Handbolti

Bjarki skoraði sjö í sigri Lemgo | Kristján Örn markahæstur í naumu tapi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarki Már Elísson skoraði sjö mörk fyrir Lemgo í kvöld.
Bjarki Már Elísson skoraði sjö mörk fyrir Lemgo í kvöld. Axel Heimken/picture alliance via Getty Images

Það voru Íslendingar í eldlínunni í fjórum leikjum í Evrópubikarkeppni karla í handbolta í kvöld. Bjarki Már Elísson skoraði sjö mörk fyrir Lemgo í þriggja marka sigri gegn Chekhovskie Medvedi og Kristján Örn Kristjánsson skoraði einnig sjö mörk er PAUC Aix tapaði með tveimur mörkum gegn Sävehof.

Mikið jafnræði var með liðunum er Bjarki Már og félagar hans í Lemgo tóku á móti rússneska liðinu Medvedi í B-riðli. Að loknum fyrri hálfleik var staðan jöfn, 16-16.

Heimamenn sigldu hægt og rólega fram úr gestunum í seinni hálfleik og náðu mest fjögurra marka forskoti. Gestirnir áttu þó gott áhlaup og minnkuðu muninn niður í eitt mark í tvígang, en Bjarki og félagar unnu að lokum góðan þriggja marka sigur, 30-27.

Lemgo er nú á toppi riðilsins með átta stig eftir fimm leiki, en Medvedi er enn án stiga á botni riðilsins ásamt Cocks.

Kristján Örn Kristjánsson var markahæsti maður liðsins með sjö mörk er hann og félagar hans í PAUC Aix töpuðu með tveimur mörkum gegn Sävehof í C-riðli. 

Heimamenn í Sävehof höfðu yfirhöndina frá upphafi, en Kristján og félagar settu ágætis pressu á heimamenn í seinni hálfleik. Allt kom þó fyrir ekki og tveggja marka tap varð því niðurstaðan.

Kristján og félagar sitja á botni C-riðils með eitt stig eftir fimm leiki, fimm stigum minna en Sävehof sem situr á toppnum.

Þá skildu GOG og Nantes jöfn í A-riðli, 29-29, en Viktor Gísli Hallgrímsson var með 25 prósent markvörslu í liði GOG þann stutta tíma sem hann spilaði. 

Að lokum unnu Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans góðan fjögurra marka sigur gegn AEK Athens í D-riðli, 30-26, en liðin eru nú jöfn í fjórða og fimmta sæti með fjögur stig eftir fimm leiki.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.