Innherji

TM seldi tvö þúsund tryggingar í vefsölu á Stafrænum mánudegi

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Hlutdeild TM á einstaklingsmarkaði er minni en hjá hinum tryggingafélögunum. Stafrænum lausnum er ætlað að breyta því. 
Hlutdeild TM á einstaklingsmarkaði er minni en hjá hinum tryggingafélögunum. Stafrænum lausnum er ætlað að breyta því.  Aðsend mynd

Tryggingafélagið TM, dótturfélag Kviku, seldi tvö þúsund tryggingar og aflaði 600 nýrra viðskiptavina á útsöludeginum Stafrænn mánudagur í lok nóvember. Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, segir að stafrænar lausnir séu snar þáttur í metnaðarfullum áformum um að stórauka hlutdeild félagsins á einstaklingsmarkaði. 

„Venjulega myndi það taka okkur tvo mánuði að selja svona mikið af tryggingum á netinu eins og við gerðum á þessum eina sólarhring,“ segir Sigurður í samtali við Innherja.

Á Stafrænum mánudegi bauð TM 30 prósenta afslátt í eitt ár af tryggingaiðgjöldum nýrra viðskiptavina. Þetta var í fyrsta sinn að sögn Sigurðar sem tryggingafélag hér á landi veitir svona afslátt á þessum degi en meginmarkmið TM var að kynna stafrænu lausnirnar sem tryggingafélagið hefur þróað á undanförnum árum.

Á vef TM er hægt að kaupa tryggingar, fá verðtilboð og ganga frá viðskiptunum með rafrænni uppsögn til annars tryggingafélags án þess að þjónustufulltrúi eða sölumaður á vegum TM komi nálægt ferlinu. TM er eina tryggingafélagið hér á landi sem býður upp á stafræna þjónustu í gegnum allt ferlið.

Mannshöndin kemur hvergi nálægt ferlinu.

„Hvergi annars staðar geturðu farið á vefinn, valið tryggingar og gengið strax frá kaupunum. Mannshöndin kemur hvergi nálægt ferlinu og þess vegna getum við ábyrgst að verðið er alltaf best á netinu. Tryggingarnar eru alltaf 10 prósentum ódýrari í vefsölu,“ segir Sigurður.

Helsta ástæðan fyrir lægra verði í vefsölu er sú að TM kemst hjá því að greiða söluþóknanirnar sem fylgja því að selja tryggingar með hefðbundnum hætti.

„Við erum í rauninni að deila hagræðinu, sem hlýst af því að þurfa ekki að borga sölulaun, með viðskiptavinum þegar þeir afgreiða sig sjálfir,“ segir Sigurður.

Stafræn þróun hjá TM hefur skilað sér í því að 24 prósent af allri sölu tryggingaskírteina fara í gegnum vefinn. Sigurður segir að félagið hafi sett sér markmið um að auka hlutfallið í 50 prósent fyrir lok næsta árs þannig að önnur hver sala fari í gegnum vefinn.

Stóra myndin sem Sigurður einblínir á er að vaxa hraðar en önnur tryggingafélög á einstaklingsmarkaði og stækka þannig hlutdeildina á næstu árum.

Úr kynningu Sigurðar á fjárfestadegi Kviku.

„Við höfum unnið að því að þróa stafrænar lausnir til þess að nálgast einstaklingsmarkaðinn með öðrum hætti en hin tryggingafélögin hafa gert,“ segir Sigurður.

„Hlutdeild okkar á einstaklingsmarkaði er lítil í samanburði við hina. Við erum ekki með nema 20 prósenta hlutdeild í bílum og um 12 prósenta hlutdeild í líftryggingum, sem eru að jafnaði arðbærasti tryggingaflokkurinn. Þetta er óásættanleg staða fyrir félag af þessari stærð. Markmiðið er að vera með að minnsta kosti fjórðungshlutdeild í hverjum flokki.“

Stafræn þróun hefur einnig gert TM kleift að hefja samstarf við önnur fyrirtæki til þess að fjölga snertipunktum við mögulega viðskiptavini. Eitt dæmi er samstarf TM og Toyota-umboðsins á Íslandi.

Besta augnablikið til að selja tryggingar er þegar fólk kaupir hlutina sem það vill tryggja.

„Sölumenn Toyota hafa getað selt tryggingar um leið og þeir selja nýja eða notaða bíla. Það er hægt vegna þess að við höfum byggt vefþjónustur ofan á grunnkerfin okkar sem samstarfsfyrirtæki geta tengst með beinum hætti. Af hverju skiptir það máli? Vegna þess að besta augnablikið til að selja tryggingar er þegar fólk kaupir hlutina sem það vill tryggja,“ segir Sigurður.

Samþætting við fjártæknilausnir Kviku er annar lykill að því að auka markaðshlutdeild TM. Fyrr á árinu keypti Kvika tvö fjártæknifyrirtæki; AUR og Netgíró, sem eiga það sameiginlegt að bjóða upp á greiðslulausnir og einstaklingslán. Þá rekur Kvika innlánaþjónustuna Auði, sem er alfarið á netinu, og forstjóri Kviku hefur sagt áhugavert að skoða útgáfu á gjaldeyriskortum sem bera mun lægri þóknanir en nú tíðkast þegar verslað er í erlendri mynt.

„Við getum selt tryggingar með gjaldeyriskortunum sem Kvika hyggst gefa út, eða boðið tryggingar um leið og viðskiptavinir Netgíró ganga frá kaupum netinu. Og það er jafnvel hægt að selja barnatryggingar þegar viðskiptavinir Auðar stofna framtíðarreikning fyrir börnin sín.“ útskýrir Sigurður.

„Það felast gríðarleg tækifæri í því að fara samstarf við önnur fyrirtæki og nýta fjártæknilausnirnar sem eru undir hatti Kviku til að fjölga snertipunktum við fólk og selja þannig tryggingar um leið og þörfin vaknar.“

Á fyrstu níu mánuðum ársins hagnaðist TM um 4,7 milljarða króna eftir skatta samanborið við 1.135 milljónir á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eiginfjár nam 34 prósentum á ársgrundvelli. 


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×