Í stuttu máli eru reglurnar þannig að það skal spilað sama hvað. Ef lið geta mætt með ellefu leikmenn verður spilað, hvort sem einhver leikmannanna er markvörður eða ekki. Lið sem ná ekki að uppfylla þessi skilyrði tapa viðkomandi leik 2-0.
Afríska knattspyrnusambandið hefur þó sagt að í undantekningartilfellum við mjög sérstakar aðstæður verði mögulega litið til þess að víkja frá reglunum. Það verði þó alger undantekning.
Mörg liðanna hafa þurft að breyta undirbúningi sínum fyrir keppnina vegna fjölda smita í hópunum eða í þjálfaraliðunum. Þar má nefna Egypta, sem eru sigursælasta lið keppninnar frá upphafi, en liðið lagði mjög seint af stað á mótið sem hefst á morgun. Þá hafa líka komið upp smit í herbúðum Gíneu, Gabon, Grænhöfðaeyja og Gambíu.