Viðskipti innlent

Fljótandi þörungabrugg í Mývatnssveit lofar góðu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Júlía Katrín Björke er framkvæmdastjóri Mýsköpunar.
Júlía Katrín Björke er framkvæmdastjóri Mýsköpunar. Vísir/Arnar

Lítið nýsköpunarfyrirtæki í Mývatnssveit vinnur nú að framleiðslu á sérmývetnskum þörungi. Það næringaríkasta sem hægt er að rækta, segir framkvæmdastjórinn.

Í húsnæði gömlu kísiliðjunnar í Mývatnssveit hafa frumkvöðlar nýsköpunarfyrirtækisins Mýsköpunar komið sér fyrir.

„Hér erum við að vinna með Mývatns-Spírulínu, sér mývetnskan spírulínustofn sem fannst í heitum lindum í Mývatni,“ segir Júlía Katrín Björke, framkvæmdastjóri Mýsköpunar.

Spírulínan er ræktuð í sérstökum túbum.

„Þetta er eins of fljótandi gróðurhús. Við byrjum á því að gefa þörungnum æti og vatn og pössum að hann hafi aðgang að lofti og koltvísiringi,“ segir Júlía.

Úr túbunum er spírulínan síuð í duft, sem ætlað er til manneldis.

„Þetta er það næringaríkasta sem hægt er að rækta. Við fáum þarna 60-70 prósent prótein sem er mjög auðmeltanlegt fyrir okkur, fullkomin samsetning af amínó-sýrum, steinefnaríkt með snefilefnum og svo andoxunarefni sem eru þessi litarefni,“ segir Júlía.

Ferðamenn spenntir fyrir þörungabrugginu

Það er hægt að nota Spírulínu í ýmislegt, meðal annars sem bragð- og litarefni í ís, eins og fréttamaður komst að raun um þegar hann fékk að smakka myntuís með súkkulaði þar sem búið var að bæta við spírulínu, en sjá má heimsókn fréttastofu til Mýsköpunar í spilaranum hér að ofan.

Framleiðsluvara Mýsköpunar er þetta duft.Vísir/Arnar.

Fyrirtækið sér fyrir sér að geta vaxið á ýmsum sviðum, meðal annars í ferðaþjónustu.

„Fólk er spennt að sjá svona þörungabrugg, fá að smakka ísinn og læra aðeins um jarðhitann, nýtinguna hérna á Íslandi. Ég sé fyrir mér að við munum vaxa og dafna á þessum þremur sviðum. Að við munum taka á móti hópum ferðamanna, sýna þeim þetta. Framleiða áfram okkar eigin vöru og svo þróa áfram þessa möguleika sem hægt er að nýta varðandi þörungaframleiðslu.“

Þannig að framtíðin er björt hjá Mýsköpun?

„Mjög spennandi myndi ég segja.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.