Viðskipti innlent

Guð­laug Arn­þrúður, Guð­rún Anny og Hjalti til Lands­bankans

Atli Ísleifsson skrifar
Guðlaug Arnþrúður Guðmundsdóttir, Guðrún Anny Hálfdánardóttir og Hjalti Harðarson.
Guðlaug Arnþrúður Guðmundsdóttir, Guðrún Anny Hálfdánardóttir og Hjalti Harðarson. Landsbankinn

Guðlaug Arnþrúður Guðmundsdóttir, Guðrún Anny Hálfdánardóttir og Hjalti Harðarson hafa öll verið ráðin í stjórnendastöður hjá Landsbankanum. 

Í tilkynningu segir að þau hafi verið ráðin inn á svið áhættustýringar, eignastýringar og miðlunar og í markaðsdeild bankans.

„Guðlaug Arnþrúður Guðmundsdóttir (Adda) hefur tekið við starfi forstöðumanns Viðskiptalausna hjá Eignastýringu og miðlun. Adda hefur starfað hjá bankanum frá árinu 2011, síðast sem sérfræðingur hjá Viðskiptalausnum á Einstaklingssviði en áður starfaði hún sem sérfræðingur í rekstraráhættu. Hún hefur töluverða reynslu af þróun og rekstri á þjónustu bankans og hefur leitt umfangsmikil sjálfsafgreiðsluverkefni fyrir Landsbankann, s.s. innleiðingu á Apple Pay og Sparað í appi.

Adda er með B.Sc. gráðu í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og er að ljúka prófi í verðbréfaviðskiptum frá sama skóla.

Forstöðumaður Markaðsáhættu

Guðrún Anny Hálfdánardóttir hefur tekið við starfi forstöðumanns Markaðsáhættu sem tilheyrir Áhættustýringu bankans. Guðrún hefur unnið hjá bankanum frá árinu 2007 en var áður hjá Kaupþingi frá 2005. Hún var sérfræðingur hjá Áhættustýringu frá 2007-2019, fyrst í eigna- og skuldaáhættu og síðar markaðsáhættu. Árið 2019 starfaði hún hjá Viðskiptalausnum á Einstaklingssviði við framþróun og sjálfvirknivæðingu, m.a. við innleiðingu á Aukalánum.

Guðrún er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. gráðu í stjórnunarreikningsskilum og viðskiptagreind frá sama skóla, sem og próf í verðbréfaviðskiptum.

Forstöðumaður Markaðsdeildar

Hjalti Harðarson hefur verið ráðinn forstöðumaður Markaðsdeildar Landsbankans en hann hefur 15 ára reynslu af markaðsmálum og þróun í stafrænu umhverfi. Undanfarið hefur Hjalti starfað sem teymisstjóri stafrænnar grósku í markaðsdeild Arion banka en þar leiddi hann m.a. vinnu við gagnadrifna markaðssetningu. Áður var hann markaðsstjóri Öskju, markaðsráðgjafi hjá auglýsingastofunni Sahara, framkvæmdastjóri Kjarnans miðla og deildarstjóri hjá Símanum.

Hjalti er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Viðskiptaháskóla Kaupmannahafnar (CBS) og M.Sc. gráðu frá sama skóla í alþjóðamarkaðssetningu og stjórnun,“ segir í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×