Innherji

Markaðurinn fái ekki „mikla magaverki“ af útgáfu ríkisbréfa í ár

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Miðað við núverandi kjör á markaði megi vænta þess að óverðtryggðir langtímavextir liggi í námunda við 4,5 prósent og sambærilegir verðtryggir vextir um 1,0 prósent.
Miðað við núverandi kjör á markaði megi vænta þess að óverðtryggðir langtímavextir liggi í námunda við 4,5 prósent og sambærilegir verðtryggir vextir um 1,0 prósent. Vísir/Hanna

Áform ríkissjóðs um útgáfu mun lengri skuldabréfa en áður eru jákvæðar fréttir að sögn viðmælenda Innherja á fjármálamarkaði. Löng ríkisskuldabréf gefa lífeyrissjóðum færi á að verja langar skuldbindingar sínar betur en áður og á hærri vöxtum. Auk þess búa þau til raunverulegan viðmiðunarferil fyrir langa vexti og verðbólguvæntingar sem fjármögnun allra annarra í krónum mun taka mið af.

Ársáætlun í lánamálum ríkissjóðs fyrir árið 2022, sem var birt rétt fyrir áramót, gerir ráð fyrir útgáfu ríkisbréfa fyrir um 160 milljarða króna. Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur hjá markaðsviðskiptum Arion banka, segir að miðað við fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár sé upphæðin lægri en hann átti von á.

„Mér sýnist Lánamál ríkisins vera meðvituð um áhrifin sem útgáfan getur haft á markaðinn. Þess vegna er opnað fyrir aðrar leiðir, svo sem að nýta erlenda fjármögnun ríkissjóðs að einhverju leyti, að stækka útistandandi víxlaflokka og að fara út í græna lánsfjármögnun,“ segir Stefán Broddi.

Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur hjá markaðsviðskiptum Arion banka.

Í áætluninni kemur fram að lánsfjárþörfinni verði mætt með því að auka ríkisvíxlaútgáfu og því að hagnýta erlendar innistæður á viðskiptareikningi ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands, sem námu 306 milljörðum króna í lok nóvember. Jafnframt er til skoðunar að gefa út græn skuldabréf undir sjálfbærum fjármögnunarramma ríkissjóðs.

Að sögn Stefáns Brodda getur hrein lántaka upp á 143 milljarða króna haft veruleg áhrif á skuldabréfamarkaðinn og þar með grunnvexti í landinu. 

„Ríkissjóður þarf þess vegna á sterkum fjármálamarkaði að halda til að fjármögnunin gangi sem best enda liðlega 300 milljarðar sem ríkið þarf að fjármagna í ár – bæði endurfjármögnun og ný lántaka. Það skiptir mjög miklu máli fyrir vaxtastig í landinu að ríkinu gangi vel.“

Varðandi skammtímafjármögnun þá hef ég hins vegar áhyggjur af því að harðara peningalegt aðhald um þessar mundir geri verkefnið mun erfiðara en ella.

Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, segir að öfugt við fjármálafrumvarpið sé áætlun Lánamála nokkuð jákvæð fyrir markaðinn þar sem ríkið stefni að því að draga úr útgáfuþörf sinni innanlands, til að mynda með sölu Íslandsbanka og útgáfu erlendis.

„Um 160 milljarða króna útgáfa ríkisbréfa á þessu ári kann að hljóma mikið, en á móti því fellur til lokagjalddagi á ríkisbréfi upp á 95 milljarða króna auk 37 milljarða króna vaxtagreiðslna af ríkisbréfum. Því til viðbótar fá fjárfestar greiddar um 75 milljarða í afborganir og vexti af öðrum ríkistryggðum skuldabréfum,“ útskýrir Agnar Tómas.

„Markaðurinn ætti því að óbreyttu ekki að fá mikla magaverki af útgáfu ríkisbréfa í ár.“

Stefán Broddi telur að með hækkandi langtímavöxtum verði lífeyrissjóðir áhugasamir um lengstu útgáfurnar. „Varðandi skammtímafjármögnun þá hef ég hins vegar áhyggjur af því að harðara peningalegt aðhald um þessar mundir geri verkefnið mun erfiðara en ella – og mun erfiðara en á síðasta ári.“

Fyrirhugað er að gefa út nýjan tuttugu ára óverðtryggðan flokk á árinu, sem og nýjan fimmtán ára verðtryggðan flokk. Agnar Tómas segir að áformin mjög jákvæð.

Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu.

„Útgáfa mjög langra verðtryggðra og óverðtryggðra ríkisbréfa auðveldar skoðanaskipti á lengri tíma verðbólguvæntingum sem og verðlagningu á útgáfum ýmissa opinberra aðila sem hafa gefið út talsvert lengri skuldabréf en ríkissjóður,“ segir Agnar Tómas.

Hann bætir við að miðað við núverandi kjör á markaði megi vænta þess að óverðtryggðir langtímavextir liggi í námunda við 4,5 prósent og sambærilegir verðtryggir vextir um 1,0 prósent. Það er langtum hærra en í flestum vestrænum ríkjum sem hafa svipað lánshæfi og íslenska ríkið.

Útgáfa mjög langra verðtryggðra og óverðtryggðra ríkisbréfa auðveldar skoðanaskipti á lengri tíma verðbólguvæntingum.

„Það má reikna með að lengd skuldabréfanna og kjör falli ágætlega í kramið hjá lífeyrissjóðskerfinu þar sem það gefur sjóðunum færi á að verja langar skuldbindingar sínar betur en áður og á hærri vöxtum,“ segir Agnar Tómas.

Stefán Broddi tekur í sama streng. „Mér finnst mjög jákvætt að ríkissjóður ætli að gefa út nýja langa flokka. Það samræmist fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða og erlendra langtímafjárfesta og býr til raunverulegan viðmiðunarferill langra vaxta og verðbólguvæntinga sem fjármögnun allra annarra í krónum mun taka mið af.“


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×