Pétur Bjarnason, annar eigandi fasteignafélagsins Klettáss sem á Norðurtorg, segir spennandi tíma fram undan á Akureyri. Þar með hefur tekist að leigja út allt rými í nýja 11 þúsund fermetra verslunarkjarnanum sem fyrir breytingar gekk undir nafninu Sjafnarhúsið.
„Þetta er búið að vera í pípunum í nokkra mánuði og við gengum frá þessu 23. desember. Þegar við erum að tala um Covid og menn í útlöndum sem eru að skrifa undir þá er þetta alltaf erfiðara,“ segir Pétur í samtali við Vísi.
„Þetta er mjög spennandi, ekki bara fyrir okkur heldur bara allt samfélagið á Norðurlandi. Þetta verður stærsta íþróttavöruverslun á svæðinu.“

Rúmfatalagerinn og Ilva hafa verið með verslanir á Norðurtorgi frá því að kjarninn var opnaður í sumar og Bónus opnar þar verslun á næsta ári.
Klettás hyggst á næstunni leggja fram breytingu á deiliskipulagi og vonast til að geta byggt allt að 20 þúsund fermetra til viðbótar á svæðinu en fasteignafélagið á einnig nærliggjandi lóð við Sjafnargötu 1. Áætlar félagið að byggja blöndu af verslunar-, þjónustu- og íbúðarhúsnæði.
„Við erum einnig búin að falast eftir því að fá heilsugæslu á svæðið og sendum inn mjög metnaðarfullar tillögur um nýbyggingu sem er alveg sniðin að þörfum heilsugæslunnar. Kröfurnar frá þeim voru miklar, við fórum í mikla vinnu við að undirbúa þetta og teljum okkur vera með flottar tillögur.“ Bíða forsvarsmenn Klettáss enn eftir svörum frá bæjaryfirvöldum varðandi þau áform.