Handbolti

Viggó og Andri fjarlægjast fallsvæðið | Enn eitt tap Daníels og félaga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viggó Kristjánsson skoraði sex mörk fyrir Stuttgart í kvöld.
Viggó Kristjánsson skoraði sex mörk fyrir Stuttgart í kvöld. Getty/Tom Weller

Af þeim þremur leikjum sem voru að klárast í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta voru Íslendingar í eldlínunni í tveimur þeirra. Viggó Kristjánsson var markahæsti maður Stuttgart er liðið vann fjögurra marka sigur gegn Minden, 35-31, og Daníel Þór Ingason og félagar hans í Balingen töpuðu sínum ellefta leik á tímabilinu gegn Leipzig, .

Stuttgart byrjaði leikinn af miklum krafti, en fyrstu fimm mörk leiksins voru þeirra. Liðið hélt þessari fimm marka forystu út hálfleikinn og þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 20-15.

Meira jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik, en heimamenn í Stuttgart náðu þó mest átta marka forskoti. Minden náði að klóra aðeins í bakkann, en að lokum varð sjögurra marka sigur Stuttgart staðreynd, 35-31.

Viggó Kristjánsson var sem fyrr segir markahæstur heimamanna með sex mörk, og Andri Már Rúnarsson skoraði tvö fyrir Stuttgart. Liðið situr nú í 14. sæti deildarinnar með níu stig eftir 13 leiki. Minden situr hins vegar á botninum með aðeins tvö stig.

Þá þurftu Daníel Þór Ingason og félagar hans í HBW Balingen-Weilstetten að sætta sig við sjö marka tap gegn Leipzig, 31-24.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og að honum loknum var staðan 16-15, Leipzig í vil.

Heimamenn í Leipzig tóku svo öll völd á vellinum í seinni hálfleik og unnu að lokum öruggan sjö marka sigur, 31-24.

Daníel og félagar sitja í næst neðsta sæti deildarinnar með sex stig eftir 14 leiki, 12 stigum á eftir Leipzig sem situr í áttunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×