Viðskipti innlent

Frið­rik ráðinn fram­kvæmda­stjóri nýrrar Svið­lista­mið­stöðvar

Atli Ísleifsson skrifar
Friðrik Friðriksson hefur störf þann 1. febrúar.
Friðrik Friðriksson hefur störf þann 1. febrúar. Aðsend

Friðrik Friðriksson, leikari og framkvæmdastjóri Tjarnarbíós, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Sviðslistamiðstöðvar Íslands og hefur hann störf 1.febrúar næstkomandi.

Í tilkynningu segir að Sviðslistamiðstöð Íslands, sem hafi verið formlega stofnuð um mitt ár 2021, gegni því hlutverki að styðja íslenskar sviðslistir og auka sýnileika þeirra og hróður innan lands sem utan.

„Tilgangi sínum hyggst miðstöðin ná með öflugu kynningarstarfi og sértækum átaksverkefnum sem hvetja til alþjóðlegra tengsla sviðslistafólks og sviðslistastofnana á Íslandi.

Friðrik Friðriksson brautskráðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1998. Hann var fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið um árabil og fékkst auk þess jöfnum höndum við leikstjórn og sjónvarpsleik. Árið 2014 söðlaði hann um, hóf nám við Háskólann í Reykjavík og lauk þaðan MBA-prófi árið 2016. Friðrik hefur síðastliðin ár verið framkvæmdastjóri Tjarnarbíós.

Friðrik gegnir hlutverki ritara í stjórn Evrópusamtaka sjálfstæðra sviðslista – European Association of Independent Performing Arts. Hann var meðstjórnandi í stjórn Ice Hot Nordic Dance á árunum 2017–2019. Í störfum sínum fyrir Tjarnarbíó hefur Friðrik komið sér upp víðtæku alþjóðlegu tengslaneti sem mun nýtast honum í hlutverki framkvæmdastjóra Sviðslistamiðstöðvar Íslands.

Friðrik mun ábyrgjast daglegan rekstur Sviðslistamiðstöðvar Íslands, leiða uppbyggingu hennar og móta framtíðarsýn miðstöðvarinnar í samráði við stjórn,“ segir í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×