Innherji

Áskoranir og sóknarfæri 2022: Þarf að endurskoða úrelt viðhorf

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Sigríður Mogensen, Lilja Alfreðsdóttir og Kristrún Frostadóttir.
Sigríður Mogensen, Lilja Alfreðsdóttir og Kristrún Frostadóttir.

Lilja Alfreðsdóttir segir að verðbólguþróunin verði stærsta áskorunin til skamms tíma, þar sem hrávöruverð á heimsvísu hefur hækkað um næstum 90 prósent og gámaverð um 500 prósent frá því ársbyrjun 2020.

Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingar, segir að mesta áskorunin í íslensku atvinnulífi á næsta ári verði ójafnvægi í efnahagslífinu. Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, segir mestu áskorunina á næsta ári snúa að vinnumarkaði og endurnýjun kjarasamninga.

Innherji leitaði til þeirra til að grennslast fyrir um hverjar þær teldu helstu áskoranir atvinnulífsins á næsta ári en ekki síður hvar sóknarfærin liggja, að þeirra mati.

Húsnæðisverð bitnar ekki bara á launþegum

Kjarasamningar verða til umræðu og nú er mikilvægt að horfa til samvinnu, segir Kristrún. „Gríðarlegar hækkanir á húsnæðisverði bitna ekki bara á launþegum, heldur leka þær út í launakröfur og þar með kostnað fyrirtækja,” segir hún.

Íbúðaverð hafi hækkað um 50 prósent umfram ráðstöfunartekjur á síðustu 30 árum og enn meira ef horft er á fólk undir fertugu. 

„Ljóst er að spennan á íbúðamarkaði skapar gríðarlegan kostnað fyrir fyrirtækin í landinu. Nú þarf að endurskoða úrelt viðhorf um að ríkið eigi ekki að vera virkt í efnahagsmálum,”segir hún.

Fyrirtæki, sér í lagi lítil og meðalstór, þar sem launakostnaður er meirihluti rekstrarkostnaðar, eigi allt sitt undir virku velferðarkerfi og aðgerðum á vegum hins opinbera sem draga úr þörf á launahækkunum, segir Kristrún.

„Norræn velferðarsamfélög sem byggja á öflugu velferðarríki í samvinnu við einkaframtak miða einmitt að jákvæðu viðmóti fyrirtækja til ríkisaðgerða, þá sér í lagi kjarabótum sem tryggja jafnvægi á vinnumarkaði,” segir hún.

Ósjálfbærar launahækkanir bitna á vexti

Mesta áskorunin á næsta ári snýr án efa að vinnumarkaði og endurnýjun kjarasamninga, telur Sigríður. 

„Frekari ósjálfbærar launahækkanir munu bitna á vexti íslensks atvinnulífs til framtíðar. 

Þá þarf rammi kjarasamninga að taka mið af því að íslenskt atvinnulíf og hagkerfi er að breytast hratt, meðal annars með vexti hugverkaiðnaðar. 

Það skiptir miklu máli að eiga yfirvegaða umræðu og samtal um að hagsmunir atvinnulífs og heimila fara saman, segir Sirrý og bætir við að eftir heimsfaraldur og aðrar áskoranir „meðal annars í tengslum við hækkun flutnings- og hráefniskostnaðar, á síðustu misserum er mikilvægt að iðnaður og atvinnulífið allt fái súrefni og svigrúm til vaxtar,” segir hún. 

„Það er í þágu alls samfélagsins. Þá verða loftslags- og orkumál einnig í brennidepli en ryðja þarf úr vegi hindrunum í raforkukerfinu. Eins og við höfum séð skýrt síðustu vikur hafa veikleikar í raforkukerfinu dregið úr verðmætasköpun og komið illa við efnahagslífið. Við því verður að bregðast strax enda kallar styrking kerfisins á framkvæmdir sem telja í árum en ekki mánuðum.”

Vextir ekki hækkað eins og í Evrópu

Lilja ræðir viðvarandi framboðstruflanir vegna farsóttarinnar ásamt umfangsmiklum stuðningsaðgerðum hins opinbera. 

„Þessi staða hefur leitt til þess að verðbólga hefur verið að mælast um tæp 7 prósent í Bandaríkjunum og í Evrópu um 5 prósent. Verðbólga á Íslandi hefur verið yfir 4 prósent frá áramótum og mældist 4,8 prósent í nóvember þar sem stærsti þátturinn er húsnæðisliðurinn, en undirliggjandi verðbólga mælist minni,” segir Lilja.

