Innherji

Arðgreiðslur og kaup á eigin bréfum ekki verið meiri frá fjármálahruni

Hörður Ægisson skrifar
Miklar útgreiðslur til hluthafa skýrast einkum af rekstrarbata flestra félaga í Kauphöllinni og góðrar arðsemi þeirra heilt yfir. Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 33 prósent frá áramótum.
Miklar útgreiðslur til hluthafa skýrast einkum af rekstrarbata flestra félaga í Kauphöllinni og góðrar arðsemi þeirra heilt yfir. Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 33 prósent frá áramótum. VÍSIR/VILHELM

Fyrirtæki í Kauphöllinni hér á landi hafa greitt til hluthafa sinna meira en 80 milljarða króna á þessu ári í formi arðs og metkaupa á eigin bréfum. Aukningin á milli ára er tæplega 50 milljarðar, eða sem nemur um 150 prósentum.

Þar munar langsamlega mest um Arion banka sem hefur staðið fyrir arðgreiðslum og endurkaupum að fjárhæð rúmlega 30 milljarða á árinu 2021.

Samanlagðar arðgreiðslur og kaup félaganna á eigin bréfum hafa ekki verið meiri á einu ári frá því að hlutabréfamarkaðurinn var endurreistur eftir fjármálahrunið 2008. Sem hlutfall af heildarmarkaðsvirði fyrirtækja í Kauphöllinni um þessar mundir eru greiðslurnar hins vegar svipaðar því sem við höfum séð á undanförnum árum, eða rétt yfir þrjú prósent.

Þetta leiðir samantekt Innherja í ljós en viðmælendur á fjármálamarkaði segja þessar miklu útgreiðslur til hluthafa einkum skýrast af rekstrarbata flestra skráðra félaga og góðrar arðsemi þeirra heilt yfir. Það hefur jafnframt skilað sér í miklum verðhækkunum hlutabréfa en Úrvalsvísitalan hefur hækkað um liðlega 33 prósent frá áramótum.

Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar Arctica Finance, segir í samtali við Innherja að rekstur fyrirtækja í Kauphöllinni hafi almennt gengið vel á undanförnum misserum og faraldurinn ekki valdið þeim teljandi rekstrarerfiðleikum, ef undan er skilið Icelandair.

Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar Arctica Finance.

„Sum fyrirtækjanna hafa jafnvel notið góðs af breyttri neysluhegðun neytenda og lágt vaxtastig hefur einnig lækkað fjármagnskostnað. Stór hluti arðgreiðslna er síðan vissulega frá fjármálafyrirtækjum enda voru áður takmarkanir á útgreiðsluheimildum þeirra til hluthafa sem voru rýmkaðar,“ segir Valdimar.

Mikið umfram eigið fé eftir arðgreiðslubann

Aðrir sérfræðingar á markaði sem Innherji leitaði til taka í sama streng. Að sögn Þorsteins Andra Haraldssonar hjá sjóðastýringarfyrirtækinu Stefni má mestu breytingarnar á milli ára rekja til fjármálafyrirtækjanna sem sátu á umtalsverðu umfram eigið fé þegar arðgreiðslubanni Seðlabankans var skellt á í fyrra samhliða því að reksturinn tók nokkuð vel við sér eftir því sem leið á árið 2020.

Sum fyrirtækjanna hafa jafnvel notið góðs af breyttri neysluhegðun neytenda og lágt vaxtastig hefur einnig lækkað fjármagnskostnað.

Í ársbyrjun 2021 var þessum hömlum aflétt sem gerði fjármálafyrirtækjum í kjölfarið kleift að hefja á ný útgreiðslur til hluthafa sinna.

