfélaginu í tíu daga. Ríkisstjórnin hafi valið leið tvö.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.