Golf

Guðrún Brá og Haraldur Franklín kylfingar ársins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kylfingar ársins, Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Haraldur Franklín Magnús.
Kylfingar ársins, Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Haraldur Franklín Magnús. ksí/GETTY/DAVID CANNON

Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Haraldur Franklín Magnús voru valin kylfingar ársins af Golfsambandi Íslands. Þetta er annað árið í röð sem Guðrún Brá fær þessa viðurkenningu og í þriðja sinn sem Haraldur fær hana.

Guðrún Brá varð Íslandsmeistari í golfi í ár og lék á sextán mótum á LET Evrópumótaröðinni. Besti árangur hennar á tímabilinu var 12. sæti. Guðrún Brá endaði í 75. sæti á stigalista LET mótaraðarinnar og keppir aftur á henni á næsta ári.

Á þessu ári hefur Guðrún Brá farið upp um rúmlega 250 sæti á heimslistanum. Hún er núna í 620. sæti hans.

Haraldur keppti á Áskorendamótaröðinni í ár og tók alls þátt í nítján mótum. Besti árangur hans var 2. sætið á B-NL mótinu sem fram fór Hollandi í lok ágúst. 

Haraldur lenti í 48. sæti á stigalista Áskorendamótaraðarinnar en í fyrra varð hann í 85. sæti. Haraldur var aðeins þremur sætum frá því að komast inn á lokamót Áskorendamótaraðarinnar. Hann keppir aftur á henni á næsta ári.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.