Innherji

Útgjöld vaxa lítið í sögulegu samhengi en ekki má mikið út af bera

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Fimm ár eru síðan lögin um opinber fjármál tóku gildi.
Fimm ár eru síðan lögin um opinber fjármál tóku gildi. VÍSIR/VILHELM

Árlegur útgjaldavöxtur ríkissjóðs frá árslokum 2022 til ársloka 2026 verður 0,65 prósent að raunvirði. Í sögulegu samhengi er þetta lítill útgjaldavöxtur, að því er kemur fram í álitsgerð fjármálaráðs á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar fyrir tímabilið. Ráðið bendir þó á að stjórnvöld hafi ýtt vandanum við að stöðva vöxt skuldahlutfalls ríkissjóðs yfir á næsta kjörtímabil. 

Samkvæmt áætlun fjármálastefnunnar stækkar hagkerfið á umræddu tímabili um 10 prósent – hagvöxtur verður að jafnaði rétt yfir leitni - en útgjaldaaukningin verði aðeins tæplega 3 prósent sem samsvarar 0,65 prósenta árlegri aukningu að raunvirði.

„Í sögulegu samhengi er þetta lítill útgjaldavöxtur. Af framansögðu er ljóst að til að standast stefnumið um afkomu þarf að hemja útgjaldaaukningu á tímabili hagvaxtar sem hefur oft og tíðum reynst erfitt. Enda sífellt uppi kröfur um aukin útgjöld, ný verkefni og hækkun launa,“ segir í álitsgerðinni.

„Hér má ekki mikið út af bregða og koma verður í veg fyrir að ekki verði stofnað til mikilla varanlegra útgjalda þrátt fyrir að hagþróunin verði jafnvel enn hagstæðari en ráð er fyrir gert núna.“

Gunnar Haraldsson formaður fjármálaráðs.

Stjórnvöld hafa frestað því að stöðva vöxt skuldahlutfalls ríkissjóðs um eitt ár en samkvæmt fjármálastefnunni fyrir árin 2022 til 2026 mun vöxtur hlutfallsins stöðvast árið 2026 en ekki árið 2025 eins og gert var ráð fyrir í fjármálastefnunni fyrir árin 2021 til 2025.

Fjármálaráð bendir á vandanum sé ýtt út fyrir kjörtímabil ríkisstjórnarinnar en þannig falli í hlut nýrra stjórnvalda að stefnumiðið haldi. Skuldir hins opinbera munu vaxa sem hlutfall af vergri landsframleiðslu út allt tímabilið.

„Leysist ekki það erfiða verkefni að stöðva vöxt skuldahlutfallsins 2026, eins og áætlanir nú gera ráð fyrir, dregur það úr trúverðugleika stefnumörkunarinnar á tíu ára afmæli laganna um opinber fjármál. Lögum sem ætlað var að bæta úr lausung í fjármálastjórnuninni.“

Fimm ár eru síðan lögin um opinber fjármál tóku gildi og á þeim tíma hefur „allnokkur árangur náðst í stjórn opinberra fjármála“ að mati fjármálaráðs, sem telur að útgjaldaaukning í síðustu uppsveiflu hefði að öllum líkindum verið minni en ef laganna hefði ekki notið við.

Í lögunum má finna svokallaðar fjármálareglur sem fela í sér í fyrsta lagi að heildarjöfnuður ríkis og sveitarfélaga yfir hvert fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og árlegur halli ávallt undir 2,5 prósent af landsframleiðslu. Í öðru lagi að heildarskuldir hins opinbera séu lægri en nemur 30 prósenta af vergri landsframleiðslu og í þriðja lagi gera lögin kröfu um markvissa lækkun skulda á meðan skuldir eru yfir 30 prósenta viðmiðinu.

Fjármálaráð var sett á stofn til að leggja hlutlægt mat á stefnumörkun í opinberum fjármálum. Fjármála- og efnahagsráðherra skipar tvo menn í ráðið samkvæmt tilnefningu Alþingis og einn samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra. Gunnar Ólafur Haraldsson er formaður fjármálaráðs en auk hans sitja Ásgeir Brynjar Torfason og Þórhildur Hansdóttir Jetzek í ráðinu.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×