Körfubolti

Ójafnasti leikur NBA sögunnar fór fram í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Memphis Grizzlies leikmaðurinn Tyus Jones horfir upp á stigatöfluna í þessum ótrúlega leik í nótt.
Memphis Grizzlies leikmaðurinn Tyus Jones horfir upp á stigatöfluna í þessum ótrúlega leik í nótt. AP/Brandon Dill

Phoenix Suns liðið hélt sigurgöngu sinni áfram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt með sínum átjánda sigri í röð en stærsta fréttin var kannski stærsti sigur sögunnar sem vannst í Memphis. Átta leikja sigurganga meistaranna endaði líka í nótt.

Memphis Grizzlies fagnaði stærsti sigri sögunnar í NBA deildinni þegar liðið vann 73 stiga sigur á Oklahoma City Thunder 152-79. Stærsti sigurinn fyrir þennan leik vann 69 stiga sigur Cleveland Cavaliers á Miami Heat í desember 1991.

Memphis notaði tólf leikmenn í leiknum og níu þeirra skoruðu tíu stig eða meira. Jaren Jackson Jr. var stigahæstur með 27 stig en liðið vann þennan stórasigur þrátt fyrir að leika án síns besta leikmanns, Ja Morant. Staðan var 72-36 í hálfleik og Grizzlies komst mest 78 stigum yfir.

Cam Johnson og Cameron Payne skoruðu báðir 19 stig þegar Phoenix Suns vann 114-103 sigur á Detroit Pistons en þeir komu báðir inn af bekknum. Deandre Ayton var síðan með 17 stig og 12 fráköst og Chris Paul skoraði 12 stig og gaf 12 stoðsendingar.

Suns-liðið lék án stjörnuleikmannsins Devin Booker sem meiddist í síðasta leik en það háði ekki liðinu sem hitti úr 76 prósent skota sinna í öðrum leikhlutanum og var 69-51 yfir í hálfleik.

Detroit náði 17-0 spretti í þriðja leikhluta og minnkaði muninn í eitt stig en heimamenn í Suns voru sterkari í lokin. Phoenix tapaði þremur af fyrstu fjórum leikjum tímabilsins en hefur nú ekki tapað leik síðan 27. október síðastliðinn.

Fred Van Vleet skoraði 13 af 29 stigum sínum í fjórða leikhlutanum þegar Toronto Raptors vann 97-93 sigur á Milwaukee Bucks og endaði um leið átta leikja sigurgöngu meistaranna.

Það munaði auðvitað miklu um það fyrir Bucks að Giannis Antetokounmpo hvíldi í þessum leik með auman kálfa en hann skoraði 40 stig og sigurkörfu í leiknum kvöldið áður.

Pascal Siakam var með 20 stig fyrir Toronto sem vann í fyrsta sinn í fjórum leikjum og endaði líka fimm leikja taphrinu á heimavelli.

DeMar DeRozan skoraði 34 stig og þeir Zach LaVine og Nikola Vucevic voru báðir með 27 stig þegar Chicago Bulls vann 119-115 sigur á New York Knicks í Madison Square Garden. Þeir voru einu leikmenn Bulls liðsins sem skoruðu í fjórða leikhlutanum en DeRozan skoraði átján stig í honum.

  • Úrslitin í NBA deildinni í nótt:
  • Memphis Grizzlies - Oklahoma City Thunder 152-79
  • Phoenix Suns - Detroit Pistons 114-103
  • New York Knicks - Chicag Bulls 115-119
  • Toronto Raptors - Milwaukee Bucks 97-93
  • Portland Trail Blazers - San Antonio Spurs 83-114
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×