Skoðun

Vest­firðir við árs­lok 2021

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir skrifar

Vestfirðir eru í sókn. Færin eru fjölmörg og ef horft er til ársins 2021 má segja að nokkrum góðum áföngum hafi verið náð á árinu. Rétt er við áramót að staldra við og líta til baka og reyna að meta hvað beri hæst á árinu varðandi þróun samfélaga og atvinnulífs á Vestfjörðum.

1. Samfélagssáttmáli í fiskeldi. Fiskeldissveitarfélögin á Vestfjörðum gerðu með sér sáttmála um að standa sameiginlega að hagsmunagæslu í fiskeldi og tengdum atvinnugreinum á Vestfjörðum. Sveitarfélögin hafa hér sett sér að markmiði að efla atvinnulíf og mannlíf með heildarhagsmuni Vestfjarða að leiðarljósi. Meginatriði í sameiginlegri hagsmunagæslu í næstu skrefum er að knýja fram breytingar á lögum um fiskeldi og þá sérstaklega varðandi þá sjálfsögðu kröfu að auðlindagjöld sem atvinnugreinin skilar í sjóði hins opinbera renni til samfélaganna til uppbyggingar innviða sveitarfélaga á svæðinu. Þá er sérstaklega horft annars vegar til fiskeldissjóðs en hins vegar til uppbyggingar gjaldtöku sveitarfélaga, aflagjalds sem er gjaldtaka sjávarútvegs en hentar ekki fiskeldi og þeirri þjónustu sem sú atvinnustarfsemi krefst.

2. Viðurkenning Lonely Planet og Vestfjarðaleiðin. Vestfirðir urðu efstir á lista yfir svæði til að heimsækja árið 2022 í árlegu vali ferðabókaútgefandans Lonely Planet yfir lönd, svæði og borgir til að heimsækja. Val Lonely Planet mun beina kastljósi heimsbyggðarinnar að Vestfjörðum sem mun reynast mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu og á Íslandi almennt. Vestfjarðaleiðin hefur nú verið opin í rúmt ár og hefur fengið mikla athygli og á mikið inni. Greina mátti aukinn áhuga á svæðinu strax í kjölfar tilkynningar um viðurkenninguna bæði varðandi heimsóknir og fjárfestingar.

3. Útsýnispallur á Bolafjalli. Þó ekki hafi náðst að halda formlega opnun útsýnispallsins á Bolafjalli þá er hann kominn upp. Útsýnispallurinn er stórvirki og mun á næstu árum sanna gildi sitt sem stórkostlegur segull fyrir ferðaþjónustu á Vestfjörðum.

4. Afnám G-reglu Vegagerðarinnar, lagning ljósleiðara og þrífösun rafmagns í Árneshreppi. Einhverjir gætu sagt að þessir áfangar séu smámál. Fyrir íbúa í Árneshreppi og á Vestfjörðum öllum voru þetta þó risaskref og viðurkenning á tilvist og tilverurétti þess samfélags sem þar er.

5. Samgönguframkvæmdir í Gufudalssveit og Dynjandisheiði. Við erum byrjuð að sjá framkvæmdir bæði í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði. Við erum farin að keyra á nýjum vegaspottum á báðum stöðum, ekki löngum en hver einasti kílómetri telur. Útboð eru nú í gangi og vonandi getum við í lok næsta árs sagt að við sjáum til lands í þessum stóru framkvæmdum. Málið snýst nú um aðeins 30 km. sem enn eru eftir af 70 ára gömlum vegaslóðum á leiðinni frá Patreksfirði til Reykjavíkur og til viðbótar 20 km. á leiðinni Ísafjörður – Reykjavík um Vestfjarðaveg 60. Þessir alls 50 km. af ónýtum vegi munu umbreytast í 28 km. af nýjum vegi. En fögnum samt ekki verklokum fyrr en klippt er á borðann!

6. Stórframkvæmdir við Sundahöfn á Ísafirði. Dýpkun er hafin, stálþilið komið, hús hafa verið byggð á hafnarsvæðinu og fleiri eru í byggingu og var gólfplata steypt í nýbyggingu Hampiðjunnar þann 17. desember síðastliðinn. Við munum á næstu árum sjá stórkostlegar breytingar á hafnarsvæðinu og svæðið mun verða eitt stærsta atvinnusvæði á Vestfjörðum.