„Tryggingafélögin hafa sem dæmi,“ útskýrir Þorsteinn Andri, „skilað hluthöfum sínum um 11 milljörðum króna á þessu ári og bankarnir um 39 milljörðum, en á síðasta ári greiddu þau hluthöfum samanlagt um 5 milljarðar. Þá ber einnig að nefna breytingar á fjármagnsskipan hjá Símanum og Eimskip, þar sem Síminn færði niður hlutafé sitt um 8 milljarða og Eimskip um 1,7 milljarð.“

Gísli Halldórsson, sjóðstjóri hlutabréfa hjá Íslandssjóðum, segir að það sem standi upp úr á árinu sem er að líða sé frábært hluthafaár og góð ávöxtun á mörkuðum. Þá sé einnig markvert að arðgreiðslur og endurkaup skráðu félaganna séu samanlagt umtalsvert meiri en áður hefur sést síðastliðinn áratug.

Gísli Halldórsson, sjóðstjóri hlutabréfa hjá Íslandssjóðum.

„Þar spila auðvitað ýmsir þættir saman, meðal annars arðgreiðslubann Seðlabankans á fjármálafyrirtæki, auk þess sem önnur fyrirtæki voru eðlilega nokkuð varfærin í sínum greiðslum til hluthafa árið 2020. Var það ýmist vegna varúðarsjónarmiða eða hugsanlegra tækifæra í formi yfirtaka. Rekstur ársins 2020 var síðan talsvert umfram væntingar og 2021 hefur verið feiknasterkt sömuleiðis sem hefur orsakað töluvert umfram eigið fé hjá mörgum félögum. Það eru svo ekki síst tíðindi að þrátt fyrir þessar miklu útgreiðslur í fyrra borgaði langstærsta félag markaðarins, Marel, minna til hluthafa, eða um 6,2 milljarða króna, en síðastliðin fimm ár á undan sem er komið til vegna yfirtökustefnu félagsins,“ að sögn Gísla.

Hann bendir einnig á að skoða þurfi arðgreiðslur og endurkaup félaganna í samanburði við markaðsvirði þeirra hverju sinni.  „Verðhækkanir síðustu ára, ásamt nýskráningum, hefur orðið til þess að heildarmarkaðsvirði skráðu félaganna hefur aukist verulega og því eru þessar útgreiðslur til hluthafa sem hlutfall af markaðsvirði fyrirtækjanna á þessu ári í nokkuð svipuðum takti og hefur verið á undanförnum árum,“ segir Gísli.

Endurkaupin toppa arðgreiðslur frá 2015

Miklar útgreiðslur til hluthafa á árinu stafa fyrst og fremst vegna kaupa fyrirtækja á eigin bréfum en slík endurkaup, sem hafa aukist verulega í Kauphöllinni á síðustu árum, námu samtals 61 milljarði króna borið saman við aðeins 13 milljarða á árinu 2020. Frá 2015 nema endurkaup fyrirtækja í Kauphöllinni samanlagt yfir 170 milljörðum króna á meðan arðgreiðslurnar yfir sama tímabil eru samtals um 140 milljarðar.

Rétt eins og arðgreiðslur eru kaup á eigin bréfum ein leið fyrir stjórnendur skráðu félaganna til að koma fjármunum sem þeir álíta vera umfram eigið fé í rekstrinum til hluthafa. Slík endurkaup fela í sér að félögin kaupa eigin bréf og afskrá þau síðan af markaði. Með því lækkar hlutafé félagsins og því eru færri bréf sem eiga tilkall til hagnaðar þannig að virði hvers hlutabréfs ætti að hækka í hlutfalli við þau sem eru tekin af markaði.


Tengdar fréttir

Seðlabankastjóri segir bönkunum að leggja peninga til hliðar

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi fjármálastöðugleikanefndar í morgun að það væri vel við hæfi að bankarnir myndu tafarlaust byrja að leggja peninga til hliðar. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans hefðu hjálpað bönkunum að draga úr útlánatöpum.

Stjórnendur Arion banka telji eigin bréf vanmetin

Arion banki hefur fengið heimild frá Fjármálaeftirlitinu til kaupa á eigin bréfum fyrir um 8 milljarða króna. Lektor í fjármálum segir þetta til marks um að þrátt fyrir miklar hækkanir á virði bréfa í bankanum, telji stjórnendur bréfin enn vanmetin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×