Körfubolti

Hafa tapað sex föstudagsleikjum í röð og mæta til Keflavíkur í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristófer Acox og félagar í Valsliðinu hefur gengið afar illa á föstudögum síðustu mánuði.
Kristófer Acox og félagar í Valsliðinu hefur gengið afar illa á föstudögum síðustu mánuði. Vísir/Bára Dröfn

Flestir geta ekki beðið eftir föstudögum en þetta hafa hins vegar ekki verið góðir dagar fyrir karlalið Valsmanna í körfuboltanum.

Valsmenn reyna í kvöld að breyta venju sinni undanfarna níu mánuði sem er að tapa öllum leikjum sínum á föstudögum.

Valsliðið hefur ekki unnið leik á föstudegi síðan 12. febrúar 2021 eða í 280 daga. Síðan þá hefur liðið leikið sex leiki á föstudagskvöldum og tapað þeim öllum þar af fjórum þeirra með ellefu stigum eða meira.

Einn af þessum tapleikjum var oddaleikurinn á móti KR í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar í vor.

Keflavík tekur á móti Val í Blue-höllinni í Keflavík klukkan 20.15 í kvöld og verður hann sýndur beint í Stöð 2 Sport. Strax á eftir leikinn verður síðan Körfuboltakvöld.

Valsmenn eru á sigurbraut þrátt fyrir vandræði sín á föstudögum.

Síðustu þrír leikir Valsliðsins hafa nefnilega verið á fimmtudögum og liðið hefur unnið þá alla. Á meðan Valsmenn hafa tapað sex leikjum í röð á föstudögum þá hafa þeir unnið sjö leiki í röð á fimmtudögum eða alla leiki sína á þeim degi síðan 4. febrúar á þessu ári.

Valsmenn fögnuðu sigri síðast á föstudagskvöldi þegar þeir mættu Keflvíkingum á Hlíðarenda í febrúar á þessu ári. Valsliðið vann þá sannfærandi 85-72 sigur. Nú er spurning hvort þeir endurtaki leikinn í kvöld.

  • Síðustu leikir Valsmanna á föstudagskvöldum:
  • 22. október 2021: 26 stiga tap fyrir Njarðvík (70-96)
  • 8. okótber 2021: 14 stiga tap fyrir Tindastól (62-76)
  • 28. maí 2021: 3 stiga tap fyrir KR í úrslitakeppni (86-89)
  • 7. maí 2021: 19 stiga tap fyrir Keflavík (82-101)
  • 30. apríl 2021: 2 stiga tap fyrir Þór Þorl. (96-98)
  • 5. mars 2021: 11 stiga tap fyrir Stjörnunni (79-90)
  • 12. febrúar 2021: 13 stiga sigur á Keflavík (85-72)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×