Viðskipti innlent

Samningar loks náðst um lang­þráða við­byggingu við flug­stöðina

Eiður Þór Árnason skrifar
Stefnt er að því að ljúka verkefninu síðsumars árið 2023.
Stefnt er að því að ljúka verkefninu síðsumars árið 2023.

Isavia hefur samið við byggingafélagið Hyrnu á Akureyri um viðbætur og breytingar á flugstöðinni á Akureyrarflugvelli. Þetta staðfestir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við fréttastofu en samningurinn verður undirritaður í flugstöðinni á morgun.

Verkefnið felur í sér viðbyggingu við núverandi flugstöð og breytingu á núverandi húsnæði flugstöðvarinnar og nánasta umhverfi. Fyrsta skóflustunga að viðbyggingunni var tekin í júní síðastliðnum. Akureyri.net greindi fyrst frá samkomulaginu.

Tvö fyrirtæki lögðu inn tilboð í verkið, Húsheild í Mývatnssveit og Hyrna. Tilboð Húsheildar hljóðaði upp á tæpar 865 milljónir króna en tilboð Hyrnu upp á rúmar 810 milljónir króna. Húsdeild hefur síðar keypt Hyrnu og tekið yfir rekstur byggingafélagsins.

Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Sigrún Björn Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla. Myndin er tekin í tilefni af fyrstu skólfustungu verksins í júní síðastliðnum.Isavia

1.100 fermetra viðbygging

Þetta var í annað sinn sem verkið var boðið út. Einungis eitt tilboð upp á 910 milljónir króna barst í fyrra skiptið en það var sömuleiðis frá Húsdeild. Isavia hafnaði tilboði á þeim grundvelli að það væri hærra en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir. Var þá ákveðið að bjóða verkið út á ný.

Heimamenn hafa lengi kallað eftir því að aðstaðan verði bætt á Akureyrarflugvelli svo taka megi við fleiri farþegum í einu. Dæmi eru um það að farþegar sem koma til Akureyri um flugvöllinn frá útlöndum hafi þurft að bíða í strætisvögnum á flughlaðinu, þar sem ekki var pláss fyrir alla að bíða í biðröð í flugstöðinni eftir því að komast í öryggisleit.

Til stendur að reisa 1.100 fermetra viðbyggingu við flugstöðina með góðri aðstöðu fyrir toll og lögreglu, fríhöfn og veitingastað. Áætlað er að heildarverkefninu verið lokið síðsumars 2023.


Tengdar fréttir

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.