Innherji

Verðbólga undir væntingum en myndin á eftir að skýrast

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Brestur á framleiðslukeðjum á alþjóðavísu hefur sett mark sitt á verðlagsþróun. 
Brestur á framleiðslukeðjum á alþjóðavísu hefur sett mark sitt á verðlagsþróun.  VÍSIR/VILHELM

Verðbólgumæling Hagstofu Íslands var undir væntingum greinenda í fyrsta sinn síðan í nóvember í fyrra. „Í stuttu máli má þannig segja að verðbólgan sé að reynast þrálát en þó ekki eins kraftmikil og væntingar voru um,“ segir Birgir Haraldsson, sjóðstjóri hjá Akta.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,35 prósent á milli mánaða í nóvember. Árstaktur verðbólgu er nú 4,8 prósent og hækkaði hann um 0,3 prósent á milli mánaða.

Opinberar spár greinenda fyrir nóvember lágu á frekar breiðu bili, eða á milli 0,2 til 0,6 prósenta, en meðaltalið var um 0,44 prósent sem hefði samsvarað árstakti upp á 4,9 prósent.

„Það er í raun húsnæðið sem heldur áfram að keyra verðbólguna hærra þessa stundina,“ segir Birgir en húsnæðisliðurinn var upp um 10,8 prósent á ársgrundvelli. Aðrir þættir, svo sem innflutningur og innlendir liðir án húsnæðis, voru talsvert nær 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Hækkun þeirra á ársgrundvelli nam 3,2 prósentum.

Fyrstu viðbrögð á markaði voru kaup á óverðtryggðum bréfum og sala á stysta verðtryggða ríkisbréfinu, en áhrifin gengu fljótlega til baka. 

Verðbólguálag á markaði er nú 4 prósent ef miðað er við fimm ára ríkisskuldabréf og 3,7 prósent ef miðað er við 7 ára ríkisskuldabréf. Álagið hefur lækkað lítillega síðan Seðlabankinn hækkaði vexti um 50 punkta í síðustu viku.

„Varðandi framhaldið þá velta næstu verðbólgumælingar á því hvort krónan haldi áfram í styrkingarfasa og vegi upp hækkanir á hrávörum og öðrum innfluttum vörum,“ segir Gunnar Örn Erlingsson, sérfræðingur í skuldabréfamiðlun Arion banka

„Enn fremur verður forvitnilegt að sjá hvort vaxtahækkanir að undanförnu slái á miklar hækkanir á fasteignamarkaði eða hvort það þurfi ekki meira til. Mjög lágir vextir, brestur á framleiðslukeðjum á alþjóðavísu vegna covid, uppskerubrestir og orkuskortur, björgunarpakkar stjórnvalda og seðlabanka að viðbættum launahækkunum birtast auðvitað í hækkun verðlags á endanum.“

Birgir hjá Akta segir lykilatriði að fylgjast með hvernig fasteignaverð þróast með hækkandi vöxtum og aukinni greiðslubyrði fasteignalána. 

„Við erum að sjá einhver merki um að takturinn sé að hægjast á fasteignamarkaði en það verður ekki fyrr en eftir tvo til þrjá mánuði að myndin skýrist betur með það.“

Á aðeins örfáum mánuðum hefur Seðlabankinn hækkaði vexti úr 0,75 prósent í 2 prósent auk þess að hafa gripið til aðgerða á vettvangi fjármálastöðugleika- og fjármálaeftirlitsnefndar – hlutfall hámarks veðsetningar fasteignalána var lækkað í 80 prósent og eins settar reglur um 35 prósenta hámark á greiðslubyrði – í því skyni að reyna kæla fasteignamarkaðinn.

Þegar Seðlabankinn hækkaði vexti um 50 punkta í síðustu viku vísaði bankinn til versnandi verðbólguhorfa sem endurspegluðu einkum þrálátar alþjóðlegar verðhækkanir, hækkun launakostnaðar og aukna spennu í þjóðarbúinu.

Bankinn spáði því að verðbólga myndi hækka í 4,7 prósent undir lok þessa árs og hún færi ekki undir 3 prósent fyrr en á síðasta ársfjórðungi 2022.

Seðlabankastjóri sagði í samtali við Innherja í síðustu viku að ekki væri „endilega“ von á hröðum vaxtahækkunum á komandi misserum. Næsti vaxtaákvörðunarfundur bankans er í febrúar.

„Við ættum þá að hafa betri yfirsýn yfir stöðu mála en það gæti verið óþægilegt fyrir okkur ef við sjáum verðbólguna halda áfram að hækka á næstu þremur mánuðum á sama tíma og þessar launahækkanir eru að koma inn,“ útskýrði Seðlabankastjóri.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Hótun verkalýðsleiðtoga yfirlýsing um að þeir ætli að semja um verðbólgu

Seðlabankastjóri telur að það hafi verið „mistök“ af hálfu aðila vinnumarkaðarins að ná ekki saman í haust um að falla frá hinum svonefnda hagvaxtarauka á næsta ári, sem tryggir launafólki hlutdeild í ávinningnum þegar landsframleiðsla á hvern íbúa eykst, en hann mun að óbreyttu virkjast og leiða til enn meiri launahækkana en áður var spáð.

Hægt hefur á vexti peningamagns

Hægt hefur á vexti peningamagns það sem af er ári eftir kraftmikinn vöxt á seinni hluta síðasta árs. Þetta kom fram í nóvemberhefti Peningamála, sem er gefið út af Seðlabankanum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×