Viðskipti innlent

Verðmeta Íslandsbanka á 155 til 242 milljarða króna

Eiður Þór Árnason skrifar
Til stendur að selja 25 til 35% hlut ríkisins í Íslandsbanka sem er nú alfarið í eigu ríkissjóðs.
Til stendur að selja 25 til 35% hlut ríkisins í Íslandsbanka sem er nú alfarið í eigu ríkissjóðs. Vísir/Vilhelm

Fossar markaðir, sem er á meðal ráðgjafa vegna fyrirhugaðrar sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka, áætlar að virði bankans sé á bilinu 222 til 242 milljarðar króna. Sjálfstæði greiningaraðilinn Jakobsson Capital metur bankann á 155 til 218 milljarða króna.

Þetta kemur fram í umfjöllun Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins, í dag. Samkvæmt heimildum Markaðarins er gert ráð fyrir því að skráningarlýsingar og fjárfestakynningar verði líklega birtar næsta mánudag. Í kjölfarið muni fjárfestar geta skráð sig fyrir hlutum í útboði Íslandsbanka sem standi til 16. júní.

Í forsendum Fossa markaða fyrir áðurnefndu verðmati er gert ráð fyrir því að hagnaður Íslandsbanka muni nema tæplega 19 milljörðum á árinu 2023. Verðmat fyrirtækisins er umtalsvert meira en bókfært eigið fé Íslandsbanka í lok fyrsta ársfjórðungs, sem nam 185,5 milljörðum, en mat Fossa grundvallast meðal annars á því að umfram eigið fé Íslandsbanka sé um 30 milljarðar.

Jakobsson Capital miðar við þær rekstraráætlanir sem lagðar eru til grundvallar en greining Jakobsson er sögð viðkvæm fyrir breytingum á mikilvægum forsendum, sérstaklega virkum vaxtamun bankans.

Telja að arðsemi muni batna

Ríkið áformar að selja 25 til 35% hlut í Íslandsbanka í gegnum hlutafjárútboð og skráningu á markað síðar í þessum mánuði. Hagnaður bankans á fyrsta ársfjórðungi nam 3,6 milljörðum sem jafngilti 7,7% arðsemi á ársgrundvelli.

Fram kemur í umfjöllun Markaðarins að íslensk og erlend fjármálafyrirtæki, sem séu til ráðgjafar vegna fyrirhugaðrar sölu geri ráð fyrir því að arðsemi í rekstri bankans muni batna á komandi árum og að hagnaðurinn verði á bilinu 16,5 milljarðar til um 19 milljarðar þegar komið verður fram á árið 2023.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×