7. Framkvæmdagleði á sunnanverðum Vestfjörðum. Miklar framkvæmdir hafa verið á Patreksfirði við ofanflóðavarnir, malbikunarframkvæmdir í byggðakjörnum, hafnarframkvæmdir á Bíldudal. Ásýnd bæjanna hefur breytst, húsin löguð, máluð, sólpallar í byggingu og almenn framkvæmdagleði.

8. Samningar um kalkþörungaverksmiðju á Súðavík. Á árinu var skrifað undir samninga um byggingu kalkþörungaverksmiðju í Súðavík og hafnaraðstöðu. Það mun hafa í för með sér miklar framkvæmdir í Súðavík á næstu árum.

9. Byggingaframkvæmdir á Vestfjörðum. Í flestum sveitarfélögum eru byggingarframkvæmdir komnar af stað eða í bígerð. Nefna má nemendagarða á Flateyri, íbúðarhús á Reykhólum, fjölbýlishús á Bíldudal, raðhús og íbúðir í Bolungarvík, húsbyggingar í Tunguhverfi á Ísafirði, byggingu iðnaðarhúsnæðis á Þingeyri, íbúðarhús við nýja götu á Drangsnesi svo nokkur atriði séu nefnd.

10. Nýsköpun á Vestfjörðum. Umtalsverð nýsköpun er á svæðinu og hugur í mörgum fyrirtækjum. Stórfyrirtækið Kerecis hefur vakið athygli víða um heim, fyrirtæki eins og Arna og Dropi í Bolungarvík, Skaginn/3X á Ísafirði og fjölmörg smærri fyrirtæki í matvælaframleiðslu sem hafa verið að vinna athyglisverð nýsköpunarverkefni á árinu.

Hér er ekki um að ræða tæmandi lista yfir allt sem er að gerast á Vestfjörðum og margt fleira spennandi að gerast til dæmis í tengslum við orkuskipti sem er í bígerð en ekki búið að raungerast. Má þar til dæmis nefna skref sem Ísafjarðarbær er að taka í samstarfi við Bláma um kaup á orkuskiptum dráttarbát og stofnun Grænorkuklasa svo fátt eitt sé nefnt. Það er þó svo að framvinda varðandi orkuskipti á Vestfjörðum er háð niðurstöðu varðandi flutningskerfi og framleiðslu raforku á svæðinu.

Færumst við nær framtíðarsýninni?

Rétt er að spyrja þó hvort við höfum gengið veginn til góðs? Hvort skrefin sem við tókum á árinu færi okkur nær framtíðarsýninni sem sett var fram í Sóknaráætlun Vestfjarða árið 2019? Þá var horft til ársins 2030 og dregin upp mynd af eftirsóknarverðri stöðu:

Vestfirðir eru framúrskarandi svæði til að búa, starfa, heimsækja og njóta hreinnar náttúru og kyrrðar. Þar er öflugt, vaxandi alþjóðlegt þekkingarsamfélag sem einkennist af kraftmikilli sköpun, sterkri sjálfsmynd og umhverfisvitund. Góðir innviðir, öflug samfélagsleg þjónusta og fjölbreytt atvinnulíf sem einkennist af virðingu fyrir umhverfi, samfélagi og auðlindum.

Þetta er falleg framtíðarsýn en Vestfirðir, einir landshluta, settu forsendur eða fyrirvara í sína sóknaráætlun vegna þess að staða innviða svæðisins eru þannig að það er mat þeirra sem komu að vinnu við Sóknaráætlun Vestfjarða að ekki sé mögulegt að ná framtíðarsýn eða markmiðum sóknaráætlunar nema stjórnvöld geri stórátak í að leiðrétta samkeppnisstöðu svæðisins miðað við aðra landshluta.

Forsendur árangurs Sóknaráætlunar

Settar voru níu forsendur fyrir árangri Sóknaráætlunar og segja má að einhver árangur hafi náðst í þeim stóru málum sem varða samkeppnisstöðu svæðisins. Forsendurnar vörðuðu sérstaklega stór innviðamál svæðisins svo sem samgöngu, raforku og húsnæðismál auk þeirrar forsendu að lög og reglugerðir um nýtingu auðlinda séu skýr og þeim fylgt.

