Innherji

Telur tækifæri í hagstæðari fjármögnun Síldarvinnslunnar

Hörður Ægisson skrifar
Markaðsvirði Síldarvinnslunnar hefur hækkað um 70 milljarða frá því að fyrirtækið var skráð í Kauphöllina í lok maí á síðasta ári.
Markaðsvirði Síldarvinnslunnar hefur hækkað um 70 milljarða frá því að fyrirtækið var skráð í Kauphöllina í lok maí á síðasta ári. Mynd/Kristín Svanhvít Hávarðsdóttir

Þrátt fyrir að allt stefni í að árið 2022 verði magnað ár í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja sem hafa aflaheimildir í loðnu, eins og meðal annars Síldarvinnslan, þá þarf að hafa í huga að veiðar geta gengið misjafnlega vel.

Þegar meta á áhrif loðnunnar á afkomu fyrirtækjanna er þess vegna mikilvægt að líta til þess að verð voru óvenjulega há í fyrra og eftirspurnin mikil.

Þetta kemur meðal annars fram í nýju verðmati greiningarfyrirtækisins Jakobsson Capital, sem var birt fyrr í dag, en þar er Síldarvinnslan metin á 149 milljarða króna sem er rúmlega 4 prósenta hækkun frá fyrra mati. Verðmatsgengið, sem er nú 87,7 krónur á hlut að nafnvirði, er hins vegar um 13 prósentum lægra en markaðsgengi félagsins sem stóð í 100,5 krónum á hlut við lokun markaða í dag.

Greinandi Jakobsson segir að hagfelldar markaðsaðstæður á síðasta ári eftir loðnuafurðum hafi ekki verið óeðlilegar en framboð var lítið og engin veiði árið þar á undan. Þegar það verði síðan sprenging í framboði – íslenskum skipum er heimilt að veiða 660 þúsund tonn af loðnu og er kvóti Síldarvinnslunnar um 116 þúsund tonn – er aftur á móti hætta á að verð lækki.

„Sömuleiðis er mikill munur á vertíðinni 2021 þegar hægt var að nýta „ónýtt slott“ og þeirri sem er að hefjast núna. Framleiðslan fer „umfram“ framleiðslugetu og það þarf að fjárfesta til að auka afköst. Hætt er við að aukin fjárfesting klípi af framlegð og meira framboð hafi neikvæð áhrif á verð,“ segir í verðmatinu.

Gunnþór Ingvarsson, forstjóri Síldarvinnslunnar, hefur sagt að hann telji að íslenskur sjávarútvegur geti náð minnst 60 milljörðum króna úr loðnukvótanum.

Síldarvinnslan sendi frá sér jákvæða afkomuviðvörun í síðustu viku þar sem spá félagsins um hagnað fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) fyrir árið 2021 var hækkuð úr 72 til 77 milljónum Bandaríkjadala í 83 til 86 milljónir dala. Þar var meðal annars vísað til þess að kvóti í íslensku síldinni var aukinn og er hún að stórum hluta unnin til manneldis. Til samanburðar var EBITDA-hagnaður félagsins 49 milljónir dala á árinu 2020.

Greinandi Jakobsson segir að verðið á Síldarvinnslunni sé hátt en á móti skuldsetning félagsins lág og eiginfjárhlutfallið er 66 prósent. Hann telur tækifæri í hagstæðari fjármögnun. Rekstraráhætta fyrirtækisins sé lítil og fjármögnun Síldarvinnslunnar á 2,9 prósent vöxtum því nokkuð há miðað við félag í matvælaframleiðslu, fimmtíu ára rekstrarsögu og „nær andskotans enga skuldsetningu,“ eins og segir í verðmatinu.

Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar hefur hækkað um liðlega 70 prósent frá því að fyrirtækið var skráð í Kauphöllina í lok maí á síðasta ári. 

Stærstu hluthafa Síldarvinnslunnar eru Samherji, sem fer með um þriðjungshlut, og eignarhaldsfélagið Kjálkanes, sem heldur utan um rúmlega 17 prósenta hlut, en bæði félögin seldu hluta bréfa sinna í hlutafjárútboðinu sem fór fram í fyrra þegar Síldarvinnslunni var fleytt á markað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.