Tveir meginstraumar hafa verið ráðandi, að sögn Lilju. „Annars vegar er það metið að um tímabundinn verðbólguþrýsting sé að ræða og því hafa vextir ekki hækkað eins og í Evrópu. 

Hins vegar nefna aðrir að þessi verðbólga sé óumflýjanleg vegna mikilla örvunaraðgerða hins opinbera. Það mun skipta mjög miklu máli hvor þróunin verður ofan á – eitt er þó víst að það er óvissa til staðar og hún ein og sér, er slæm fyrir væntingar á mörkuðum,” segir hún.

Temprun íbúðamarkaðar

Sóknarfærin liggja meðal annars í endurskoðun á viðhorfi til þátttöku ríkisins í að tempra íbúðamarkaðinn og barnabætur, segir Kristrún. 

„Sem er ekkert annað en skattalækkun á barnafólk á kostnaðarþungu tímabili í lífi þess. Efnahagslegur stöðugleiki sem af virkum efnahagsaðgerðum og uppfærslu á velferðarkerfunum okkar hlýst skapar þannig sterkan grundvöll til að sækja fram,” segir Kristrún.

„Stærstu sóknarfærin í dag í íslensku atvinnulífi eru á sviði alþjóðageirans og í hugvitsgreinum og stórar áskoranir á borð við loftslagsmálin falla þar undir. Samstarf hins opinbera og einkageirans á þessu sviði er mikilvægt, við þurfum að horfa á loftslagsmálin sem tækifæri til að skapa nýja tegund starfa hér á landi sem hæfir menntun og þekkingu fólks. 

Grunnurinn að vexti slíkra greina er fólk, enda samkeppni á alþjóðavísu um einstaklinga í slík störf sem eru hreyfanleg. Hér þarf því að vera eftirsótt að búa og kostnaður við að lifa skiptir því öllu máli.”

Vöxtur hugverkaiðnaðar skiptir sköpum

Áframhaldandi fjárfesting í nýsköpun og tilheyrandi vöxtur hugverkaiðnaðar er stærsta sóknarfærið,” segir Sigríður.

„Árið 2021 var metár í fjárfestingu í nýsköpun hér á landi. Það eru ómæld tækifæri í vexti hugverkaiðnaðar, sem hefur nú fest sig rækilega í sessi sem fjórða stoðin í verðmætasköpun og útflutningi. Tími uppskeru er framundan en ný ríkisstjórn veðjar á nýsköpun í iðnaði og er það skynsamlegt veðmál,” segir hún og bætir við. 

„Vöxtur hugverkaiðnaðar mun draga úr sveiflum í efnahagslífinu til framtíðar og skapa eftirsótt og verðmæt störf.“

Vaxa úr þrengingum

Lilja segir aðra stóra áskorun verða að tryggja kröftuga verðmætasköpun í samfélaginu með tilheyrandi aukningu í nýjum útflutningstekjum. „Þetta fer saman hönd í hönd - markmið ríkisstjórnarinnar um að vaxa út úr þeim efnahagsþrengingum vegna heimsfaraldursins í stað þess að skera niður."

„Burðarársinn á þessari vegferð verður ferðaþjónustan sem getur á stuttum tíma skapað gríðarlegar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið, þó að gengi hennar verði vissulega háð þróun heimsfaraldursins og árangri í bólusetningum,” segir Lilja.

„Við höfum strax hafist handa við að tryggja aukna fjármuni í kynningu á Íslandi sem áfangastað undir heitinu Saman í sókn sem Íslandsstofa heldur utan um og búa þannig í haginn þegar að fólksflutningar hefjast að nýju,” segir hún.

„Á næstu árum sjáum við einnig mörg tækifæri, til viðbótar við grunnatvinnuvegi þjóðarinnar, í skapandi greinum sem hafa jákvæð áhrif á ýmsum sviðum samfélagsins,” segir Lilja.

Tækifæri í orkunni

Sigríður segir sóknarfæri í nýsköpun og tækniþróun og aukinni orkuöflun. 

„En þetta þarf að koma saman í auknum mæli til að bregðast við loftslagsvandanum. Það er hin hliðin á þeirri áskorun sem loftlagsvandinn vissulega er. Íslenskur iðnaður er nú þegar á fleygiferð. Hér liggja mikil sóknarfæri og getum við haft samkeppnisforskot á aðrar þjóðir í þessum efnum, meðal annars í þróun grænna lausna og útflutningi á því sviði.”


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×