Forsenda varðandi raforkumál er sú sem vert er að hafa mestar áhyggjur af og er í raun ein stærsta fyrirstaða þróunar og uppbyggingar á Vestfjörðum. Það er að flutningskerfi raforku á Vestfjörðum verði samkeppnishæft við aðra landshluta. Það sést glöggt í greiningum í kerfisáætlun Landsnets hve Vestfirðir eru langt á eftir öllum öðrum landshlutum varðandi flutningskerfi raforku. Árið 2018 var samþykkt á Alþingi þingsályktun þar sem Vestfirðir ásamt Eyjafjarðarsvæðinu og Suðurnesjum voru sett í „forgang“ þegar kæmi að því að treysta flutningskerfi raforku, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt.

Vissulega hafa verið stigin skref frá þessum tíma varðandi flutningskerfi raforku á Vestfjörðum, sérstaklega innan Vestfjarða, en ekki er hægt að sjá þann forgang í kerfisáætlun Landsnets er varðar tengingu við meginflutningskerfið, nema ef hægt er að kalla það forgang að Vestfirðir eru komnir á blað – og ekki neðanmálsgrein.

Varasamt er að blanda saman flutningskerfi raforku og framleiðslu á raforku innan svæðisins. Hvort tveggja skiptir máli, en hvort sem meiri orka er framleidd á svæðinu eða ekki, þarf flutningskerfið innan Vestfjarða og tengingin við Vestfirði að vera í lagi. Hvalárvirkjun, hugmyndir um Vatnsfjarðarvirkjun, vindorkuver í Garpsdal og margt fleira byggir á því að flutningskerfi raforku sé fullnægjandi.

Uppbygging dreifikerfis raforku sem er á ábyrgð Orkubús Vestfjarða hefur einnig tekið verulegum framförum. Eins er jákvætt skref sem lætur ekki mikið yfir sér, en stefnt er að leggja aukið fjármagn í fjárlögum 2022 sem á að tryggja 100 % jöfnun á kostnaði við dreifingu raforku í dreifbýli.

Þrátt fyrir að áfangar hafi náðst varðandi afhendingaröryggi raforku þá eru stór fyrirtæki á svæðinu sem enn þurfa að reiða sig á skerðanlega orku. Þessi fyrirtæki verða fyrir miklu tjóni þegar skerðanleg orka er takmörkuð.

Ný úttekt Landsnets

Þann 15. desember síðastliðinn kom út mjög fín úttekt sem Landsnet gerði á mögulegum sviðsmyndum við að auka afhendingaröryggi á Vestfjörðum. Mjög fín úttekt en í þessari skýrslu er bara miðað við núverandi notkun og núverandi stöðu. Í skýrslunni er hvergi gert ráð fyrir aukningu á raforkunotkun á Vestfjörðum. Auk þess er hreinlega ekki gert ráð fyrir Ströndum.

Í úttekt Landsnets kemur þó skýrt fram að ekki er nægilegt að huga aðeins að tvöföldun flutningskerfis innan svæðis og virkjunum, heldur verður að gera ráð fyrir tvöföldun Vesturlínu frá Hrútatungu að Mjólká eða í Ísafjarðardjúp.

Næsta skref hlýtur að vera að hugsa um framtíðina. Það mun verða stóraukin raforkunotkun á Vestfjörðum á næstu árum. Með auknu fiskeldi og ferðaþjónustu og orkuskiptum á öllum sviðum, ekki síst í sjávarútvegi og fiskeldi þarf meiri hreina orku.

Í úttekt Landsnets er í raun stuðst við þróun fortíðar en ekki stuðst við framtíðarsýn svæðisins, ekki er stuðst við sviðsmyndir um mögulega þróun svæðisins sem unnar hafa verið á undanförnum árum. Gera þarf úttekt sem byggir á framtíðarsýn sem styður vöxt, ekki stöðnun. Framtíðarsýn sem gerir ráð fyrir orkuskiptum í höfnum, sem gerir ráð fyrir vindorkuverum, sem gerir ráð fyrir sókn vestfirsks atvinnulífs og möguleikanum á að á Vestfjörðum búi 10.000 manns árið 2030. Við köllum eftir að hugað sé að sviðsmyndinni Vestfirðir í Sókn!

