Innherji

Deilir pólítískri sýn Sólveigar Önnu á hlutverk stéttarfélaga

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Ólöf Helga rataði í fréttir í haust eftir að henni var sagt upp störfum sem hlaðmaður hjá Icelandair.
Ólöf Helga rataði í fréttir í haust eftir að henni var sagt upp störfum sem hlaðmaður hjá Icelandair.

Ólöf Helga Adolfsdóttir er annar tveggja frambjóðanda sem gefið hafa kost á sér til formennsku í stéttarfélagi Eflingar. Ólöf Helga hefur setið í stjórn Eflingar frá árinu 2019, en frá því í byrjun nóvember hefur hún gegnt stöðu varaformanns.

Hún segist deila pólitískri sýn síðasta formanns, Sólveigar Önnu Jónsdóttur, að Efling eigi að vera róttækt stéttarfélag. Nýr formaður og ný stjórn Eflingar verða kosin í mars.

„Efling er stærsta félag verka- og láglaunafólks á Íslandi. Í lok árs eru kjarasamningar lausir og því fylgja risavaxin verkefni. Ásamt stjórn, samninganefnd og trúnaðarráði vil ég leiða Eflingu í gegnum þá samninga,” segir Ólöf Helga.

Hún segir tæpan fjórðung launafólks eiga erfitt með að ná endum saman og konur fremur en karlar.

„Þetta er mikið til veruleiki okkar félagsfólks, sem jafnframt er það fólk sem vinnur þau störf sem halda samfélaginu gangandi, eins og sést hefur í gegnum Covid-faraldurinn.

Lífskjarasamningarnir skiluðu ákveðnum leiðréttingum fyrir þennan hóp, en við eigum mjög langt í land, og þar skipta laun máli, en einnig skattamál, húsnæðismál, barnabætur og húsnæðisbætur, svo nokkur dæmi séu nefnd.”

Við viljum halda áfram baráttunni gegn launaþjófnaði og munum ekki stoppa fyrr en raunveruleg viðurlög eru við því að stela peningum af vinnandi fólki.Vill harðari viðurlög við launaþjófnaði

Ólöf Helga tók við stöðu varaformanns Eflingar af Agniezsku Ewu Ziólkowsku sem tók við stöðu formanns í kjölfar afsagnar Sólveigar Önnu seint á síðasta ári. 

Sólveig Anna ákvað að hætta eftir að starfsfólk Eflingar sendi frá sér vantraustsyfirlýsingu á störf formannsins og lýsti ógnarstjórn innan félagsins. Agniezska hefur lýst yfir stuðningi við Ólöfu Helgu gegn Guðmundi Baldurssyni, sem einnig hefur lýst yfir framboði.

Formannsefni Eflingar, Guðmundur Baldursson og Ólöf Helga Adolfsdóttir. Bæði eiga þau sæti í stjórn. Kosið verður til formanns og stjórnar í mars samkvæmt lögum verkalýðsfélagsins.

„Ég og sitjandi formaður Eflingar, Agniezska, erum samstíga í því að styrkja og efla stöðu trúnaðarmanna. Við höfum báðar gegnt því hlutverki og þekkjum það af eigin raun hversu mikilvægt starf þeirra er til að tryggja réttindi og kjör starfsfólks,” útskýrir Ólöf Helga, en mál hennar rataði í fréttir í haust eftir að henni var sagt upp störfum hjá Icelandair og var þá deilt um hvort hún hafi gegnt stöðu trúnaðarmanns við uppsögnina.

Lífskjarasamningarnir skiluðu ákveðnum leiðréttingum fyrir þennan hóp, en við eigum mjög langt í land

„Við viljum halda áfram baráttunni gegn launaþjófnaði og munum ekki stoppa fyrr en raunveruleg viðurlög eru við því að stela peningum af vinnandi fólki. Við þurfum einnig að halda áfram að efla þjónustu við erlenda félagsmenn sem eru um helmingur okkar fólks,” segir hún.

Ólöf Helga leggur áherslu á að þjónustan við félagsfólk sé hornsteinninn í starfsemi Eflingar, eins og annarra stéttarfélaga. „Hana þurfum við bæði að standa vörð um og byggja upp, samhliða öflugra fræðslustarfi, auknu lýðræði og gagnsæi og bættu aðgengi félaga að upplýsingum.”

Telur breytingar sem urðu í stjórnartíð Sólveigar af hinu góða

Telur þú að breytinga innan félagsins sé þörf frá stjórnartíð Sólveigar Önnu?

„Ég tel að þær breytingar sem hafa orðið á starfsemi og þjónustu Eflingar síðastliðin ár séu af hinu góða. Ég deili þeirri pólitísku sýn að Efling eigi að vera róttækt stéttarfélag sem gefur ekkert eftir í baráttunni fyrir launafólk. Um það er nokkuð rík samstaða innan hreyfingarinnar,” útskýrir hún.

Hinn frambjóðandinn til formanns, Guðmundur, var hluti af B-listanum sem bauð fram krafta sína árið 2018 þegar Sólveig Anna var kjörinn formaður og situr hann í stjórn félagsins. 

Guðmundur sakaði Sólveigu Önnu um að hafa haldið lykilupplýsingum leyndum frá stjórninni til að hylma yfir vanlíðan starfsfólks á skrifstofu Eflingar. Þær deilur urðu opinberar í aðdraganda og um það leyti sem Sólveig Anna tók pokann sinn.

Aðspurð um hvað Ólöf Helga hyggist gera til að lægja öldurnar á skrifstofu Eflingar segir hún vinnustaðaúttekt standa yfir þar sem farið er yfir vinnuaðstæður á skrifstofunni. 

„Þegar hún liggur fyrir verður útbúin aðgerðaáætlun sem við munum vinna eftir. Skrifstofa Eflingar er að miklu leyti góður vinnustaður og það á hún að vera, ekki aðeins starfsfólksins vegna heldur líka þar sem það er best fyrir starfsemi félagsins.”

Ég deili þeirri pólitísku sýn að Efling eigi að vera róttækt stéttarfélag sem gefur ekkert eftir í baráttunni fyrir launafólk.

Kemur beint innan úr baráttunni

Hvað telur þú mikilvægt í fari formanns verkalýðsfélags á borð við Eflingu?

Ólöf Helga segir að eflaust gæti mjög ólíkt fólk sinnt hlutverki formanns Eflingar vel. 

„En fyrir mér skiptir máli að koma að borðinu með reynslu og þekkingu á aðstæðum og kjörum láglaunafólks. Ég kem beint innan úr baráttunni, hef háð hana sem trúnaðarmaður og tekið þátt í starfi Eflingar.”

Hún segir sig og Guðmund vera ólíkt fólk. 

„Við erum hvort af sínu kyninu, á ólíkum aldri og með ólíkan bakgrunn. Sumt erum við sammála um og annað ekki. Mér finnst gott að það sé val um formann og það er mjög gott að stór og fjölbreyttur hópur fólks hefur gefið kost á sér til að starfa fyrir Eflingu. Það er til marks um styrk hreyfingarinnar,” segir hún að lokum.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.