Handbolti

Stjarnan og Selfoss þurfa að endurtaka leikinn eftir dóm HSÍ

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Selfyssingar kærðu framkvæmd leiksins eftir að liðið mætti Ungmennaliði Stjörnunnar þann 28. nóvember síðastliðinn.
Selfyssingar kærðu framkvæmd leiksins eftir að liðið mætti Ungmennaliði Stjörnunnar þann 28. nóvember síðastliðinn. Getty

Ungmennalið Stjörnunnar og Selfoss þurfa að mætast á ný í Grill66 deild kvenna í handbolta. Þetta er niðurstaða dómstóls HSÍ eftir að handknattleiksdeild Selfoss kærði framkvæmd leiks liðanna sem fram fór í Garðabænum þann 28. nóvember síðastliðinn.

Þegar um tuttugu mínútur lifðu leiks skoraði Stjarnan U sitt 17. mark í leiknum og dómarar leiksins dæmdu markið löglegt. Þrátt fyrir það var markið ekki fært á skortöflu leiksins og því var staða skoraðra marka upp frá því og allt til leiksloka röng á skortöflunni.

Samkvæmt skortöflunni endaði leikurinn með jafntefli, 29-29, en það rétta er að Stjarnan vann leikinn, 30-29.

Að fenginni ábendingu fóru dómarar leiksins yfir upptöku af leiknum og þar kom í ljós að gleymst hafði að færa inn eitt mark á heimaliðið, og dómararnir skráðu því hin réttu úrslit á leikskýrsluna, 30-29.

Selfyssingar kærðu framkvæmd leiksins og fóru fram á að úrslitin á töflunni skildi standa. Þeirri beiðni var hins vegar hafnað, en dómstóll HSÍ hefur ákveðið að liðin skuli mætast á ný.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×