Samkeppnisstaða atvinnulífs

Til að framtíðarsýnin fallega verði að veruleika þarf atvinnulíf á Vestfjörðum að búa við sambærilega umgjörð og fyrirtæki í öðrum landshlutum. Orkumálin vega þarna þungt en einnig samgöngur, fjarskipti og menntun.

Ef það er dýrara, erfiðara og flóknara að reka fyrirtæki á Vestfjörðum en á öðrum stöðum á landinu gefur það auga leið að fyrirtækin ná ekki að vaxa og dafna. Hætt er líka við að fyrirtækin hafi minni getu til að sinna þeirri nýsköpun og þróun sem nauðsynleg er til að keppa við sambærileg fyrirtæki í öðrum landshlutum, hvað þá öðrum löndum.

Einnig er þá mögulegt að atvinnulíf svæðisins geti ekki haldið í við þróun og missi hreinlega af tækifærum til vaxtar.

Þarna skiptir líka máli að sveitarfélögin geti búið fyrirtækjunum þá umgjörð sem mikilvæg er til að fólk fáist til starfa. Að sveitarfélögin geti veitt góða þjónustu, rekið skóla, tómstundastarf, menningu, hafnir, sinnt skipulagsmálum og almennt sinnt sínum íbúum vel. Séu framúrskarandi staðir til að búa, starfa og heimsækja.

Áherslu þarf að leggja á að byggja upp öflug atvinnusvæði þar sem fólk getur áhyggjulaust farið sinna ferða jafnt að sumri sem vetri. Til þess þarf jarðgöng bæði á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum. Til þess þarf framúrskarandi vetrarþjónustu á vegum innan atvinnusvæðanna þangað til hin endanlega lausn, jarðgöng, er komin.

Dauðafærið og leikreglurnar

Ég hef áður skrifað um „Dauðafæri Vestfjarða“. Við erum enn í þessu dauðafæri en við munum ekki „skora“ ef leikreglurnar eru þannig að markið er í raun lokað. Það eru mannanna verk sem loka markinu og stjórnvöld þessa lands gætu ef vilji væri til gert leikreglurnar þannig úr garði að hægt sé að nýta dauðfærið að efla byggð á Vestfjörðum og nýta þau gríðarlegu tækifæri sem hér eru. Leikreglurnar í þessu tilfelli eru lög og reglugerðir um nýtingu auðlinda og jafnframt um það hvert gjöld sem fyrirtæki greiða vegna nýtingar auðlinda renna. Við erum mjög meðvituð um mikilvægi þess að nýting auðlinda svæðsins þarf að vera sjálfbær og að í hinni óspilltu náttúru Vestfjarða liggur framtíð svæðisins. Leikreglur þurfa að vera skýrar og þeim þarf að fylgja. Umsóknir um leyfi til atvinnustarfsemi mega ekki daga uppi árum saman á skrifborðum stofnana sem kjósa að afgreiða ekki umsóknir og bera við manneklu.

Þar skiptir miklu máli að sveitarfélögum á svæðinu sé gert kleift að byggja upp sína innviði til að takast á við eflingu atvinnulífs, einkum tengt uppbyggingu í fiskeldi hér á Vestfjörðum. Einfaldasta leiðin til þess er að lögum um fiskeldissjóð verði breytt og hann allur gerður að tekjustofni sveitarfélaga þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað í stað þess að vera úthlutunarsjóður og aðeins hluti tekna hans komi til úthlutunar. Þannig má að fremur einfaldan hátt styrkja umtalsvert stöðu sveitarfélaga á svæðinu til að þau geti sinnt þjónustu við íbúa og atvinnulíf með öflugri hætti en nú er.

Baráttumál ársins 2022

  1. Að lögum um fiskeldi verði breytt til að tryggja að fiskeldissveitarfélög njóti auðlinda sinna, að fiskeldissjóður verði gerður að tekjustofni sveitarfélaganna og komi allur til þeirra.
  2. Að niðurstaða fáist í hina langdregnu og að virðist stundum endalausu baráttu okkar Vestfirðinga fyrir samkeppnishæfri grunngerð. Við sjáum til lands varðandi stór samgöngu- og fjarskiptamál ef marka má gildandi áætlanir. Nú eru það raforkumálin.

Höfundur er framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×