Innherji

Heimilt að selja hvenær sem er á opnum markaði eða í gegnum lokað útboð

Hörður Ægisson skrifar
Markaðsvirði Íslandsbanka hefur hækkað um liðlega 90 milljarða frá skráningu bankans í Kauphöllina í júní á þessu ári.
Markaðsvirði Íslandsbanka hefur hækkað um liðlega 90 milljarða frá skráningu bankans í Kauphöllina í júní á þessu ári.

Bankasýslunni, sem heldur utan um 65 prósenta eignarhlut ríkissjóðs í Íslandsbanka, er heimilt að selja hlutabréf sín í bankanum hvort heldur sem er á opnum markaði eða í gegnum lokað útboð til fagfjárfesta hvenær sem er eftir að tímabili sölubanns lýkur síðar í þessum mánuði.

Þetta er á meðal þess sem má lesa út úr nýjum uppfærðum samningi á milli Bankasýslu ríkisins og Íslandsbanka sem var undirritaður þann 19. maí síðastliðinn, um fjórum vikum áður en almennt hlutafjárútboð og skráning bankans á markað fór fram, og birtur fyrr á árinu heimasíðu Bankasýslunnar.

Í fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra, sem var kynnt í liðinni viku, sagði að stefnt væri að því að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka að fullu á árunum 2022 og 2023 ef markaðsaðstæður verða ákjósanlegar. Á næsta ári er horft til þess að selja um helming eftirstandandi eignarhlutar ríkissjóðs. Í dag er markaðsvirði 65 prósenta hlutar í bankanum um 162 milljarðar króna.

Þrátt fyrir heimild Bankasýslunnar til að ráðast í sölu á bréfum sínar hvenær sem er þegar sölubannið rennur úr gildi, sem nær til 180 daga frá því að bréf bankans voru tekin til viðskipta á markaði 22. júní síðastliðinn, hvort „heldur sem er á opnum markaði eða ekki […] þá mun stofnunin leitast við að haga sérhverri slíkri sölu í samræmi við venjubundna háttsemi á skipulögðum markaði,“ eins og segir í samningnum. 

Það er gert með það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum á markað fyrir hlutabréf í Íslandsbanka í samhengi við sambærileg söluferli og önnur markmið sem Bankasýslan kann að hafa á hverjum tíma.

Þá segir í samningnum á milli Bankasýslu ríkisins og Íslandsbanka að ef frekari sala á eignarhlutum sem stofnunin heldur utan um fer fram í svokölluðu hröðuðu tilboðsferli (e. accelerated bookbuild) eða stórviðskiptum ( e. block trades) þá skuli Bankasýslan tilkynna bankanum um þær fyrirlætlanir rétt í þann mun áður en slík viðskipti eiga sér stað, í því skyni að tryggja að greið samskipti við markaðinn.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra en fram kom í frumvarpi hans til fjárlaga næsta árs að stefnt væri að því að selja helminginn af 65 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka. VÍSIR/VILHELM

Í samningnum er einnig tiltekið að Bankasýslan muni haga frekari sölu á bréfum í Íslandsbanka í samræmi við eigendastefnu ríkisins og viðteknar venjur á hlutabréfamarkaði. Þannig kemur fram í eigendastefnunni að ásættanleg skilyrði þurfi að vera fyrir hendi áður en eignarhlutur er seldur og leitast skuli við að hámarka langtíma virði hlutar ríkissjóðs.

Samningurinn á milli Bankasýslunnar og Íslandsbanka fellur sjálfkrafa úr gildi þegar eignarhlutur ríkissjóðs fer niður fyrir þriðjung útistandandi hluta í bankanum. 

Í forsendum fjárlagafrumvarps ráðherra kom meðal annars fram að fyrirhuguð frekari sala á hlutum í Íslandsbanka á næsta ári væri mikilvægur þáttur í virkri stýringu á efnahag ríkisins. „Með sölunni er hægt að auka sjóðstreymi til ríkisins, minnka lánsfjárþörf og auka rými til fjárfestinga í samfélagslega arðbærum verkefnum þrátt fyrir hallarekstur,“ sagði í frumvarpinu.

Hlutabréfaverðið hækkað um nær 60 prósent frá skráningu

Þegar frumútboð Íslandsbanka fór fram, sem var hið stærsta sem haldið hefur verið hér á landi og umframeftirspurn reyndist níföld, var markaðsvirði alls hlutafjár í bankanum metið á liðlega 158 milljarða króna og fékk ríkið því um 55,3 millarða króna fyrir 35 prósenta hlut. Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur hins vegar hækkað um 58 prósent frá skráningu og er markaðsvirði bankans í dag tæplega 250 milljarðar.

Á fyrstu níu mánuðum ársins nam hagnaður Íslandsbanka um 16,6 milljörðum króna og var arðsemi eigin fjár 11,7 prósent á ársgrundvelli, borið saman við 2,4 prósent arðsemi á sama tímabili árið áður. Bankinn hefur sett sér það markmið að skila yfir 10 prósenta arðsemi á eigið fé til lengri tíma litið.

Fyrir utan íslenska ríkið eru stærstu hluthafar Íslandsbanka í dag sjóðastýringarfyrirtækið Capital Group, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi lífeyrissjóður.

Hluthafar voru um 24 þúsund talsins við skráningu í Kauphöllina en hefur síðan þá fækkað um liðlega sjö þúsund.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Selja Íslandsbanka að fullu á næstu tveimur árum

Eignarhlutur ríkissjóðs í Íslandsbanka verður seldur að fullu á næstu tveimur árum. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022 sem lagt er fram á Alþingi í dag.

Hluthöfum fækkar um fjögur þúsund

Hluthöfum í Íslandsbanka hefur fækkað um fjögur þúsund frá því bankinn var skráður á hlutabréfamarkað í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í Markaði Fréttablaðsins í dag en fækkunin nemur liðlega sautján prósentum.

Verðmeta Íslandsbanka á 155 til 242 milljarða króna

Fossar markaðir, sem er á meðal ráðgjafa vegna fyrirhugaðrar sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka, áætlar að virði bankans sé á bilinu 222 til 242 milljarðar króna. Sjálfstæði greiningaraðilinn Jakobsson Capital metur bankann á 155 til 218 milljarða króna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.