Innherji

Jakob á Jómfrúnni: „Við erum eftir á þegar kemur að áfengissölu"

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Jómfrúin var opnuð 1996 í Lækjargötu. Faðir Jakobs opnaði staðinn sem er 25 ára í ár. 
Jómfrúin var opnuð 1996 í Lækjargötu. Faðir Jakobs opnaði staðinn sem er 25 ára í ár.  Vísir/Vilhelm

Breyttar reglur um áfengissölu hefðu nýst veitingastöðum vel þegar þeir voru neyddir til að takmarka þjónustu vegna kórónuveirufaraldursins í fyrra. Breyta hefði mátt reglum tímabundið líkt og gert var í öðrum ríkjum en það var ekki gert þrátt fyrir ákall veitingamanna.

Um þetta fjallar Jakob E. Jakobsson, eigandi og framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar, í nýjasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála. Jómfrúin fagnar 25 ára afmæli í ár og í þættinum er fjallað um sögu veitingastaðarins og nýútkomna bók Jakobs sem gefin er út að því tilefni.

Þá ræddi Jakob um viðbrögðin og þær aðgerðir sem veitingastaðir þurftu að ráðast í þegar samkomutakmarkanir voru hertar vegna kórónuveiru-faraldursins í fyrra.

„Það var gríðarleg óvissa í upphafi, en eftirspurnin var alltaf á hliðarlínunni,“ segir Jakob í þættinum aðspurður um þetta en bætir þó við að hann hafi fundið mikinn meðbyr frá viðskiptavinum staðarins.

„Fólk pantaði mat heim og við urðum við því og fundum leiðir til að senda matinn heim,“ segir Jakob.

„En þá vantaði engu að síður inn áfengissöluna og það hefur töluverð áhrif. […] Þegar opnunartíminn er skertur, eins og barir eru að verða fyrir núna, þá gefur það augaleið að þú verður fyrir tekjufalli.

Ein ákavíti hefði hjálpað í erfiðri stöðu

Gísli Freyr Valdórsson, umsjónarmaður hlaðvarps Þjóðmála, bendir þá á að hér á landi ríki mikil stöðnun þegar kemur að áfengisverslun en svo virðist þó sem að það sé að breytast, án aðkomu ríkisins, þar sem verslun fer nú að miklu leyti fram framhjá kerfinu með erlendum netverslunum.

Jakob tekur undir það en bætir við að Jómfrúin, sem og aðrir veitingastaðir innan Samtaka ferðaþjónustunnar, hafi bent stjórnvöldum á það að önnur ríki hefðu heimilað veitingastöðum að senda áfengi heim með pöntunum, jafnvel þó svo að um tímabundnar aðgerðir væri að ræða.

„Ef þetta hefði verið heimilt, að mér hefði verið leyft að selja eina ákavíti með jólaveislunni sem ég var að selja heim til fólks, þá hefði það hjálpað mér í fyrra. Við erum eftir á með þetta allt saman,“ segir Jakob.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Jakob á nýrri hlaðvarpsveitu Sýnar sem ber nafnið Tal. Auk þess er hlaðvarpið aðgengilegt á öllum helstu hlaðvarpsveitum og öllum aðgengilegt án endurgjalds.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Þjóðmál í samstarf við Innherja

Hlaðvarpsþátturinn Þjóðmál, í umsjá Gísla Freys Valdórssonar, og Innherji hefja samstarf á allra næstu dögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×